Valmynd
english

Áfengi


Orðið alkóhól er í raun samheiti yfir lífræn efni sem hafa hýdroxýlhóp tengdan við opna kolefniskeðju. Margar gerðir af alkóhólum eru því til eins og methanól (tréspíri) og bútanól (ísvari) auk etanólsins eða áfengisins. Rík hefð er fyrir því að þegar orðið alkóhól er notað er átt við etanól eða vínanda nema annars sé getið.

Áfengi er samofið menningu okkar og neysla þess markar líf okkar meira en flest annað. Frá örófi alda hefur maðurinn sóst eftir því að komast í áfengisvímu og löngu áður en sögur hófust hafði hann lært að framleiða áfengi og var farin að nota það reglulega. Áfengi er í raun eina löglega vímuefnið í okkar heimshluta og neysla þess í hófi verður að teljast hluti af eðlilegu lífi fullorðinna og heilsuhraustra manna og kvenna. Framleiðsla, dreifing, sala, og neysla áfengis í okkar menningarheimi er í föstum skorðum og um hana gilda sérstök lög.

Áfengi er beinlínis markaðsett sem vímuefni til að nota í sambandi við skemmtanir og hátíðleg tækifæri. Það hefur þó um aldir verið notað við kvíða, svefnleysi og ýmsum kvillum meðal annars hjartaöng. Áfengissýki hefur fylgt áfengisneyslunni alla tíð, sjúkdómur sem mjög auðvelt er að greina og á ekki að fara framhjá neinum.

Langvarandi ofneysla áfengis veldur neytendum fjölþættum líkamlegum vandamálum eins og vannæringu, lifrarbólgum, briskirtilbólgum, vöðvarýrnun og ýmis konar skemmdum á heila og taugum. Hún dregur úr kyngetu karla og kvenna og getur með reykingum aukið líkur á ýmsum gerðum krabbameins allt að 6-40 sinnum. Ofneysla áfengis er gríðarlega kostnaðarsöm fyrir þjóðfélagið meðal annars vegna fósturskemmda, slysa, afbrota, sjálfsvíga, morða og vinnutaps svo að eitthvað sé nefnt. Talið er að allt að helmingur banaslysa í umferðinni megi rekja beint til ölvunar og sama prósentutala eigi við þegar morð eru framin. Tæpan þriðjung sjálfsvíga og druknana má einnig rekja beint til ölvunar.

Áfengi og sagan

Menn lærðu snemma að áfengir drykkir urðu til ef þeir geymdu ávaxtasafa, hunang eða uppbleytt korn við vissar aðstæður. Við vitum nú að gerlar komast í þessa drykki eða saftir og brjóta niður sykurefnin sem í þeim eru. Gerlarnir nota þessar efnabreytingar til að búa til orku en um leið myndast aukaefni ethýlalkóhól og koldíoxíð. Áfengið er því úrgangur þessara gerla og er líkt og margur annar úrgangur eitrað. Þegar áfengið er orðið um 15% í vökvanum sem er að gerjast drepur það gerlana og gerjunin hættir.

Vín verður til þegar sykurefnin í ávöxtum eru látnir gerjast. Menn lærðu einhvern veginn að ávaxtasafi varð áfengur ef vissir ávextir voru marðir og safanum var safnað í ílát og látinn standa.

Fyrstu skrifuðu heimildirnar um vínframleiðslu eru 6000 ára og eru frá Egyptalandi. Á þeim tíma tilbáðu Egyptar Osiris sem vínguð og guð dauðans. Fornleifar benda til þess að vín hafi verið framleitt að minnsta kosti 2000 árum fyrr. Vín er einnig nefnt nokkrum sinnum í Kviðum Hómers.

Þegar hunang er látið gerjast myndast mjöður. Slík áfengisframleiðsla er mjög algeng meðal ýmissa frumbyggja. Í Hávamálum er vikið að miðinum og notkun hans og í Íslendinga sögum má lesa um ofdrykkju mjaðar.

Bjór verður til við að láta sykurefni í korni gerjast. Fyrstu skrifuðu heimildirnar um bjórframleiðslu eru um 4000 ára en fornleifar benda til þess að bjór hafi verið notaður að minnsta kosti 8000 árum fyrir Krists burð. Sá bjór var mun þykkari og matarmeiri en sá bjór sem við nú þekkjum.

Með eimingu tókst að búa til mun sterkara áfengi úr víni, miði eða bjór. Gerjaður vökvi er þá hitaður og sýður þá áfengið á undan vatninu og myndar gufu. Ef gufan er leidd í rör og kæld þéttist hún og verður að vökva og hafa menn þá í höndunum mun sterkara áfengi en vín og bjór. Slíkur vökvi fékk latneska heitið spiritus, vínandi. Sagt er að Kínverjar hafi fyrstir kunnað listina að eima. Af þeim lærðu Arabar það og heimildir eru til um að Arabar hafi búið til sterkt áfengi um 860. Frakkar urðu fyrstir Evrópumanna til að læra þessa list á 13. öld. Sterkt áfengi var fyrst notað á Norðurlöndum á 16. öld.

Snemma kom upp mikill áfengisvandi meðal menningarþjóða. Þannig er áfengisvandi talinn hafa verið ein af megin ástæðum fyrir hnignun Rómarveldis.

