Valmynd
english

Lögbundin þjónusta fyrir sjálfsaflafé


Sérstök er umræða dagsins um vanda vímuefnasjúkra. Á einum kantinum talar hávær hópur fyrir lögleyfingu vímuefna og frjálsri sölu á áfengi og á hinum kantinum er annar hávær hópur sem telur að félagsleg úrræði og meðferð fyrir vímuefnasjúklinga séu vanbúin, illa rekin og ónóg. Stundum er þetta sama fólkið sem kvartar yfir öllu sem gert er þó það geri ekkert sjálft. Dæmi er um alþingismann sem telur það hafið yfir vafa, vísindalega sannað, að neysla á kannbis geti læknað krabbamein.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag sagt frá óbærilega sorglegum og fullkomlega ótímabærum dauða átta ungmenna. Þar er fullyrt að lítið sé gert fyrir ungmenni í vímuefnavanda og gefið í skyn að hægt hefði verið að bjarga lífi fólksins með réttri meðferð og tímabærri. Það má auðvitað til sanns vegar færa. Í fréttinni er samt sem áður ekki sagt frá því að þessi ungmenni hafi verið að sprauta sig með löglegum vímuefnum sem fíklar fá hjá læknum og ríkið niðurgreiðir fyrir stórfé. Það hlýtur að vera sérstakt rannsóknarefni hvers vegna eftirlitsaðilar á heilbrigðissviði hafa ekki hlustað á viðvörunarorð SÁÁ vegna þessa heimatilbúna vanda. Langt er síðan reynt var að vekja þá.

SÁÁ eru 37 ára gömul samtök sem reka heilbrigðisstofnanir og veita auk þess öllum landsmönnum margvíslega þjónustu. Fyrst og fremst beinist starfsemin að vímuefnafíklum og aðstandendum þeirra en margir fleiri njóta þjónustunnar beint og óbeint.

Sjúkrarekstur samtakanna á að vera fjármagnaður með þjónustusamningi við íslenska ríkið og útseldri þjónustu. Mikill og vaxandi halli hefur verið á þessum rekstri sem heildarsamtökin greiða niður jafnharðan með sjálfsaflafé frekar en að draga úr þjónustunni.

Á línuritum sést hvernig ríkið hefur dregið úr fjárveitingum til meðferðarinnar mörg undanfarin ár. Næsti þjónustusamningur sem Sjúkratryggingar Íslands vilja gera við SÁÁ um sjúkrahúsið Vog, gerir að óbreyttu ráð fyrir 1520 innlögnum á sjúkrahúsið á ársgrunni. Lengst af hafa innlagnir á Vogi verið um 2200 á hverju ári. Á þessu ári verða innlagnir um 2000. Langur biðlisti er eftir meðferð. Ungmenni þurfa þó ekki að bíða lengi eftir þjónustu.

Um göngudeildina og samskipti SÁÁ við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) væri hægt að skrifa langt bréf. Stutta útgáfan er þannig að SÍ luku við uppgjör vegna göngudeildarþjónstu ársins 2013 í september 2014 og SÍ hafa ekkert greitt fyrir göngudeildarþjónustu SÁÁ á þessu ári þrátt fyrir samninga þar að lútandi. Þessi mikilvæga þjónusta hefur því nær eingöngu verið rekin fyrir sjálfsaflafé allt þetta ár.