Valmynd
english

Aðhaldið og stuðningurinn skiptir miklu

Einn mesti kosturinn við kvennameðferðina er þetta aðhald eftir sjálfa meðferðina,” segir Sif Gunnlaugsdóttir, sem hefur verið edrú frá því hún fór í kvennameðferð á Vík árið 1999.

„Þetta var í febrúar og ég var búin að fá nóg, ég var búin að hugsa um það að hætta í einhvern tíma og loksins þegar maður fattar hvað er að, sér maður að það hefði verið gott að fara fyrr. En ég fór sem sagt á Vog og í kvennameðferð á Vík í framhaldinu og var þá 32 ára.

Eftir meðferðina tóku svo við stuðningsgrúppur á göngudeildinni í 12 mánuði, fyrstu þrjá mánuðina tvisvar í viku og síðan einu sinni í viku. Þetta meðferðarform hentaði mér gífurlega vel og aðhaldið eftir dvölina á Vík, hópmeðferðin og það að hitta hinar, sem eru í sömu sporum, hjálpaði mér við við að ganga í gegnum þennan tíma og læra allt þetta sem maður þurfti að læra.”

Mætti í útskrift fyrstu árin

Þegar fólk hefur lokið árs eftirfylgni eftir meðferðina er haldin útskriftarathöfn og þangað koma meðal annars þeir sem hafa áður staðið í sömu sporum.

„Mér fannst það vera ákveðin tímamót og áfangi af því að það þarf að hafa fyrir þessu. Það var haldin smáútskriftarveisla og það fylgdi því góð stemmning og það kom fullt af konum, sem höfðu verið í kvennameðferðinni áður, til að samgleðjast. Eftir að ég kláraði Kvennameðferðina kom ég alltaf í útskriftir fyrstu árin, fékk kökur og kaffi og hitti hinar.”

Eitthvað sem hentar öllum

Sif segist hafa tekið eftir umræðu í blöðunum síðustu vikur og mánuði um konur og meðferð og efasemdir um að konur og karlar séu samtímis á Vogi. Hún segist lítið hafa um það að segja annað en að það hafi ekki verið neitt mál fyrir sig að vera á Vogi og Vík þótt þar hafi verið karlmenn á sama tíma. Samkvæmt sinni reynslu sé gott fólk að vinna frábært starf hjá SÁÁ.

„Ég veit ekki meira um þetta en ég hef lesið í blöðunum en ég held að þessar konur sem hafa verið að gagnrýna þetta mest hafi ekki farið í kvennameðferð sjálfar. Auðvitað erum við ólíkar og með misjafnan bakgrunn og aðstæður en það er eitthvað í þessu prógrammi sem hentaði okkur öllum. Síðast en ekki síst er það aðhaldið og stuðningurinn, það að mæta alltaf, eins og ég gerði, einu sinni í viku í eitt ár. Það breytist heilmargt við að ganga í gegnum þetta, í rauninni allt, en aðallega maður sjálfur og á betri veg. Maður sér hlutina í öðru ljósi. Ég lifi mjög góðu lífi í dag, er vel stemmd og er alltaf í næstbesta gírnum, maður verður að eiga þann besta eftir þangað til í ellinni. “

Viðtalið við Sif birtist fyrst í SÁÁ blaðinu sem kom út 30. desember sl. Smellið hér til að lesa SÁÁ-blaðið 3. tbl. 2014 í heild sinni