Valmynd
english

MDMA og skyld efni

Inngangur

E- pillan er amfetamínafbrigði sem virkar líkt og amfetamín en hefur um leið áhrif á skynjun neytandans og víman verður því öðru vísi en af amfetamíni. Hún hefur fyrst og fremst verið notuð og markaðsett fyrir hinn ólöglega vímuefnamarkað sem ofskynjunarefni  íkt og LSD. Efnafræðiheiti E-pillu er dimethylene-dioxymethamphetamine. Það var fyrst markaðsett undir heitinu „Ecstasy“ en hefur verið kallað hinum ýmsu nöfnum í vímuefnaheiminum eins og: E-pilla, E-pilla, MDMA, Adam, XTC, M&M eða Rave. Efnið hefur verið þekkt frá lokum Seinni heimstyrjaldar en náði ekki útbreiðslu og olli ekki teljandi vandamálum fyrr en eftir 1980. Það náði ekki að keppa við LSD á sjöunda áratugnum þegar ofskynjunarefni voru sem vinsælust vegna þess að LSD hefur kröftugri ofskynjunaráhrif og veldur ekki ógleði og uppköstum eins og E-pillan gerir gjarnan.

E-pillan náði fyrst útbreiðslu í höfuðborg vímuefnanna San Fransisco og breiddist þaðan út til Bandaríkjanna á níunda áratugnum. E-pillan komst þó ekki í sviðsljósið almennilega fyrr en um 1990 þegar fjöldi unglinga í Bretlandi og Þýskalandi fóru að hópa sig saman, taka efnið inn og dansa maraþondans undir áhrifum þess í stórum hópum. Fyrstu dauðsföllin sem sagt var frá í Bretlandi vegna efnisins kom svo E-pillunni í miðpunkt umræðunnar. Efnið barst til Íslands um 1995 og síðan þá hefur mikill fjöldi íslenskra unglinga notað efnið.

Það eru þrjú atriði sem gera þetta vímuefni varasamt og hættulegt:

  • Í fyrsta lagi getur efnið valdið skyndidauða vegna eitrunar en slíkt er ekki fyrir hendi þegar LSD er notað. Nú þykir sannað að yfir 100 einstaklingar hafi látist af völdum efnisins á síðustu fimm árum.
  • Í öðru lagi þykir sannað að efnið getur valdið heilaskemmdum við tiltölulega litla notkun. Skemmdirnar koma þá fram sem varanlegt þunglyndi eða kvíði.
  • Í þriðja lagi getur efnið valdið skyndilegu og svæsnu þunglyndi í neyslunni og rétt eftir hana og svipar að þessu leiti til LSD.

Náskylt E-pillu og með svipaða verkun eru MDA (dimethylenedioxyamphetamine) og MDEA (dimethylenedioxyethylamphetamine). MDA var töluvert notað í Bandaríkjunum á árunum 1968 til 1980 og gekk undir nafninu „Drug of love“. MDEA sem hefur gengið undir nafninu „Eve“ eða Eva kom fram eftir að MDMA eða Adam var bannaður í Bandaríkjunum 1985 og þá til að komast fram hjá lögunum. MDA hefur líklega mesta ofskynjunarverkun þessara efna en MDMA minnsta og MDEA er þar á milli. MDA virkar í 10-12 tíma meðan MDMA og MDEA virka í 4-6.

Söguleg atriði

Árið 1887 varð Egelan fyrstur manna til að smíða amfetamín og skyld efni. Það var þó ekki fyrr en 1910 að rannsóknir á áhrifum þessara efna á líkamann hófust. Um svipað leiti eða 1912 var MDMA fyrst framleitt. Rannsóknirnar á amfetamínefnunum beindust í fyrstu að áhrifum þeirra á hjarta, æðar og úttaugakerfi. Áhrif efnanna á heilann urðu mönnum ekki kunn fyrr en um 1930.

Þýska lyfjafyrirtækið Merck þar sem efnið var fyrst búið til fékk einkaleyfi fyrir MDMA og MDA árið 1914. Líklega höfðu menn þar á bæ enga hugmynd um hvernig efnið virkaði og allra síst á heilann. Sögur fóru þó af því að fyrirtækið ætlaði að setja efnið á markað sem megrunarlyf. Það varð þó aldrei af því að efnið væri sett á markað sem lyf. Engum sögum fer síðan af efninu um langan tíma. Að vísu gerði bandaríski herinn tilraunir með efnið um 1950 með mikilli leynd svo það spurðist ekki út fyrr en miklu seinna. Vegna þess að enginn hafði áhuga á efninu og það var lítið þekkt var það ekki flokkað með öðrum fíkniefnum og bannað í byrjun sjöunda áratugsins eins og MDA.

Bretar bönnuðu efnið 1977 en það hélt áfram að vera löglegt í Bandaríkjunum fram til 1985. Um 1975 ákváðu ólöglegir vímuefnaframleiðendur að finna þessu löglega efni nafn, pakka því, dreifa og auglýsa í anda stórfyrirtækja. Í undirheimunum komu uppástungur um að kalla efnið „Empathy“ áður en nafnið „Ecstasy“ varð ofan á. Þessi framleiðsla og markaðsetning hefur verið í gangi síðan.

Framhald: 1 2 3 4 5 6 7 8 9