Múhameð hafði áfengisbann í Kóraninum vegna hræðilegs áfengisvandamáls sem herjaði á Araba um þær mundir sem hann var uppi. Áfengisvandamál voru mjög áberandi í Evrópu, Bandaríkjunum og einnig hér á landi á ofanverðri síðustu öld.
Ef litið er til dagsins í dag hafa um 90% íbúa í vestrænum þjóðfélögum sem eru eldri en 18 ára einhvern tímann drukkið áfengi. Um 10% íbúanna drekka um helming alls áfengis á hverjum tíma. Ástæða þykir að hafa sérstök lög um sölu, dreifingu og framleiðslu áfengis þar sem allir drykkir sem innihalda meira magn af áfengi en 2,25% eru skilgreindir sem áfengi. Á Íslandi eru nú 22% líkur fyrir karla og 10 % líkur fyrir konur að verða vímuefnafíklar einhvern tíma á ævinni og í 80 % tilvika er vímuefnaröskunin fyrst og fremst áfengissýki.

Í dag er áfengisframleiðsla í föstum skorðum og styðst við fastmótaðar hefðir.

  • Þannig er bjór venjulega að styrkleika 3,5-5%.
  • Vín eru framleidd úr vínberjum og eru að styrkleika 8-17%.
  • Vín þar sem hreinu áfengi er bætt í eru að styrkleika um 20% og nefnd sherry eða portvín.
  • Að lokum eru sterkir drykkir eins og gin, whisky eða vodka.
  • Sterkir drykkir geta verið sætir og með ávaxtabragði og eru þá kallaðir líkjörar.

Áfengi til iðnaðar er oft gert ódrykkjarhæft með því að blanda vondum bragðefnum og efnum sem valda ógleði og uppköstum saman við áfengið eins og í spritti og rauðspritti.

Áfengi til lyfjagerðar er mjög sterkt og hreint en dæmi um slíkt er Spiritus Forte og Absolutus. Spíritus Forte er mjög sterkt áfengi, en Spíritus Absolutus er nær hreint áfengi.

Efnafræði og lyfjahvörf

Alkóhól eru þau lífrænu efni nefnd sem hafa hýdroxýlhóp (-OH) tengdan við opna kolefnakeðju sem bindst einungis vetnisatómum að öðru leyti. Þessi efni eru líka nefnd alifatísk alkóhól. Margar gerðir af alkóhólum eru til og áfengi er í rauninni eitt af þessum alkóhólum sem nefnd eru etanól á efnafræðimáli. Etanól er einfalt efni gert úr tveimur kolefnisatómum CH3CH2OH. Við annað þeirra er tengdur hydroxylhópur en að öðru leiti eru kolefnisatómin bundin vetnisatómum. Það leysist bæði upp í vatni og fitu. Hreint er etanól vökvi sem er auðvelt að blanda saman við vatn í hvaða styrkleika sem er.

Sameind efnisins er lítil og mjög fituleysanleg sem gefur efninu þá eiginleika að komast hratt og auðveldlega úr meltingarveginum inn í blóðstrauminn og dreifast með honum um allan líkamann þegar það er drukkið. Þannig berst efnið fljótt til allra líffæra og einnig til heilans því að það á auðvelt með að fara í gegnum háræðaveggi heilans þó að þeir séu þéttari (heilablóðþröskuldur) en háræðaveggir annarra líffæra. Alkóhólið dreifist um allan líkamann og líka til vöðva og út í fitu. Stórir, vöðvamiklir eða feitir einstaklingar þurfa því meira áfengismagn en litlir, grannir og vöðvaminni til að áfengismagnið í blóði verði það sama.

Þegar einstaklingur drekkur áfengi birtast fyrstu áfengissameindirnar í blóðstraumnum eftir aðeins eina mínútu. Um 10-20% af áfenginu er tekið upp strax í maganum. Hinn hlutinn er tekinn upp í mjógirninu, aðallega í skeifugörninni. Ef menn hafa borðað vel hægir maturinn á upptöku áfengis í maganum, einkum ef maturinn er feitur. Maturinn tefur einnig fyrir því að maginn tæmi sig niður í skeifugörnina og áfengið komist þangað og haldi áfram að komast út í blóðið. Í vegg magans og smáþarmanna er ensím sem brýtur niður áfengi (Gastric alcohol dehydrogenase). Þetta ensím byrjar að brjóta niður áfengi áður en það kemst út í blóðið. Konur hafa minna af þessu ensími en karlar og þeir sem drekka mikið hafa líka lítið af þessu ensími. Þetta skýrir að einhverju af hverju konur fá hærra magn af áfengi í blóði en karlar eftir sambærilegan áfengisskammt.

Lifrin losar líkamann við 90% af áfenginu með því að umbreyta því í önnur efni. Aðeins 5-10% af áfenginu er skilað óbreyttu út með öndunarlofti og með þvagi. Áfengismagnið í öndunarloftinu er í stöðugu og réttu hlutfalli við áfengismagnið í blóði. Þetta gerir það að verkum að mælar sem mæla áfengismagn í öndunarlofti eru mjög nákvæmir til að segja til um hvert áfengismagnið er í blóðinu.

Meira um niðurbrot áfengis í lifur

Í lifrinni er áfengi brotið niður í tveimur þrepum. Ensímið alkóhól dehýdrógenasi breytir áfengi fyrst í acetaldehíð. Síðan breytir aldehíð dehýdrógenasi því áfram í ediksýru. Mörg ensím breyta síðan ediksýrunni í vatn og koltvísýring.

Ensímkerfi lifrarinnar eru fljótlega mettað og brýtur hún niður sama magn af áfengi jafnvel þó að þéttni þess sé aukist í blóðinu. Hraðinn helst líka sá sami þó að áfengismagnið minnki því að áfengi berst svo auðveldlega til lifrarinnar. Lifrin brýtur því stöðugt niður sama magn af áfengi sem er um það bil einn áfengissjúss á einni klukkustund. Reikna má með að þrír áfengissjússar ( 3 x 12 g af hreinu áfengi) um 3x 30 ml af sterku áfengi geri 80 kg karlmann óökufæran samkvæmt lögum.

Framhald: 1 2 3 4 5