Valmynd
english

Um samstöðu foreldra

Foreldrar gegna stóru hlutverki í forvörnum gegn áfengis- og vímuefnaneyslu barna sinna. Uppeldisaðferðir okkar og tengsl við unglinginn innan fjölskyldunnar skipta máli. Þar geta úrlausnarefni okkar verið margvísleg og breytileg. Á hinn bóginn eru nokkur verkefni eða málefni sem allir foreldrar standa frammi fyrir óháð því hvernig uppeldisstarfið gengur. Þetta eru þau málefni sem snúa að samstöðu allra foreldra annars vegar og afstöðu okkar til áfengis- og vímuefna. Í flestum tilvikum erum við þokkalegustu uppalendur og sem betur fer eru vandamálin okkar ekki stóralvarleg, þó auðvitað séu undantekningar. Góð viðleitni okkar og framúrskarandi árangur skila sér þó ekki eins og til er stofnað ef við hyggjum ekki að eftirfarandi verkefnum.

Samstaða foreldra

Foreldrar þurfa að standa saman. Unglingarnir okkar eru að taka afdrifarík skref út í lífið þar sem jafningjahópurinn skiptir þá miklu máli. Á þessu skeiði vísa unglingar gjarnan til þess sem vinur eða vinkona mega gera og höfða til sanngirni okkar til að fá sitt fram. Foreldrar hafa mismunandi gildismat og setja ólíkar reglur um margvísleg mál og fylgja þeim eftir af mismiklum þunga. Slíkt misræmi milli heimila er eðlilegt í mörgum tilvikum. Sum málefni eru samt þannig vaxin að misræmi milli heimila getur verið bagalegt. Hér er átt við reglur um hegðun og hátterni unglinga úti í samfélaginu sem eru alls ekki eða á mörkunum að heyra undir einkamál fjölskyldunnar. Dæmi um þetta eru t.d. útivistareglur.

Tilkynningaskylda og eftirlit

Rannsóknir hafa sýnt að því meira sem foreldrar vita um hagi, ferðir og félaga barna sinna á unglingsaldri, því síður lenda þau í vandræðum vegna áfengis og vímuefna. Með öðrum orðum – því betur sem við fylgjumst með unglingnum okkar þess meiri líkur á að hann komist hnökralaust í gegnum unglingsárin.

Hér er ekki verið að tala um strangt eftirlit og smásmugulega afskiptasemi. Hér er aðeins verið að tala um að foreldrar viti og fylgist með hverja unglingurinn umgengst, hvar hann er staddur hverju sinni, hvað hann verður lengi, hverju hann hefur áhuga á o.s.frv. Þetta virðist skila þeim árangri að unglingurinn finnur til meira öryggis og upplifir að hann skipti foreldra sína miklu máli. Auk þessa skynja foreldrar vandamál á forstigi og grípa ósjálfrátt inn með hefðbundnum uppeldisaðferðum sem þeir kunna.

Útivistareglur

Unglingar nota kvöldin og helgarnar til að drekka áfengi. Þetta er sá tími þar sem krakkar komast í aðstæður til að gera slíkt. Því eru útvistareglur þýðingarmikill þáttur í forvörnum. Oft er hópamyndun unglinga á kvöldin og um helgar með tilheyrandi ærslum og gauragangi höfð til marks um „unglingavandamál“ og vex fólki mjög í augum. Hér er þó fremur um vandamál fullorðinna að ræða sem hafa ekki sett og fylgja ekki eftir skynsamlegum útivistareglum með þeim ráðum sem til eru. Í ljós hefur komið að víðast hvar gengur mjög vel að koma útivistareglum og virðingu fyrir þeim í gott horf. Kemur þá í ljós að „unglingavandamálið“ sem áður sást var fremur á yfirborðinu og krakkar sem eru á hættulegri braut koma þá í ljós og skera sig úr fjöldanum.

Framhald: 1 2 3 4 5