Frá föngum til barna

Vogur er sjúkrahús sem veitir sérhæfða afeitrun og meðferð við fíknsjúkdómi. Líkt og á öðrum sjúkrahúsum eru það aðeins læknar, í þessu tilfelli læknar SÁÁ, sem ákveða hverjir eru í þörf fyrir meðferð og ekki síður hvenær meðferð hefst. Slík ákvörðun verður ekki tekin annars staðar.

SÁÁ hefur mátt sæta nokkuð óvæginni gagnrýni undanfarin ár. Gagnrýnin hefur meðal annars beinst að því að fullorðnir og börn eigi ekki að vera saman í meðferð. Nýleg úttekt Embættis landlæknis á öryggi barna og kvenna í meðferð segir sína sögu. Einnig hefur það verið gagnrýnt að fangar geti tekið út hluta af refsingu sinni á Vogi. Þarna er um ólíka hópa að ræða – fanga, börn og konur – og í því kristallast hluti vandans.

Nú gerist það að SÁÁ er gagnrýnt fyrir að taka ekki við börnum í meðferð og útiloka fanga. Hvorugt er rétt. Í tilfelli fanganna snýst málið um fullnustu refsingar og rétt fanga til að ljúka afplánun í meðferð eða annars staðar. Læknar SÁÁ geta ekki tekið ábyrgð á slíkum ákvörðunum og valið eða hafnað á svo framandi forsendum.

Í dag eru 5-600 manns á biðlista eftir meðferð hjá SÁÁ. Sumir þurfa að bíða í mánuði, aðrir í vikur og enn aðrir telja dagana. Biðin fer eftir faglegu mati lækna hjá SÁÁ og forgangur í meðferð byggist þannig á læknisfræðilegri greiningu um ástand sjúklingsins.

Sérhæfð heilbrigðisþjónusta kostar viðbúnað og fé. Krafan í dag er sú að börn séu ekki í meðferð með fullorðnum. Ólögráða unglingar með vanda af fíkn geta eftir sem áður þurft inniliggjandi meðferð. Sjúkrahúsið Vogur hefur sinnt þessum viðkvæma og oft hætt komna hópi af þeirri einföldu ástæðu að aðgengi að sjúkrahúsvist annars staðar er lítið eða ekkert. Sjúklingarnir og aðstandendur þeirra leita til SÁÁ. Mikill viðbúnaður er um þjónustuna. Ungmennadeildin er á sérstökum gangi sem lokuð er öðrum sjúklingum. Allt meðferðarstarf fer fram inni á deildinni og þar er sólarhringsvakt ráðgjafa alla daga. Hins vegar er ekki unnt að hafa ólögráða unglinga í sérhúsnæði alfarið og ekki verður gengið mikið lengra í aðskilnaði á sjúkrahúsinu.

Heilbrigðisráðherra hefur óskað eftir því að SÁÁ sinni áfram ólögráða börnum þar til annað úrræði er í augsýn. Við erum að sjálfsögðu til samvinnu um það en afar brýnt er að þessi hópur hafi aðgang að sérhæfðri heilbrigðisstofnun. Sjúkrahúsið Vogur er í dag staðurinn sem tekur á þessum heilbrigðisvanda sem er sjúkdómur fíknarinnar fyrir þennan aldur.

Hið sama má segja um fangana. Við hjá SÁÁ teljum nauðsynlegt að fangar fái meðferð við fíknsjúkdómi eins og aðra heilbrigðisþjónustu. Við viljum gjarnan koma að þeirri vinnu. Um slíka meðferð þarf að vera samningur um verklag, faglegt mat og áætlanir sem uppfylla skilmerki laga og kröfulýsingu eftirlitsaðila. Allt þetta þarf svo að þjóna hagsmunum einstaklingsins.

Stóra vandamálið er skortur á þjónustu fyrir fólk með fíknsjúkdóm. Það vantar sérhæfða heilbrigðisþjónustu í fangelsin. Og það vantar þjónustu fyrir þá veikustu og þá yngstu.

Vogur er sjúkrahús sem leggur metnað sinn í að veita ólíkum hópum samfélagsins þjónustu um leið og öryggi allra er tryggt. Ef þú eða einhver sem þér þykir vænt um þarf aðstoð vegna áfengis- eða vímuefnavanda hafðu þá samband. Það eru allir velkomnir til SÁÁ.

Arnþór Jónsson,
formaður SÁA