Valmynd
english

Spurningar og svör um kannabisefni

Umræða um kannabisefni hefur verið veruleg á opinberum vettvangi. Þeir sem umgangast unglinga í leik og starfi telja að jákvæð viðhorf til kannabisneyslu séu orðin mjög útbreidd og að hugmyndir um skaðleysi kannabis séu útbreiddari en áður.

Við bendum á nokkrar staðreyndir:

 • Nýjustu rannsóknir staðfesta að neysla kannabisefna stendur í sterkum tengslum við stóraukna áhættu á geðrofssjúkdómum hjá ungu fólki.
 •  Hundruð ungra einstaklinga leita sér aðstoðar á Vogi ár hvert vegna þess að þeir hafa misst tökin á lífi sínu vegna neyslu kannabisefna.
 • Meirihluti alvarlegra áfalla sem setja líf ungmenna úr skorðum tengjast vímuefnaneyslu beint eða óbeint.

Að neðan eru settar fram sem spurningar og svör varðandi nokkrar staðreyndir um kannabisefni:

Hvað eru kannabisefni?

Þegar talað er um kannabisefni er átt við þær afurðir kannabisplöntunar (Cannabis sativa) sem innihalda vímuefni. Helstu afurðirnar sem þekktar eru á vímuefnamörkuðum vesturlanda eru marihuana, hass og hassolía.

Allar afurðir kannabisplöntunnar innihalda efnið THC (delta-9- tetrahydrocannabinol) sem breytir andlegu ástandi neytandans. Kannabisefni eru þó ekki hrein efni því þau innihalda meira en 400 önnur efni auk þess sem yfir 2000 efnasambönd myndast og fara inn í líkamann í einhverju magni þegar efnið er reykt..

Áhrif kannabisefna á neytandann fara eftir THC styrk þeirrar afurðar sem neytt er. Vegna kynbóta á kannabisplöntunni hefur THC styrkur þeirra kannabisefna sem neytt er aukist mikið frá 1970.

 • Maríijúana inniheldur u.þ.b. 3% THC
 • Hass inniheldur u.þ.b. 3,6% THC en getur náð allt að 28%
 • Hassolía inniheldur u.þ.b. 16% THC en getur náð allt að 43%

Rétt er að taka fram að af þessum þermur afurðum er hass lang algengasta kannabisefnið hér á landi og víðast hvar í Evrópu. Í þessum upplýsingum um kannabisefni er því oftast verið að tala um neyslu á hassi.

Hvernig líta kannabisefni út?

marijuanaMaríjúana er græn, brún eða grá blanda af þurrkuðum laufblöðum, stönglum, fræum og blómum kannabisplöntunar. Ódýrasta afbrigðið er unnið úr efsta hluta villtra kannabisplantna, en mikið af því marijuana sem neytt er á markaðnum er af þessari gerð. Hægt er að fá mun sterkara marijuana með því að skera ofan af sérstaklega völdum og ræktuðum plöntum, helst kvennplöntum. Til dæmis hefur verið þróuð ræktunaraðferð sem nefnd er Sinsemilla (sin-she-me-yah) sem nær fram mjög vímuefnaríku maríjúana.

Hass er að mestu unnið úr jurtakvoðunni (harpixnum) sem blómasprotar kannabisplöntunnar gefa frá sér. Það er mulið, sigtað og hreinsað. Harpixinn er svo pressaður í kökur sem hafa að geyma mismikið af blómasprotum. Hassið er vímuefnaríkara en maríjúana. Liturinn á hassi er allt frá ljósbrúnu að nærri svörtu.

Hassolía er búin til með því að láta lífræn leysiefni draga kannabínóið úr hassi eða kannabisplöntunni. Úr því fæst seigfljótandi vökvi sem oftast hefur mun meira THC innihald en marijuana og hass. Hassolía er yfirleitt svar/græn-brún og ber fremur óþægilegan beiskan keim.

Hvernig er kannabisefna neytt?

