560 fleiri fengu rítalíni ávísað

Notendum methylfenidats-lyfja, þar með talins rítalíns, hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Á síðasta ári voru notendur 6.666 talsins en árið á undan voru þeir 6.106 talsins samkvæmt upplýsingum frá landlækni. Árið 2005 voru notendur 2.693 og af þeim voru mun fleiri börn en fullorðnir.

Að sögn Ólafs B. Einarssonar, verkefnastjóra lyfjagagnagrunns hjá Embætti landlæknis, hefur heildarnotkun verið að aukast jafnt og þétt.

Ástæðan fyrir því er bæði að heildarfjöldi notenda hefur aukist ásamt því að hlutfall fullorðinna sem fær lyfjunum ávísað er hærra.

„Fyrstu árin sem lyfjagagnagrunnur var starfræktur voru það mun fleiri börn en fullorðnir sem fengu ávísað methylfenidati. Síðan 2005 hefur notkun verið að aukast meðal fullorðinna en árið 2012 voru í fyrsta skipti fleiri fullorðnir sem fengu ávísað methylfenidati.

Þegar ávísunum til fullorðinna fjölgaði þá varð aukning í heildarmagni, skiljanlega,“ segir Ólafur. Hann segir að í raun hafi það magn sem er ávísað á hvern og einn þó ekki aukist.

„Í raun hefur dregið úr notkun þessara lyfja ef þú mælir ávísað magn á hvern notanda og okkar von er sú að aukin gæði í greiningu ADHD og fleiri úrræði í meðferð muni leiða til þess að notkun þessara lyfja verði eitthvað í líkingu við það sem hún er meðal annarra þjóða,“ segir hann en á Íslandi er mesta notkun methylfenidats-lyfja á Norðurlöndunum.

„Eftirlit með ávísunum ávanabindandi lyfja hefur verið aukið til muna hjá embættinu. Bæði koma fleiri starfsmenn að því og samstarf hefur verið aukið milli stofnana. Embættið hefur einnig beitt sér fyrir bættu starfsumhverfi lækna með beinum aðgangi að lyfjagagnagrunni og með meiri upplýsingagjöf til þeirra.“ Frá árinu 2013 hefur verið starfrækt sérstakt ADHD-teymi á Landspítalanum sem sinnir greiningu fullorðinna.

Þekkt hefur verið undanfarin ár að fíklar misnoti þessi lyf og þau séu seld á svörtum markaði. Valgerður Rúnarsdóttir, læknir á sjúkrahúsinu Vogi, segir þó að ekki sé að merkja aukningu á misnotkun þessara lyfja undanfarið.

„En þetta er mjög alvarleg staða og mjög mikið notað af þessum lyfjum.“

Valgerður segir það þekkt annars staðar að fíklar misnoti þessi lyf en hér á landi séu fleiri sem sprauti þeim í sig. „Þeir sem nota örvandi vímuefni sækja í þetta efni. Þannig að það er kannski vinsælasta efnið hjá stórum hluta þeirra sem nota örvandi vímuefni. Þessi lyf hafa verið hluti af vímuefnaneyslunni hjá sprautufíklum og reyndar öðrum í langan tíma,“ segir hún en tekur fram að stór hluti þeirra sem noti lyfin þurfi á þeim að halda. Þó sé það vitað að það sé alltaf ákveðinn hópur sem fái lyfjunum ávísað en selji þau öðrum.

Umfjöllunin að ofan birtist í Fréttablaðinu þann 10. apríl 2015, merkt höfundi, viktoria@frettabladid.is. Fréttin er aðgengileg í blaðinu hér, á bls. 10.