Valmynd
english

Álfasala: SÁÁ fær 5 kr. af hverjum lítra hjá Atlantsolíu í dag

Í tilefni af álfasölu SÁÁ ætlar Atlantsolía að láta fimm krónur af verði hvers eldsneytislítra sem keyptur er með á afgreiðslustöðum félagsins á morgun, fimmtudag, renna til SÁÁ. Þessi sérstaki álfasöluafsláttur verður aðeins í gildi í dag og þá verða sölumenn Álfsins staddir á fimm af dælustöðvum Atlantsolíu svo fólk geti keypt Álfinn á meðan það fyllir á tankinn.

Atlantsolía er samstarfsaðili SÁÁ. Í gegnum atlantsolia.is og saa.is geta velunnarar SÁÁ fengið sérstaka dælulykla frá Atlantsolíu sem tryggja þeim afsláttarverð á eldsneyti alla daga. Sá stuðningur tryggði samtökunum um 1,2 milljónir króna í tekjur á síðasta ári.

Árleg álfasala SÁÁ hófst í gær og stendur fram á sunnudag. Álfasalan er stærsta fjáröflunarverkefni SÁÁ ár hvert og eitt umfangsmesta fjáröflunarverkefni á vegum almannasamtaka sem fram fer á hverju ári hér á landi. Um eitt þúsund manns um land allt vinna við álfasöluna næstu daga.

Um 20% af kostnaði við alla áfengismeðferð á vegum samtakanna greidd með söfnunarfé. Frá 1990 hefur Álfurinn skilað samtökunum um 550 milljónum króna í hreinar tekjur.

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, segir: „Við þökkum Atlantsolíu fyrir að styðja sérstaklega við SÁÁ í tilefni af álfasölunni. Atlantsolía er eitt þeirra fyrirtækja sem samtökin eiga ánægjulegt samstarf við. Ef SÁÁ nyti ekki beint fjárhagslegs stuðnings frá almenningi og fyrirtækjum eins og Atlantsolíu þyrfti að loka sjúkrahúsinu Vogi 1. október ár hvert eða fækka um fjórðung þeim sjúklingum sem þar komast inn. Við erum þakklát fyrir stuðninginn í gegnum árin. Þörfin er því miður ekki minni nú en áður og við vitum að þjóðin vill styðja við bakið á SÁÁ og tryggja að samtökin veiti fíklum og fjölskyldum þeirra eins góða þjónustu og kostur er.“

atlantsalfur1