Gjöf Styrktarsjóðs SÁÁ til Sjúkrahússins Vogs

Styrktarsjóður SÁÁ hefur fært Sjúkrahúsinu Vogi að gjöf húsgögn og húsmuni. Gjöfin gerir kleift að ráðast í tímabæra endurnýjun á Vogi.

Um er að ræða 40 dýnur í rúm sjúklinga sem verið er að endurnýja, sama gildir um húsgögn fyrir ellefu viðtalsherbergi ráðgjafa og lækna auk húsgagna í fundar- og samveruherbergi á starfsmannagangi.

Myndin að ofan var tekin þegar Einar Hermannsson, formaður stjórnar Styrktarsjóðs SÁÁ, afhenti gjöfina.

„Við erum mjög ánægð með þessa gjöf. Það var kominn tími til að endurnýja, þessir hlutir voru búnir að þjóna sínum tilgangi og það var sérstaklega gott að fá nýjar dýnur við gátum endurnýjað alveg dýnur á neðri hæð, kvennagangi og Unglingadeild. Góður svefn er lykilatriði fyrir sjúklingana í því að ná jafnvægi, svo að við erum mjög ánægð með þetta,“ segir Þóra Björnsdóttir, hjúkrunarforstjóri á Vogi.

„Við erum þakklát fyrir þann mikla stuðning og velvilja sem SÁÁ nýtur í samfélaginu og kemur fram í góðum undirtektum einstaklinga og fyrirtækja við söfnunum Styrktarsjóðsins,“ segir Einar Hermannsson, formaður stjórnar Styrktarsjóðs SÁÁ. „Sjóðurinn er hluti af stoðkerfi samtakanna og hefur tvíþætt hlutverk; annars vegar styrkir hann fátæka sjúklinga SÁÁ til að greiða fæðis- og húsnæðiskostnað í eftirmeðferð á Staðarfelli og Vík. Hins vegar leggur hann fram fé til þess að kaupa og endurnýja ýmsan búnað sem nauðsynlegur fyrir rekstur Sjúkrahússins Vogs.“

Myndin var tekin þegar Einar afhendi gjöfina á Vogi: Frá vinstri: Ásdís Margrét Finnbogadóttir, hjúkrunarfræðingur, Einar Hermannsson, formaður Styrktarsjóðs SÁÁ og Þóra Björnsdóttir, hjúkrunarforstjóri Sjúkrahússins Vogs.