Valmynd
english

Nýr sálfræðingur ráðinn til SÁÁ

Sigurrós Friðriksdóttir sálfræðingur hefur tekið til starfa við Fjölskyldudeild SÁÁ.

Nú eru því tveir sálfræðingar í starfi við Sálfræðiþjónustu barna í stað eins áður. Fyrir var Ása Margrét Sigurjónsdóttir, sálfræðingur, sem hefur umsjón með Sálfræðiþjónustunni og hefur starfað með börnum alkóhólista hjá SÁÁ frá 2010.

Nokkurra mánaða bið hefur verið eftir fyrsta viðtali en sú bið mun væntanlega styttast nú þegar þjónustan hefur verið efld með ráðningu Sigurrósar.

Sigurrós Friðriksdóttir starfaði síðast sem sálfræðingur við skóla í þjónustumiðstöðinni Miðgarði og var áður sálfræðingur hjá Heilsuvernd frá 2011-2013. Hún lauk Cand.Psych gráðu frá Háskóla íslands árið 2011 og hefur einnig meistaragráðu frá Sviss í Fyrirtækjasamskiptum árið 2009, auk BA- gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands.

Markmiðið með Sálfræðiþjónustu barna hjá SÁÁ er að veita börnum opnun og viðurkenningu á stöðu sinni og aðstæðum í fjölskyldu þar sem áfengis- eða vímuefnavandi er til staðar og að hjálpa þeim að skilja betur eigin aðstæður og aðstæður foreldranna og aðstoða þau við að greina á milli sjúkdómsins alkóhólisma og manneskjunnar sem þjáist af honum.

Með því að aðstoða barnið við að rjúfa þann þagnarmúr og þá einangrun sem einkennir oft börn í þessum aðstæðum er hægt að bæta líðan og velferð barnsins og auka um leið skilning þess á sjúkdómi foreldranna og afleiðingum hans. Með því getur barnið betur áttað sig á stöðu foreldranna og getur líka betur tekist á við og unnið úr eigin tilfinningalegri vanlíðan, styrkt sjálfsmynd sína og eflt félagsfærni.

Hægt er að óska eftir forgangi fyrir börn sem búa við sérlega slæmar aðstæður eða sýna einkenni mikils kvíða eða hegðungarvanda sem ætla má að rekja megi beint til ástands á heimilinu.

Hvert barn fær átta viðtöl; eitt viðtal í viku. Hvert viðtal kostar 3.000 krónur en aðeins er greitt eitt gjald fyrir börn úr sama systkinahópi. Um 800 börn höfðu nýtt sér Sálfræðiþjónustu barna um áramótin 2015 en þjónustan hefur verið veitt frá 2008.