Maríjúana er vafið inn í sígarettubréf og kallast þá „joint“, „jóna“ eða nagli. Það er einnig reykt úr pípu, því blandað saman við mat eða búið er til te úr því.

Hassi er oft blandað saman við tóbak og reykt eða það er notað hreint, gjarnan í heimatilbúnum vatnspípum. Hassi má einnig blanda út í mat og sælgæti.

Hassolíu er oft blandað saman við reyktóbak, því smurt innan á sígarettubréf sem vafið er utan um maríjúana eða því smurt utan á venjulega sígarettur og reykt.

Reykingar kannabisefna eru nokkuð frábrugðnar sígarettureykingum. Neytandinn þarf að sjúga reykinn djúpt ofan í lungun og halda honum þar í 15 – 30 sek. til þess að ná sem mestu THC út í blóðið.

Allri neyslu fylgja ýmis tól og tæki sem nauðsynleg eru við meðhöndlun efnanna og neyslu þeirra. Foreldrar ættu því að hafa augun opin fyrir ýmsum áhöldum sem leynst geta í herbergi barnsins, finna má í ruslafötum, vösum eða annarsstaðar þar sem barnið er líklegt til að fela hluti sem ekki mega vera fyrir allra augum.

Algengt er að hass sé reykt úr ýmiss konar pípum, þá bæði heimatilbúnum og/eða keyptum. Búa má til hasspípu úr nánast hverju sem er og ættu foreldrar því að vera vakandi fyrir áhöldum eins og gosflöskum með brunagötum á, áldósum og öðru því sem nýta má til neyslu. Þannig er algengt að neytendur brenni gat á plastgosflösku til að sjúga reykinn í gegnum og noti svo topp úr topplyklasetti sem pípuhaus í flöskustútinn. Einnig hefur oft verið lagt hald á áldósir sem notaðar hafa verið til hassreykinga. Þá ættu foreldrar að líta eftir öðrum búnaði sem gjarnan fylgir neyslunni. Þannig er álbréfið innan úr sígarettupakkanum gjarnan notað til að hita hassið fyrir neyslu og plastið utan af sígarettupakkanum notað til að geyma hassið í. Einnig má benda á að síur úr blöndunartækjum eru gjarnan notaðar í tilbúnu pípuhausana og ættu foreldrar því að vera á verði ef síur fara að hverfa á heimilinu. Þá geta litlar vogir og annar mælibúnaður gefið vísbendingar um hassneyslu þar sem neytendur ganga gjarnan með slíkt til að tryggja að þeir verði ekki sviknir í fíkniefnaviðskiptum.

Foreldrar ættu einnig að hafa í huga að þegar hassi er blandað við tóbak má gjarnan finna filtera og bréf utan af sígarettum í vösum og ruslafötum.

Hvaða orð eru notuð yfir kannabisefni?

Það eru mörg mismunandi nöfn notuð yfir kannabisefni en þau breytast gjarnan snögglega. Þau eru einnig mismunandi milli neytendahópa og landsvæða.

Orð eins og gras, maríanna, maría, jóna og auli eru gjarnan notað yfir maríjúana. Þegar talað er um hass er gjarnan talað sem skít, stuð, afgana, líbanóa, bút, mola og hnulla.

Er hægt að taka inn of stórann skammt af kannabisefnum?

Sá skammtur er aðeins til tölfræðilega því magnið þarf að vera það mikið að það getur enginn innbyrt það í einu. Þetta hefur m.a. verið ein af helstu rökum þeirra sem tala með kannabisneyslu. Þeir hafa bent á að tóbak og alkóhól séu efni sem eru mun hættulegri en kannabis þar sem fólk geti dáið af völdum neyslu þess.

Þó að kannabisefni séu tiltölulega örugg gagnvart „dauðaskammtinum“ er það ljóst, eins og skýrlega kemur fram í þessari samantekt, að stórnotkun kannabisefna getur aukið líkur á margskonar heilbrigðis- og félagslegum vandamálum.

Get ég séð hvort barnið mitt er í vímu?

