Valmynd
english

Vín handa unglingum?

Umhugsunarefni fyrir foreldra

Í einkasamtölum og alls konar fundum og fræðslukvöldum er þeirri spurningu stundum beint til okkar sem vinnum við forvarnir hvort skynsamlegt sé af foreldrum að kaupa áfengi fyrir börn sín á unglingsaldri. Flestu fólki þykir þetta reyndar með öllu fráleitt. Staðreyndin er þó sú að margir foreldrar gera þetta. Sumir í góðri trú en aðrir láta undan fortölum og þrýstingi unglinganna („Já, en mamma hennar Siggu ætlar að kaupa bjór handa henni!“).

Full ástæða er til að gaumgæfa þær hugmyndir sem liggja á bak við þá afstöðu að rétt sé að kaupa áfengi fyrir unglinga og viðhafa annað „frjálslyndi“ þegar vín og unglingar eru annars vegar. Jafnvel þótt okkur komi ekki til hugar að kaupa áfengi fyrir unglingana okkar þurfum við að ígrunda þá skoðun vel. Við þurfum að skoða málið frá sem flestum hliðum og móta okkur bjargfasta skoðun.

Getum við stjórnað einhverju?

Þegar fólk kaupir áfengi fyrir unglingana sína telur það sér stundum trú um að með því sé hægt að hafa einhver áhrif til góðs. Hugleiðið og ræðið eftirfarandi fullyrðingar:

  • Ef ég kaupi áfengi fyrir unglinginn veit ég hvað hann drekkur mikið.
  • Ef ég kaupi áfengi fyrir unglinginn veit ég að hann er ekki að drekka neina ólyfjan á meðan (t.d. landa).
  • Ef ég leyfi unglingnum að drekka heima undir eftirliti lærir hann að fara með áfengi.
  • Við gerðum þetta fyrir eldri börnin og þau hafa ekki lent í neinum vandræðum.

Er ljótt að banna börnunum sínum?

Sumir foreldrar vilja ekki vera strangir og leiðinlegir. Almennt talað þykir það dyggð nú á tímum að vera frjálslyndur og fordómlaus. Spurningin er hvort það sé þröngsýni og kúgun að vera á móti eða banna börnunum sínum eitthvað.

Veltið fyrir ykkur eftirfarandi fullyrðingum

Framhald: 1 2 3