Valmynd
english

Nýr fræðsluvefur um kannabis

Kannabis.is er nýr fræðsluvefur um áhrif kannabis á mannslíkamann. Arnar Jan Jónsson, deildarlæknir á geðdeild Landspítalans, hefur tekið saman efnið og unnið að vefnum í samráði við Engilbert Sigurðsson, geðlækni og Heru Birgisdóttur en þau rituðu einnig saman grein um tengsl kannabis og geðrofssjúkdóma í Læknablaðið  árið 2014.

Á vefnum er meðal annars að finna samanteknar upplýsingar um niðurstöður rannsókna um áhrif kannabisefna á öndurnarfæri líkamans og áhrif efnanna á geðrof og geðrofssjúkdóma og um áhrif kannabisefna á námsárangur. Þá er fjallað um hvort nýta megi kannabis í lækningaskyni. Hvarvetna er vísað í helstu rannsóknir sem gerðar hafa verið erlendis og fjallað hefur verið um í erlendum vísindatímaritum.

Um hvort nýta megi kannabis sem lyf segir í samantekt kannabis.is:

Flestar rannsóknir á kannabis í læknisfræðilegum tilgangi sýna ekki fram á nægilega gagnsemi og getur notkun efnisins haft alvarlegar aukaverkanir. Meðal þeirra skilmerkja sem lyf hafa, verður það að hafa vel skilgreind og mælanleg efni sem eru eins í hverjum skammti. Kannabis innihildur fjöldamörg virk efni sem eru mismunandi eftir plöntum. Það er því ekki hægt að mæla með notkun þess í læknisfræðilegum tilgangi miðað við þær rannsóknir sem liggja fyrir í dag.

Rannsóknir gerðar á kannabínóðunum dronabinol og nabilone sýna fram á gagnsemi sem hluta af ógleðistillandi meðferð og verkjameðferð í völdum tilfellum hjá einstaklingum í krabbameinslyfjameðferð. Frekari rannsókna er þörf á gagnsemi lyfjanna á öðrum sviðum

Um tengsl kannabisefna og geðrofs segir í samantekt á kannabis.is:

Það er þannig ljóst að endurtekin (>10 skipti) notkun kannabisefna hjá unglingum eða ungum fullorðnum er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir geðrofi eða þróun geðklofa snemma á fullorðins árum. Áhætta 18-20 ára einstaklinga á þróun geðklofa eykst frá 30% upp í 300% á 30 árum, mest framan af þó. Hve mikil aukning áhættu verður ræðst mest af tíðni notkunar efnisins fyrir tvítugt. Mikilvægt er að auka þekkingu almennings á alvarlegum afleiðingum kannabisnotkunar og þeirri staðreynd að ekki er hægt að spá fyrir um hverjir veikist af geðrofi til skemmri tíma og hverjir til lengri tíma í hópi þeirra sem nota efnið reglulega.

Sjá nánar hér.