Valmynd
english

Álfar eru algjörar dúllur

Ég á marga vini og nána ættingja sem hafa glímt við alvarlega og oft króníska sjúkdóma, en alkóhólismi er sá sjúkdómur sem svo margir þeirra hafa glímt við. Enda er oft sagt að þetta sé fjölskyldusjúkdómur sem getur gengið í erfðir og hefur jafnframt mjög mikil áhrif á aðra fjölskyldumeðlimi.

Ég á ættingja sem hafa verið við dauðans dyr og jafnvel dáið vegna þessa sjúkdóms. Ég hef líka fengið að sjá bata margra vina og vandamanna, séð og upplifað hvernig þeir fengu rétta sjúkdómsgreiningu og hafa blómstrað allar götur síðan í sinni edrúmennsku. Á þeirri vegferð hefur SÁÁ spilað stórt hlutverk. Ég er óendanlega þakklát fyrir að búa í landi þar sem boðið er upp á slíka þjónustu og SÁÁ býður upp á, óháð efnahag og stöðu. Ég hef nefnilega líka búið víða um heim og verð að segja að sú mikla vinna sem hér hefur átt sér stað að frumkvæði SÁÁ til að fjarlægja skömmina sem oft fylgdi þessum sjúkdómi og búa hér til faglega nálgun er einstök og afar mikilvæg í litla þorpinu sem við búum við hérlendis. Vogur hefur eins og svo margar aðrar heilbrigðisstofnanir liðið fyrir fjárskort vegna fjármálahrunsins og ljóst er að það skortir mikið á til að hægt sé að veita öllum þá nauðsynlegu þjónustu sem þörf er á, biðlistarnir tala sínu máli.

Ég fæ mér alltaf nokkra álfa, bæði vegna þess að þeir eru algerar dúllur og við kaup á álfum styð ég við mikilvægt innra starf og þjónustu við þá sem leita aðstoðar hjá SÁÁ. Á vef SÁÁ kemur fram að tekjur af álfasölunni hafi til dæmis kostað uppbyggingu unglingadeildar við sjúkrahúsið Vog, starfsemi fjölskyldumeðferðar og einnig hafa tekjur af álfinum gert SÁÁ kleift að þróa úrræði fyrir börn alkóhólista, unga fíkla og fjölskyldur.

Birgitta Jónsdóttir alþingismaður

Greinin að ofan birtist í Fréttablaðinu í dag, 6. maí.