Neysla kannabisefna leiðir til margvíslegra breytinga í útliti og hegðun barns. Ef þig grunar að barn þitt hafi nýlega neytt kannabisefna ættir þú að skoða eftirfarandi:

 • Virðist barnið svima og eiga erfitt með gang?
 • Virkar barnið kjánalegt og flissar út af engu?
 • Er það mjög rauðeygt og jafnvel með blóðhlaupin augu?
 • Er það mjög þurrt í munninum?
 • Á barnið erfitt með að muna það sem verið var að segja við það?
 • Ar barnið óeðlilega syfjað?

Foreldrar ættu að fylgjast með einkennum eins og einangrun, þunglyndi, ábyrgðarleysi, árásarhneigð og versnandi tengslum við fjölskyldu og vini. Þá er rétt að vera á varðbergi gagnvart versnandi gengi í skóla og námi, minnkandi áhuga á tómstundum og breytingum á matar- og svefnvenjum.

Rétt er að hafa það í huga að þessi einkenni geta átt rót sína að rekja til annarra vandamála en fíkniefnaneyslu.

Ef grunur er um að barn sé í kannabisneyslu ættu foreldrar einnig að vera vakandi fyrir:

ummerkjum um vímuefni og verkfærum til að neyta þeirra s.s. pípum, vigtum, sígarettupappír, álpappír, filmuboxum og plastfilmubútum

 • sérstakri lykt af fötum og í vistarverum
 • notkun reykelsa og annarralykteyðandi efna
 • notkun augndropa
 • fötum, plagötum, skartgripum o.fl. sem upphefja vímuefnaneyslu.

Fái foreldrar hins vegar vissu um að barn þeirra sé byrjað í fíkniefnaneyslu er brýnt að halda ró sinni og fá faglega ráðgjöf um það hvernig best er að bregðast við. Mikilvægt er að loka ekki augunum fyrir vandanum heldur leitast við að takast á við hann strax því með tímanum getur vandinn orðið djúpstæðri og alvarlegri.

Leiðir neysla kannabisefna til neyslu annarra vímuefna?

Langtíma rannsóknir á grunn- og framhaldsskólanemendum hafa leitt í ljós að mjög lítill hluti ungs fólks neytir annarra vímuefna án þess að hafa prófað kannabisefni áður. Í Bandaríkjunum hefur verið reiknað út að áhættan á því að einhver prófi kókaín sé 104 falt meiri fyrir þá sem hafa neytt kannabisefna en hinna sem aldrei hafa neitt þeirra. Samt sem áður eru engar rannsóknir sem benda skýrlega til þess að neysla á kannabisefnum leiði til neyslu annarra vímuefna enda þarf að skoða líffræðilega, sálfræðilega og félagsleg þætti til að skýra tengsl milli neyslu ólíkra gerða fíkniefna.

Neysla kannabisefna er engu að síður talinn stór áhættuþáttur varðandi það að fara út í neyslu sterkari efna. Þetta mat byggir m.a. á rannsóknum á áhrifum langvarandi kannabisneyslu á miðtaugakerfið. Þannig hafa slíkar rannsóknir bent til þess að langvarandi kannabisneysla valdi breytingum í heilanum sem síðan leiðir til þess að neytendur verða í meiri hættu gagnvart því að verða háðir öðrum vímuefnum, eins og áfengi og kókaíni, en þeir sem ekki neyta kannabisefna.

Hvernig eru áhrifin af kannabisefnum?

Áhrif kannabisefna á neytandann fara eftir því:

 • hvaða kannabisefnis er neytt og hversu mikið magn af THC er í því
 • hvernig efnisins er neytt (reykt eða borðað)
 • reynsla og væntingar neytandans
 • umhverfið þar sem neyslan fer fram
 • hvort verið er að neyta annarra vímuefna samtímis

Sumir verða einskis varir þegar þeir neyta kannabisefna í fyrsta skiptið. Aðrir upplifa vímu. Það er algengt að neytendur verði mjög uppteknir af hlutum eins og hljóðum, bragði og ýmsu sem ber fyrir augun. Þá geta hversdagslegir hlutir orðið mjög fyndnir eða magnast upp og fengið óskipta athygli neytandans. Tíminn virðist líða mjög hægt. Efnið getur valdið þorsta og þurrki í munni. Einnig magnast hungurtilfinning upp.

