Valmynd
english

Edrúhátíð gekk að óskum

„Framkvæmd hátíðarinnar hefur aldrei gengið betur,” segir Rúnar Freyr Gíslason, framkvæmdastjóri Edrúhátíðarinnar sem haldin var að Laugalandi í Holtum um verslunarmannahelgina.

Þar komu saman meira en 1000 manns og skemmtu sér frá föstudegi og fram á mánudag. Rúmlega 50 sjálfboðaliðar báru hitann og þungann af framkvæmd hátíðarinnar sem gekk snurðulaust og slysalaust fyrir sig.

„Það sem er efst í huganum er þakklæti til þessara fjölmörgu sjálfboðaliða. Við erum orðin vön að reka svona mannmarga útihátíð og það er ekki síst sjálfboðaliðunum að þakka. Þau vita út á hvað þetta gengur og sinna þessu frábærlega. Þau gerðu þessa hátíð að því sem hún var, án þeirra gætum við ekki gert þetta,” segir Rúnar Freyr.

Um fimmtíu listamenn og skemmtikraftar komu einnig fram á hátíðinni.

„Það sem mér finnst sitja eftir er að allar kynslóðir skemmtu sér saman, á sama stað og sama tíma alla helgina,” segir Rúnar Freyr.

„Á Edrúhátíð er ekkert sem heitir: ’Nú fáum við fullorða fólkið frí’ eða ‘nú eiga krakkarnir að gera eitthvað annað’. Það voru allir saman alla helgina og það er það sem er svona fallegt við þetta.“

„Þess vegna er svo mikilvægt að SÁÁ bjóði þennan valkost um þess helgi þegar nóg er af fyliríisstöðum um allt land þar sem krakkar þurfa að fara að sofa á einhverjum ákveðnum tíma og megi ekki fara á einhver ákveðin svæði. Það er mín von að þetta vaxi og dafni með tímanum og fleiri sjái þetta sem valkost fyrir sig og sína fjölskyldu.”