Gjöf úr minningarsjóði Vilhjálms Fenger

Nýverið barst SÁÁ höfðingleg gjöf úr minningarsjóði Vilhjálms Fenger að upphæð hálfri milljón króna sem renna mun til styrktar barnahjálpar SÁÁ. Markmiðið með þjónustunni er að veita börnum viðurkenningu á stöðu sinni og aðstæðum í fjölskyldu þar sem áfengis- eða vímuefnavandi er til staðar. Eins að hjálpa þeim að skilja betur eigin aðstæður og aðstæður foreldranna og aðstoða þau við að greina á milli fíknsjúkdómsins og manneskjunnar sem þjáist af honum.

Minningarsjóður Vilhjálms Fenger

Minningarsjóðurinn var stofnaður 26. febrúar 2014 til minningar um Vilhjálm Fenger sem lést árið 2008. Vilhjálmur var fæddur 26. febrúar árið 1952 og starfaði hjá fjölskyldufyrirtæki sínu Nathan og Olsen, sem síðar varð hluti af 1912 ehf., frá árinu 1975 og allt fram á síðasta dag.

Stefna sjóðsins er að styrkja mannúðar-, menningar- og íþróttastarfsemi á Íslandi. Undanfarið hefur verið horft til stuðnings við málefni er snúa að börnum og unglingum.

Vil ég nota tækifærið og þakka kærlega fyrir þessa gjöf.

Einar Hermannsson

Formaður SÁÁ.