Hvað gerist hjá neytandanum þegar kannabisefna er neytt?

Ef efnið er reykt mun neytandinn innan nokkurra mínútna finna fyrir vímuáhrifum. Samfara því verður hann þurr í munninum, hjartsláttur eykst, hann verður fyrir vægri röskun á jafnvægi og samhæfingu auk þess sem viðbragðsflýtir skerðist. Æðar í augum þenjast út og neytandinn verður rauðeygður.

Hjá sumum neytendum eykur kannabisefni blóðþrýsing og geta tvöfaldað púlsinn. Þessi áhrif geta verið mjög alvarleg sérstaklega þegar öðrum efnum eins og t.d. amfetamíni, hefur verið blandað saman við kannabisefnin. Neytendur eru berskjaldaðir fyrir þessu þar sem upplýsingar um hvort efnið er blandað eða ekki liggja ekki á lausu.

Hve lengi eru kannabisefni að hreinsast út úr líkamanum?

Efnið THC í kannabisplöntunni sest í fitufrumur hinna ýmsu líffæra þ.á.m. heila. Oftast er hægt að fá staðfestingu á neyslu með venjulegu þvagprófi nokkrum dögum eftir að efninsins var neytt. Þegar um er að ræða mikla neyslu er hægt að finna THC með þvagprófi jafnvel nokkrum vikum frá því að efnisins var neytt síðast. Ástæðan er sú, að líkaminn er tiltölulega lengi að losa sig við efnið og við reglulega neyslu hleðst THC upp í fituvefjum líkamans og hverfur ekki fyrr en eftir nokkrar 3-6 vikur.

Hvað gerir kannabisneyslu skaðlega?

Sá skaði sem neytandinn verður fyrir er margvíslegur og jafnvel strax við fyrstu notkun. Vitað er að í kannabisjurtinni eru fleiri krabbameinsvaldandi efni en í sígarettum auk aragrúa annarra efna og efnasambanda sem lítið eða ekkert hafa verið rannsökuð.

Eins og áður hefur komið fram eykur neysla kannabisefna hjartslátt og í sumum tilfellum hækkar blóðþrýstingur. Ef neytendur eru veilir fyrir hjarta eða með æðasjúkdóma getur neyslan haft alvarlegar afleiðingar.

Áhrif kannabisneyslu á heilastarfsemi er einnig margþætt. Þannig dregur úr viðbragðsflýti einstaklings sem neytt hefur kannabisefna og hann verður óhæfur til aksturs og annarra athafna sem krefjast einbeitningar. Einnig leiðir neysla kannabisefna til skerðingar á dómgreind þannig að áhættuhegðun eykst s.s. ógætilegt kynlíf og þar af leiðandi hætta á ótímabærri þungun eða smitsjúkdómum á borð við klamedíu, leganda og eyðnismiti.

Kannabisefni hafa áhrif á skammtímaminnið, hæfni til að greina aðalatriði frá aukaatriðum og einbeitningu þannig að neytendur eiga erfitt með að leysa flókin verkefni. Neysla kannabisefna getur því mjög fljótlega komið niður á náms- og starfshæfni. Þessi skerðing á námshæfni virðist aukast eftir því sem neysluferillinn er lengri.

Getur maður orðið háður kannabisefnum?

Já. Það er samt ekki hægt að segja að allir sem neyta kannabisefna verði háðir þeim. Til þess að verða háður einhverju efni er oft miðað við að tvær forsendur þurfi að vera til staðar. Annað er að mynda þol gagnvart áhrifum efnisins og hitt er að fráhvarfseinkenni komi í ljós þegar notkun er hætt. Það hefur sýnt sig að þeir sem reykja þrjá kannabisvindlinga og meir í viku mynda þol gagnvart efninu.

