Gleðin við að drekka var horfin

Áður en Hafdís Helga fór í kvennameðferð hjá SÁÁ í nóvember 2010 var hún búin að reyna að ná tökum á drykkjunni í tvö ár en tókst ekki að hætta sjálf. Hún vissi að hún þyrfti hjálp en hafði mestar áhyggjur af umtali og áliti annarra. „Það er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið að fara á Vog og Vík,“ segir.

„Fíknin þróaðist smám saman úr því að það var gaman að fá sér í glas og eiga notalegar stundir yfir í það að ég fór að nota áfengi sem slökun og svefnmeðal. Það var mikið álag á mér á þessum árum og það var ekki fyrr en andlega heilsan fór að gefa sig með tilheyrandi svima og kvíðaköstum að ég staldraði við og ákvað að gera eitthvað í mínum málum.“

Hafdís Helga Þorvaldsdóttir var dæmigerð íslensk kona á fertugsaldri, með eiginmann og þrjú börn og í fullri vinnu og námi þegar hún fór í meðferð á Vogi og Kvennameð- ferð á Vík haustið 2010. Hún spjallaði við okkur í gegnum tölvupóst og Facebook frá Noregi þar sem hún er núna búsett.

Var að missa tökin í tvö ár

„Ég skýldi mér lengi vel að bak við það að ég hafði búið í Danmörku fyrir 20 árum og að þar hefði ég lært að drekka léttvín. Það væri eðlilegt og menningarlegt að vera alltaf að sulla í víni við öll tækifæri. Það er ótrúlegt hvað maður getur talið hausnum trú um mikið bull ef viljinn er nógu sterkur. Lengi vel gekk þetta alveg ágætlega hjá mér þó að ég færi yfir strikið á mannamótum inn á milli. En síðustu tvö árin áður en ég fór í meðferð fann ég að ég var að missa tökin. Gleðin við að drekka var horfin og ég notaði vín eingöngu til að fá slökun og deyfingu og fannst best að sitja ein og hafa það notalegt með rauðvín og bók eða horfa á sjónvarpið.“

Erfitt að stoppa eftir 1-2 glös

„Ég prófaði nokkrum sinnum að hætta bara sjálf að drekka en það var erfitt. Allsstaðar voru freistingar og yfirleitt vín í boði þar sem komið var saman. Ég átti líka erfitt með að standast það að eiga rauðvín heima til að sötra á til að ná slökun og líða vel. Svo átti ég oft erfitt með að stoppa eftir eitt til tvö glös. Það var ekki fyrr en ég fór inn á Vog að ég uppgvötaði hvað áfengi stjórnaði miklu í mínu lífi og til þess að ná tökum á því aftur væri lykilatriði að vinna í því hætta að drekka.

Það er frábær fræðsla á Vogi og yndislegt fólk sem vinnur þar. Ég lærði alltaf og uppgvötaði eitthvað nýtt á hverjum fyrirlestri sem ég fór á og fékk betri skilning á minni líðan og veikindum.

Fyrst var ég með fordóma og fannst ég yfir marga hafin þarna inni. Ég væri þarna bara til að ná áttum og tökum á mínu lífi. Ég væri föst í vítahring og vana með mína áfengisneyslu vegna mikils andlegs álags vegna persónulegra áfalla í æsku.

En raunin er sú að áfengissýki spyr ekki um stétt né stöðu og einkennin og líðanin eru svipuð hjá okkur öllum sem erum haldin henni og hún er til í mörgum útgáfum. Manneskja þarf alls ekki að vera full alla daga til að vera haldin áfengissýki.

Þannig var það í mínu tilfelli. Hver og einn finnur sinn botn og hann er misdjúpur.“

Nauðsynlegt að fara á Vík

„Það var líka algjörlega nauðsynlegt fyrir mig að fara á Vík í kvennameðferð og mér fannst gott að vera þar.

Þar fór mesta vinnan í sjálfri mér fram og ég fékk tækifæri til að kryfja ýmislegt með hjálp yndislegra ráðgjafa og það voru engin utanaðkomandi áreiti. Það var tækifæri sem ég ég aldrei haft áður.

Persónulega finnst mér nauðsynlegt að vera með kvennameðferð eins og er á Vík. Ég hefði alls ekki viljað vera með karlmönnum í grúppuvinnu. Kynin eru ólík að eðlisfari og áhersluþættir ólíkir í batanum, að mínu mati. Ég er sannfærð um að það hefði truflað mig í mínum bata ef það hefði verið kynjablöndun.“

Ein besta ákvörðun sem ég hef tekið

„Það er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið að fara á Vog og Vík. Það er ekki spurning. Ég hvet alla til að leita sér hjálpar ef fólk telur sig hafa vandamál. Mér fannst mjög erfitt að stíga þetta skref. Ekki vegna þess að ég vissi ekki að vín væri vandamál hjá mér heldur vegna óvissu um hvernig nærumhverfið mitt myndi bregðast við og útaf áhyggjum af umtali. En þegar ég var komin inná Vík og var farið að líða betur þá var mér eiginlega alveg sama. Ég fann hvað það var margt í lífinu sem skipti mig meira máli en umtal og fordómar. “

Viðtalið við Hafdísi birtist fyrst í SÁÁ blaðinu sem kom út 30. desember sl. Smellið hér til að lesa SÁÁ-blaðið 3. tbl. 2014 í heild sinni