Valmynd
english

Greinargerð um þjónustu SÁÁ

Sjá greinargerð um þjónustu SÁÁ >

Uppbygging heildstæðrar þjónustu
SÁÁ er ekki einkaaðili í heilbrigðisrekstri heldur grasrótarsamtök sem urðu að almannafélagi. Meginmarkmið SÁÁ er að vinna gegn fordómum og vanþekkingu á áfengis- og vímuefnafíkn og bjóða bestu meðferð og þjónustu sem völ er á.

Greining og eftirlit
Áfengis- og vímuefnafíkn er sjúkdómur sem auðvelt er að greina. Hann verður til vegna endurtekinnar neyslu vímuefna þar sem flókið samspil erfða og umhverfisþátta veldur því að sjúklegar breytingar geta orðið í heila. Sjúkdómurinn þróast, neyslan lætur ekki að stjórn, afleiðingar verða á líf viðkomandi, geðrænar, líkamlegar og félagslegar, tækifæri og hæfni glatast.

Þjónustan sem sjúklingarnir fá er í höndum heilbrigðisstarfsfólks með réttindi og á ábyrgð forstjóra sjúkrahússins Vogs. Þjónustan er undir faglegu eftirliti Embættis landlæknis og reksturinn undir eftirliti Sjúkratrygginga Íslands.

Velvild og verðmæti
SÁÁ sinnir fyrst og fremst þeim geðheilbrigðisvanda sem fíknsjúkdómurinn veldur og snertir einstaklinga, börn þeirra, fjölskyldur og samfélagið allt. SÁÁ býður upp á fagþekkingu, áratuga reynslu og fyrsta flokks aðbúnað. Allur húsakostur samtakanna er byggður fyrir söfnunarfé og er sérhannaður fyrir starfsemina. Fá dæmi eru um almannaheillasamtök sem njóta velvildar og stuðnings líkt og SÁÁ gerir. Þjónustan er heildstæð og samfelld og skapar mikil verðmæti í samfélaginu.