Stórneysla getur einnig skapað væg frákvarfseinkenni. Vegna þess hve THC hverfur hægt úr líkamanum á neytandinn auðveldara með að aðlagast afeitruninni hægt og rólega heldur en þegar um önnur efni er að ræða eins og anfetamin. Frákvarfseinkennin eru pirringur, óróleiki, angist, flökurleiki, lystarleysi, svefntruflanir, þyngdartap og skjálfti í höndum. Því er ljóst að maríjúana uppfylli báðar forsendur þess sem þarf til þess að flokkast undir vanabindandi efni.

Er til meðferð fyrir kannabisneytendur?

Já. SÁÁ annast að mestu áfengis- og vímuefnameðferð fyrir ungt fólk á Íslandi. Á síðustu árum hefur fjöldi þeirra unglinga sem leitar sér meðferðar vegna áfengis- og vímuefnavanda aukist verulega. Neysla þessa unga fólks hefur sífellt aukist og orðið fjölskrúðugri. Sú meðferð sem SÁÁ hefur boðið uppá hefur því sífellt verið að þróast í takt við þær breytingar sem hafa orðið á neyslunni.

Meðferð á Vogi tekur 10 daga. Ef unglingarnir eru nægilega áhugasamir um meðferðina og hegðun þeirra er nógu góð, er lagt að þeim að halda áfram í meðferð í fjórar vikur. Sú meðferð fer fram á meðferðarheimilum SÁÁ á Staðarfelli í Dölum og Vík á Kjalarnesi. Unglingunum virðist líka meðferðin vel. Meirihluti þeirra lýkur fullri meðferð þó að sumir þurfi að reyna tvisvar til þrisvar sinnum áður en það tekst.

SÁÁ hefur nú boðið unglingum upp á meðferð með hinum fullorðnu í nær 20 ár með góðum árangri. Vissulega hefur meðferðin verið sniðin að þörfum unglinganna þó svo að þeir hafi dvalið með hinum fullorðnu. Einkum er lögð áhersla á einstaklingsmeðferð auk þess sem fræðslan og hópastarfið er lagað að þörfum unglinganna. Í ársbyrjun 2000 verður opnuð sérstök unglingadeild á Vogi þar sem enn frekar verður komið til móts við unga fólkið og gæði meðferðarinnar aukin.

Er hægt að nota kannabis sem læknislyf?

Það hafa farið fram miklar rannsóknir og umræður um möguleika kannabisefna til lækninga. Í USA er kannabis flokkað sem „Schedule 1“ lyf. Það þýðir: „mikil hætta á misnotkun, engar viðurkenndar niðurstöður um notagildi í læknisfræðilegum tilgangi, alla vegana ekki þegar það er reykt“.

Þegar verið er að ræða um mögulega notkun kannabisefna til lækninga er mikilvægt að greina á milli kannabisefna sem hrárrar vöru og hreins THC eða annarra hreinna efna sem unnin eru úr kannabisplöntunni. Í kannabisplöntunni eru yfir 400 efni og það myndast yfir 2000 efnasambönd þegar plantan er reykt. Sum þessara efna og fnasambanda eru mjög hættuleg heilsu manna.

THC hefur verið unnið úr kannabisplöntunni og sett í töfluform sem tekið er inn með því að gleypa það. Þetta hefur reynst ágætlega við ógleði og uppköstum krabbameins-sjúklinga. Þá hafa þessar töflur aukið matarlyst alnæmissjúklinga og komið þannig í veg fyrir að þeir léttist um of. Hins vegar má benda á að til er fjöldi annarra lyfja sem gerir alveg sama gagn.

Vísindamenn eru enn að rannsaka hvort kannabisefni s.s. THC geti haft eitthvert sérstakt læknisfærðilegt gildi umfram önnur lyf þannig að það væri þess virði að nota það. Vísindamenn telja að það þurfi mun meiri rannsóknir á ýmsum þáttum kannabisefna áður en hægt er að gefa út yfirlýsingu um notagildi kannabis. Hins vegar hefur því verið slegið föstu að lækningmátturinn, ef einhver er, liggi ekki í því að reykja kannabisefnin.