Forysta SÁÁ sjálfkjörin á fjölsóttum aðalfundi

Eftir fjölsóttan aðalfund sem haldinn var í gær eru kynjahlutföll í stjórn SÁÁ jafnari en nokkru sinni fyrr í sögu samtakanna. 48 manna stjórn samtakanna er nú skipuð 25 körlum og 23 konum en voru áður 27 karlar og 21 kona.  Arnþór Jónsson var endurkjörinn formaður SÁÁ á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar strax að loknum aðalfundinum í gær.  Engin mótframboð bárust. Þar var einnig kosin ný framkvæmdastjórn og sitja þar nú þrjár konur og fimm karlar í stað tveggja kvenna og sex karla áður; Erla Björg Sigurðardóttir tekur sæti Theodórs S. Halldórssonar.

Störf aðalfundarins voru með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum SÁÁ. Tillögum sextán stjórnarmenn til næstu þriggja ára voru samþykktar án mótframboðs. Þá voru tveir kosnir til tveggja ára í stað tveggja sem óskuðu eftir að víkja úr stjórn.

Framtíðaruppbygging á Vík

Í skýrslu Arnþórs Jónssonar, formanns SÁÁ, kom m.a. fram að frá Hruni hefur ríkið dregið úr kaupum á þjónustu SÁÁ um 25% en þrátt fyrir það hafi samtökin kappkostað að skerða þjónustuna sem minnst. Vörnin hafi verið kostuð með sjálfsaflafé samtakanna. „Fyrir utan samninginn um Vog eru allir samningar SÍ og SÁÁ útrunnir,“ sagði Arnþór. „SÍ bregst þannig lagaskyldu sinni og gerir SÁÁ að vinna í umhverfi sem mótast af óvissu – erfiðleikum í allri áætlanagerð sem takmarkar getu okkar og samfélagsins okkar til að móta framtíðina og bæta þjónustuna. Í þessu ástandi geta mikil verðmæti og tækifæri tapast.“

Þá sagði Arnþór að á síðasta fundi 48 manna stjórnar SÁÁ hefði verið  samþykkt að hefja undirbúning að byggingu nýs meferðarheimilis á Vík –  eignarlandi samtakanna á Kjalarnesi.  Með uppbyggingu á Vík  myndi starfsemi á Staðarfelli að öllum líkindum leggjast af en gamli húsmæðraskólinn þar sé orðinn 90 ára og geti varla þjónað lengur sem húsnæði undir heilbrigðisþjónustu í nútíma samfélagi.

Síðan sagði Arnþór: „Stór tækifæri eru fyrir SÁÁ og samfélagið allt og byggja upp heilbrigðisþjónustu á Vík. Landið nýtur nálægar við Reykjavík og meginstarfsemi SÁÁ. Þar er hægt að vera með kynskipta meðferð í nútímalegu húsnæði sem uppfyllir allar kröfur um heilbrigðisþjónstu, upplýsingatækni og almenn þægindi. Þar er einnig hægt að byggja upp þjónstu eins og langtíma búsetuúrræði fyrir þá sem eru eldri – lífsleiknisskóla fyrir edrú ungmenni – þjónustu fyrir aðstandendur – meðferð fyrir fullgreiðandi erlenda skjólstæðinga – listinn er endalaus og ljóst að við þurfum að safna hugmyndum okkar saman og vanda okkur.  Á landinu getum við einnig ef við erum útsjónarsöm og snjöll haft sjálfbæra atvinnustarfsemi sem skapar félaginu tekjur og léttir álagi af fjáröflunarstarfinu.

Stjórn SÁÁ þarf að taka frumkvöðla og stofnendur SÁÁ sér til fyrirmyndar. Við þurfum eins og þeir að eiga óskir og stóra drauma um betra samfélag. Við erum í góðri stöðu til að byggja við og útvíkka og stækka enn frekar þjónustuna sem SÁÁ rekur og hefur rekið í bráðum 38 ár. Við þurfum að leggjast í þarfagreiningu með fagfólkinu sem vinnur hjá samtökunum. Við þurfum að beita áhrifum okkar út á við. Hugsa til framtíðar og vera óhrædd að tala máli SÁÁ. Skapa fagfólki okkar og sjúklingum okkar og aðstandendum þeirra umgjörð sem við getum skilað til næstu kynslóða líkt og stofnendur SÁÁ gerðu fyrir okkur. Alkóhólismi og fíknsjúkdómar eru ekki lengur tabú í okkar góða samfélagi – sá tími er liðinn.

Nú er mikil umræða í landinu um alkóhólisma og meðferðarmál. Sú umræða er knúin áfram af áhugafólki sem vill koma góðu til leiðar fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga á Íslandi. Við hljótum að fagna allri slíkri umræðu og trúa því að þessi gerjun leiði til batnandi meðferðar og heilbrigðisþjónustu þegar fram líða stundir.  Um leið og við fögnum því að enn dreymir fólk stóra drauma um betri meðferð skulum við hafa bak við eyrað að erlend ríki og virtar alþjóðastofnanir horfa nú til Íslands og SÁÁ um það hvernig standa eigi vel og með ódýrum hætti að meðferð við fíknsjúkdómum fyrir allan almenning. Það er mikilvægt að þróunarstarf okkar og framtíðardraumar skaði ekki eða skerði þá heilbrigðisþjónustu sem íslenskir áfengis- og vímuefnasjúklingar njóta í dag.“

Þórarinn Tyrfingsson, lækningaforstjóri SÁÁ, flutti skýrslu sjúkrasviðs samtakanna sem nánar verður gerð grein fyrir síðar hér á vefnum.

200 milljóna framlag SÁÁ tryggir hallalausan sjúkrarekstur

Ásgerður Th. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs SÁÁ, gerði grein fyrir reikningsskilum samtakanna en frammi lágu annars vegar ársreikningar samstæðu SÁÁ, endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum, og hins vegar ársreikningar sjúkrareksturs SÁÁ, endurskoðaðir af Ríkisendurskoðanda.

Glærur úr kynningu Ásgerðar eru hér að neðan en þar sést að framlag upp á 198,4 milljónir króna frá SÁÁ gerir að verkum að hagnaður/tap ársins 2014 á sjúkrarekstri SÁÁ er 0 krónur. Eiginfjárstaða allra félaga SÁÁ batnaði samtals um 22,5 milljónir króna á síðasta ári. Í máli Ásgerðar kom fram að viðræður við fjármálaráðuneytið um þær eftirlaunaskuldbindingar, sem færðar eru á samtökin í reikningshaldi, halda áfram en þær hafa staðið yfir árum saman. Þetta eru eingöngu skuldbindingar frá því fyrir kerfisbreytingar sem gerðar voru fyrir um 20 árum. Síðustu ár hefur ríkisvaldið létt sambærilegum skuldbindingum af nokkrum samtökum í velferðarþjónustu og standa vonir til að samningar þess eðlis náist milli SÁÁ og ríkisins fljótlega enda fallast samtökin ekki á að skuldbindingarnar tilheyri þeim þótt þær séu færðar í reikningsskilin. Sama á við hvað þetta varðar um SÁÁ og önnur helstu fyrirtæki í velferðarþjónustu hér á landi.

 

https://saa.is/wp-content/uploads/2015/06/adalfundur-arsreikningar-SÁÁ-2014.pdf