Valmynd
english
Vogur

Að gefnu tilefni

SÁÁ undrast það að ekki var leitað upplýsinga um staðreyndir frá sjúkrahúsinu Vogi vegna umfjöllunar um meðferð barna og unglinga í áfengis- og vímuefnavanda í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2 sunnudaginn 16. nóvember sl.  Af þeim sökum var sú umfjöllun hvorki sanngjörn né gaf hún nákvæma mynd af umfjöllunarefninu.

Fram kom í þættinum Eyjunni að tilefni umfjöllunarinnar var gagnrýni frá samtökunum Rótinni. Þó var ekki vitnað til þess að Umboðsmaður barna hefur tekið kvörtun Rótarinnar til meðferðar og kynnt þá niðurstöðu opinberlega (sjá hér) að embættið telji ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af aðbúnaði barna á unglingadeildinni á Vogi eftir að hafa heimsótt sjúkrahúsið og kynnt sér málið.

Í framhaldi af þessari umfjöllun er rétt að taka eftirfarandi fram:

Á sjúkrahúsinu Vogi er rekin unglingadeild þar sem fólki undir tvítugu er veitt sérstök meðferð í rými sem er aðskilið frá öðrum sjúklingum sjúkrahússins.

Á árunum 2009-2013 voru ellefu stúlkur og átta drengir á aldrinum 13-14 ára lögð inn á unglingadeildina í 25 skipti alls. Á þessum tíma voru um 1.500 innlagnir á unglingadeildina. Innlagnir á sjúkrahúsið Vog eru alls um 10.000 á sama tímabili.

Ástæðan fyrir innlögnum 13-14 ára barna í áfengis- og vímuefnavanda á sjúkrahúsið Vog er einatt sú að aðrar sjúkrastofnanir geta ekki veitt viðkomandi sjúklingi þá meðferð og læknisþjónustu sem aðstæður krefjast. Til innlagnar er ekki gripið nema samkvæmt óskum sjúklingsins sjálfs og forráðamanna hans, sem jafnframt fá upplýsingar um útskrift. Algengt er að ósk um innlögn þessara barna hafi borist frá læknum á öðrum sjúkrahúsum eða frá barnaverndaryfirvöldum.

Sólarhringsvakt er á unglingadeildinni sem tryggir að aðrir en innritaðir sjúklingar komast ekki þar inn. Eins og annars staðar á sjúkrahúsinu Vogi varðar það brottrekstri að fara inn á herbergi annars sjúklings. Deildin er hins vegar ekki lokuð og yngri sjúklingar geta blandað geði við eldri sjúklinga að degi til á sameiginlegum göngum og í matsal. Hjúkrunarvakt, áfengisráðgjafar og annað starfsfólk sjúkrahússins er ávallt skammt undan og tryggir að samskipti sjúklinga séu með þeim hætti sem stuðlar að en vinnur ekki gegn bata.

SÁÁ áréttar að samtökin fagna öllum hugmyndum og tillögum um eflingu faglegrar heilbrigðisþjónustu við áfengis- og vímuefnasjúklinga á öllum aldri.