Valmynd
english

Atlantsolía styrkir SÁÁ

Forsvarsmenn Atlantsolíu afhentu SÁÁ í gær ávísun upp á 536.260 kr. en það er afraksturinn af sérstöku söfnunarátaki sem Atlantsolía efndi til í tengslum við álfasölu SÁÁ fimmtudaginn 7. maí sl. Þann dag voru fimm krónur af verði hvers eldsneytislítra sem seldur var á afgreiðslustöðvum látnar renna til SÁÁ.

„Við erum þakklát fyrir þennan stuðning,“ segir Ásgerður Th. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs. „Það skiptir okkur miklu máli að finna þann velvilja og stuðning sem SÁÁ nýtur hjá þjóðinni. Þetta er enn eitt merkið um þann velvilja. Allt okkar sjálfsaflafé rennur í að greiða niður meðferð okkar skjólstæðinga.“

Fyrir um tveimur árum gerðu SÁÁ og Atlantsolía samning um sérstakan SÁÁ-dælulykil sem allir geta nálgast í atlantsolia.is og saa.is. Dælulykillinn tryggir velunnurum SÁÁ afsláttarverð á eldsneyti alla daga. Með því að nota lykilinn fær fólk að minnsta kosti sex króna fastan afslátt af eldsneytislítranum en auk þess renna tvær krónur af hverjum lítra til SÁÁ.