Valmynd
english

Frábær stemmning á afmælis- og baráttufundi SÁÁ 2014

Um 800 manns komu saman í Háskólabíói miðvikudaginn 8. október sl. og fögnuðu 37 ára afmæli samtakanna. Fundurinn bar yfirskriftina TREYSTUM BAKLANDIÐ, en það er heiti söfnunar SÁÁ sem hófst sama kvöld. Á fundinum var mikill samhugur og stemmning, enda málefnið brýnt. Kynnir kvöldsins var Rúnar Freyr Gíslason, en til máls tóku Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og sérstakur gestur fundarins, Arnþór Jónsson formaður SÁÁ, Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir á Vogi, Edda Björgvinsdóttir og Linda Dögg Hólm.

Skemmtiatriðin voru ekki af verri endanum en kvöldið hófst með kröftugum tónlistarflutningi hljómsveitarinnar Agent Fresco. Sísý Ey – systur stigu á stokk í öllu sínu veldi og kvöldinu lauk svo þegar 80 manna karlakórinn Fóstbræður tók nokkur lög með Björgvin Halldórsson í fararbroddi. Sigurður Gunnsteinsson ráðgjafi SÁÁ var svo heiðraður sérstaklega með Heiðursviðurkenningu SÁÁ fyrir ómetanlegt framlag í þágu alkóhólista á Íslandi. Það var Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, sem afhenti Sigurði viðurkenninguna.

Treystum baklandið!

Söfnunin Treystum baklandið gengur út á að veita veikustu sjúklingunum betri og fjölbreyttari meðferðarúrræði en nú ert gert. Þetta er oft fólk sem á ekkert bakland í fjölskyldu, vinum, vinnu eða menntun. Samtökin vilja halda vel utan um þetta fólk, lengur og betur en gert er. Teiknaðar hafa verið 36 einstaklingsíbúðir á landi SÁÁ á Kjalarnesi, og telja samtökin að bygging þeirra muni leysa stóran hluta vandans. En nú, sem fyrr, vantar fjármagn. Viðræður við ríkið hafa staðið yfir, með hléum, frá árinu 2007 en nú er svo búið að SÁÁ getur ekki beðið lengur. Aðgerða í þessum málaflokkið er þörf, tafarlaust. Samtökin biðla því til allra að leggja þessu mikilvæga málefni lið.

Ljósmyndarinn Spessi fangaði stemminguna í Háskólabíói og afraksturinn má sjá í myndaalbúminu.

SÁÁ þakkar öllum gestum afmælisfundarins kærlega fyrir komuna. Sjáumst aftur á næsta ári!