Fréttatilkynning

Fréttatilkynning vegna bréfs sem komið er til fjölmiðla og var sent til SÁÁ frá deildarstjóra eftirlitsdeildar Sjúkratrygginga Íslands 29.12.2021.

SÁÁ hefur ekki fengið neina fjármuni frá SÍ nema fyrir veitta þjónustu og innan fjárlaga. Auk þess greiðir SÁÁ  með heilbrigðisþjónustunni sem fyrr og tryggir þannig meiri þjónustu en ríkið kaupir.

SÁÁ hafnar afstöðu eftirlitsdeildar SÍ vegna reikningsgerðar á tímum COVID

Frá því í febrúar 2021 hefur SÁÁ verið í samskiptum við eftirlitsdeild Sjúkratrygginga Íslands vegna göngudeildar SÁÁ í Efstaleiti og Akureyri sem og ungmennadeildar á Vogi. Niðurstaða eftirlitsdeildar er endurkrafa á hendur samtökunum vegna frávika sem urðu frá samningum annars vegar vegna ráðstafana sem gerðar voru vegna Covid-19 heimsfaraldurs og hins vegar vegna þjónustumagns við ungmenni á Vogi á tímabilinu janúar 2020-febrúar 2021.

Eftirlitsdeild SÍ tekur ekki tillit til heimsfaraldurs. SÁÁ sinnti sjúkratryggðum skjólstæðingum sínum með breyttu sniði á fordæmalausum tímum Covid og var brugðið á það ráð að hverfa frá hópmeðferð í göngudeild um tíma og veita einstaklingsbundna fjarmeðferð í staðinn. Ekki er hins vegar til samningur um fjarmeðferð við SÍ, enda hafði enginn séð þetta fyrir eða gert ráð fyrir í samningi. Reikningar til SÍ sem voru vegna fjarþjónustu við skjólstæðinga göngudeildar SÁÁ er þó ekki hægt að kalla tilhæfulausa eins og niðurstaða eftirlitsdeildar er. Telja má að þessi tímabundna breytta ráðstöfun og reikningsgerð samhliða því til SÍ við framangreindar aðstæður sé í samræmi við markmið samninga aðila og laga nr. 112/2008 enda var hún gerð með hagsmuni skjólstæðinga í huga og Í góðri trú, allt til að veita bestu meðferð, eftirfylgd og ráðgjöf. Þessar ákvarðanir höfðu ekki í för með sér hærri greiðslur SÍ til SÁÁ og leiddu ekki til fjárhagslegs ávinnings SÁÁ.

SÍ greiðir ekki enn fyrir fjarþjónustu sjúkratryggða með fíknsjúkdóm. Staðan er þannig í dag að Sjúkratryggingar Íslands taka ekki þátt í kostnaði við meðferð fólks með fíknsjúkdóm sem er í fjarmeðferð vegna búsetu utan höfuðborgarsvæðis, sóttkvíar, samkomutakmarkana eða annarrar ástæðu.

Eftirlitsdeild SÍ telur smitvarnir SÁÁ óþarfar. SÍ gengur jafnvel svo langt að tala um tilhæfulausa lokun fyrir staðþjónustu í göngudeild í október til desember 2020 þegar hörðustu samkomutakmarkanir giltu og mikil röskun varð á heilbrigðisþjónustu vegna smitvarna og krefjast því endurgreiðslu á gjaldi fyrir það tímabil. Það er með ólíkindum að SÍ setji sig í dómarasæti eftirá og lýsi ráðstafanir SÁÁ óþarfar á þessum óvissutímum áður en til bólusetninga kom í miðjum faraldri.

SÍ vilja fá endurgreiddar innlagnir á Vog vegna ungs fólks. Að lokum er sérstaklega tilefni til að gera athugasemd við afstöðu eftirlitsdeildar SÍ til efnda á samningi varðandi unglingadeild samkvæmt samningi frá 2014. SÍ telur að SÁÁ hafi ekki fullnægt lágmarksmagntölum og styðst við úrelta samninga frá 2008, þar sem unglingur er skilgreindur sem 19 ára og yngri. Ungmennameðferð í dag sinnir fólki 25 ára og yngri, enda gilda fagleg sjónarmið um hvers konar meðferð skjólstæðingar okkar
þurfa til að ná tökum á fíkn en ekki úrelt aldursviðmið. Mun betri árangur næst í meðferð sem er sniðin að þörfum ungs fólks og fólk allt 25 ára þarf meðferð sem tekur tillit til þeirra stöðu. Ekkert erkveðið á um nefnt aldurstakmark í gildandi samningum, en samt fer eftirlitsdeildin fram á óheyrilega háa endurgreiðslu vegna faglegrar meðferðar á okkar viðkvæmasta hópi. Hvað býr að baki? Er það
vilji SÍ að greiða fyrir færri innlagnir á Vog árið 2020 en árin þar á undan? Er það stefna heilbrigðisyfirvalda að draga úr samningsbundinni þjónustu við fólk með fíknsjúkdóm?

SÁÁ hafnar endurkröfu SÍ og telur ýmis ummæli og fullyrðingar í bréfi eftirlitsdeildar ómálefnalegar. Í bréfi deildarstjóra eftirlitsdeildar SÍ eru rangfærslur, gildishlaðnar ásakanir sem ekki sæma stjórnvaldi og rangtúlkun á gildandi samningum, og gerir SÁÁ alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð og samskipti vegna þessa máls.

Sjá nánar hér:

Fréttatilkynning (PDF skjal)