Gjörbreytt aðstaða fyrir sjúklinga og starfsfólk

Ný meðferðarstöð verður reist á landi SÁÁ á Vík á Kjalarnesi og tekin í notkun á næsta ári. Nauðsynleg uppfærsla á meðferð og starfsemi SÁÁ, segir Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ. Á nýrri Vík verða aðskildar álmur fyrir meðferð og bú­setu karla og kvenna og stórbætt aðstaða fyrir starfsfólk. Framkvæmdir hefjast í vor. Áætlanir gera ráð fyrir að fyrsta skóflustungan verði tekin í apríl og að ný Vík verði fullbúin og tekin í notkun fyrir 40 ára afmæli SÁÁ í október árið 2017.

„Þessar framkvæmdir eru liður í nauðsynlegri uppfærslu á helbrigðisþjónustu SÁÁ við áfengis- og vímuefnasjúklinga,“ segir Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ. „Við þurfum að hugsa langt fram í tímann og tryggja afkomendum okkar viðunandi aðstöðu fyrir áfengis- og vímuefnameðferð.“

Aðalstjórn SÁÁ samþykkti þann 10. desember sl., að ráðast í þessar framkvæmdir sem felast í því að reistar verða 2.730 fermetra nýbyggingar sem verða tengdar því rúmlega 800 fermetra húsnæði sem fyrir er á Vík. Um leið verða eldri húsin endurbætt og innréttingar þeirra og votrými endurnýjuð. Um þessar mundir er verið er að leggja lokahönd á hönnun og undirbúning á öllum tilheyrandi úboðsgögnum.

Aðgreining kynjanna í meðferð

Að verkinu loknu verður risin fullkomin, nútímaleg meðferðarstöð þar sem í boði verður meðferð fyrir karla og konur í aðgreindum álmum með stórbættri og fullkominni aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk SÁÁ og er vonast til þess að með þessari uppfærslu og endurnýjun aðstöðunnar skapist forsendur fyrir því að enn betri árangur náist í meðferðinni.

Á nýrri Vík verður hægt að hýsa 61 sjúkling í meðferð í framhaldi af dvöl á sjúkrahúsinu Vogi. Í karlaálmu verða 40 einsmannsherbergi og 21 einsmannsherbergi í kvennaálmu. Einnig verða aðskildar byggingar fyrir matsali, setustofur, fyrirlestra og meðferðarhópa karla og kvenna. Átta herbergi verða sérstaklega útbúin með tilliti til aðgengis fyrir fatlaða.

Meðferð flyst af Staðarfelli á Vík Ekki er um það að ræða umfang meðferðar á vegum SÁÁ verði aukið með nýju meðferðarstöðinni á Vík. Um leið og hún verður tekin í notkun mun SÁÁ hætta starfsemi á Staðarfelli í Dölum en þar hefur verið starfrækt meðferðarstöð í húsnæði gamla húsmæðraskólans frá árinu 1980. „Því miður er ekki hægt að skipuleggja og framkvæma nútíma heilbrigðisþjónustu í eins gömlu húsi og við höfum til umráða á Staðarfelli í Dölum þótt staðsetningin sé auðvitað frábær.“

Enda þótt SÁÁ hafi lagt til mikla fjármuni í viðhald og endurbætur á húsnæðinu á Staðarfelli og sjálfboðaliðar hafi þar að auki lagt mikið að mörkum við viðhald og endurbætur á staðnum verður Staðarfell alltaf mjög óhagkvæmt í rekstri með olíukyndingu og sambandsleysi við umheiminn. Ástand og aldur hússins kallar stöðugt á kostnaðarsamar endurbætur.

Fjármögnun lokið

Theodór S. Halldórsson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri SÁÁ er formaður bygginganefndar framkvæmdastjórnar SÁÁ. Áætlaður byggingakostnaður við framkvæmdirnar er um 920 milljónir króna en endanlegt kostnaðarverð er háð útboðum. Ásgerður Th. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs SÁÁ, hefur stýrt undirbúningi að fjármögnun í samstarfi við fjármálastofnanir og liggja samningar um fjármögnun fyrir.


Þessi umfjöllun birtist fyrst í SÁÁ blaðinu, 1. tbl. 2016, sem kom út 22. mars 2016 og er aðgengilegt í pdf skjali hér á saa.is.

Höfundur greinar