Gestkvæmt í Von

Það er gestkvæmt í Von, húsi SÁÁ í Efstaleiti 7 en alls voru um 83.886 komur taldar inn í húsið með rafrænum hætti á síðasta ári. Auk þeirra sem eiga erindi á göngudeild eða skrifstofu SÁÁ í húsinu koma þangað meðal annars ýmsir hópar í leit að fræðslu.

Síðustu þrjá daga hafa komið í heimsókn í þremur hópum um 140 unglingar úr 10. bekk Hagaskóla ásamt kennurum og fengu þau kynningu á starfsemi SÁÁ og sjúkdómnum alkóhólisma.

„Þetta gekk sérlega vel, þau komu með góðar spurningar og voru til fyrirmyndar,“ segir Karl S. Gunnarsson, dagskrárstjóri göngudeildar SÁÁ í Von, en hann tók á móti hópnum og annaðist fræðsluna.

Karl tók meðfylgjandi myndir af bekkjunum þremur og líka fjórðu myndina af 20 manna hópi fólks sem starfar við heimaþjónustu aldraðra hjá Reykjavíkurborg og sem kom í heimsókn þann 10. maí til að hlýða á fyrirlestur Sigurðar Gunnsteinssonar um vímuefnavanda aldraðra.

Eftir fyrirlesturinn voru málin svo rædd og spurningum svarað. Þann 12. apríl sl. kom hópur 30 félagsráðgjafa frá velferðarsviði borgarinnar til að hlýða á fyrirlestur Sigurðar. „Í þessum heimsóknum kom í ljós að þessir hópar starfsfólks borgarinnar verða varir við aukinn vanda eldra fólks vegna áfengis- og lyfjaneyslu,“ segir Karl S. Gunnarsson.

Ef smellt er á myndirnar að ofan sjást þær í fullri stærð.