Freeport-klúbburinn í heimsókn

Freeport-klúbburinn er félagsskapur þeirra Íslendinga sem leituðu sér meðferðar við áfengissýki í Bandaríkjunum, flestir á árunum 1975 til 1978. Einstaklingar úr þeim hópi tóku saman höndum um stofnun SÁÁ árið 1977. Þeir halda enn hópinn og hittast og borða saman vikulega.

Í gær þáði Freeport-klúbburinn boð frá Þórarni Tyrfingssyni, forstöðulækni SÁÁ, um að heimsækja Vog, fá þar hádegisverð og skoða sjúkrahúsið, þar á meðal nýju álmuna sem tekin var í notkun í sumar en þar eru sex sjúkrastofur með ellefu sjúkrarúmum fyrir endurkomusjúklinga.

Freeport-hópurinn er kenndur við Freeport sjúkrahúsið í New York ríki þar sem veitt var tveggja vikna meðferð en síðan tók við fjögurra vikna framhaldsmeðferð í Veritas Villa og Rheinbeck Lodge.

Alls voru það um 700 Íslendingar sem fóru utan til meðferðar á Freeport og þar af um 200 á árunum 1977 og 1978 en þá voru ferðirnar tíðastar. Þegar heim var komið héldu þessir menn hópinn.

Fyrst einbeittu þeir sér að því að aðstoða aðra Íslendinga við að leita sér meðferðar vestanhafs, síðan stofnuðu þeir líknarfélag um rekstur sambýlis og tóku síðar höndum saman um stofnun SÁÁ í því skyni að koma á laggirnar sambærilegri áfengismeðferð hér á landi.

SÁÁ var stofnað 1977 og árið 1983 urðu þau tímamót í starfsemi samtakanna og meðferð við áfengis- og vímuefnasjúkdóminum hér á landi að sjúkrahúsið Vogur var tekið í notkun.

Bygging Vogs var kostuð af sannkölluðu þjóðarátaki SÁÁ og tókst að safna fyrir byggingu sjúkrahússins með framlögum frá velunnurum samtakanna.

Hún var ríkissjóði og öðrum opinberum sjóðum að kostnaðarlausu.

Þegar Freeport-ferðirnar hófust þekktist ekki nútímaleg meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn hér á landi.

Svona lýsti Hendrik Berndsen, Binni, edrú-samfélaginu á Íslandi á þessum tíma í viðtali við SÁÁ-blaðið síðastliðið haust:

„Þetta voru einhverjir þrír til fjórir fundir á viku og handfylli af mönnum. En eftir að við byrjum að dæla mannskap inn í samtökin, þeim sem höfðu farið á Freeport og seinna Vog, þá óx AA fiskur um hrygg. Í dag held ég að séu reglulega 3 til 400 fundir á Íslandi. Í raun, ef þetta hefði ekki komið til, hefðu AA-samtökin hugsanlega dáið á Íslandi. En AA-samtökin, eins og SÁÁ, eru með virtustu meðferðarstofnunum í heimi. Og með ábyggilega einn besta árangurinn.“