Valmynd
english

Göngudeildir

Göngudeildarstarf SÁÁ nær til einstaklinga með fíknsjúkdóm á öllum aldri og aðstandenda þeirra. Einnig er fólki með spilafíkn veitt þjónusta á göngudeildunum og þar er unnið að forvörnum.

Samtals eru um 32.000 komur skráðar í göngudeildir SÁÁ ár hvert, um 25.000 í göngudeild SÁÁ í Von, Efstaleiti 7, í Reykjavík en um 7.000 komur í göngudeildina á Hofsbót 4, á Akureyri. Einnig rekur SÁÁ sérstaka göngudeild á Vogi sem sinnir eingöngu þeim sjúklingum sem eru í viðhaldsmeðferð með lyfjum við ópíóðafíkn.

Á göngudeild fara fram einstaklingsviðtöl við ráðgjafa, þar eru haldnir fyrirlestrar og námskeið og þar hittast stuðningshópar meðan á meðferð stendur.

Göngudeildirnar eru mikilvægur hluti af þeirri alhliða meðferðarþjónustu sem SÁÁ hefur byggt upp. Sjúkrastofnanir SÁÁ vinna sem ein heild og bjóða mismunandi meðferð eftir meðferðarþörf og aðstæðum sjúklinga. Daglegt starf á göngudeildunum í Reykjavík og á Akureyri mæðir að mestu leyti á reyndum áfengis- og vímuefnaráðgjöfum sem eru hluti af þverfaglegu teymi lækna, hjúkrunarfræðinga og annars heilbrigðisstarfsfólks SÁÁ.

Algengt er að fólk leiti sér fyrst upplýsinga og aðstoðar á göngudeild SÁÁ og fái þar greiningu á stöðu sinni. Oft er hægt að leysa vandann án þess að til innritunar á Vog og inniliggjandi meðferðar þurfi að koma. Viðtal á göngudeild getur einnig verið fyrsta skrefið í meðferð sem hefst með dvöl Sjúkrahúsinu Vogi.  Eftir meðferð á Vogi, Vík eða Staðarfelli eiga allir sjúklingar kost á formlegum stuðningi á göngudeildum SÁÁ einu sinni til tvisvar í viku í þrjá til tólf mánuði.

Auk göngudeildanna á Reykjavík og Akureyri veitir SÁÁ göngudeildarþjónustu með ráðgjafaviðtölum og stuðningshópi í Reykjanesbæ einn dag í viku. Það starf er unnið samkvæmt sérstökum samningi við viðkomandi sveitarstjórn. Skráning í ráðgjafarviðtöl í Reykjanesbæ fer fram á skrifstofu bæjarins.

Viðtal við ráðgjafa á göngudeild kostar 3.200 kr. en örorkulífeyrisþegar greiða 1.700 krónur. Verð með afsláttarkorti er 1.900 krónur en örorkulífeyrisþegar með afsláttarkort greiða 910 krónur fyrir hvert viðtal.

Viðtal við ráðgjafa í Fjölskyldudeild  kostar 3.000 krónur.