Valmynd
english

Öflugt félagsstarf að hefjast

Félagsstarf vetrarins er að hefjast hjá SÁÁ. Þar verða meðal annars í boði opnir tímar í Mindfulness með Ásdísi Olsen í hádeginu á föstudögum og fyrirlestrar um Betri fjármál sem Haukur Hilmarsson, ráðgjafi í fjármálahegðun heldur í hádeginu á þriðjudögum og eru ætlaðir fólki sem vill takast á við fjármálin. Þá mun Valgeir Skagfjörð, leikari og markþjálfi, flytja fyrirlestra kl. 17.15 á þriðjudögum fyrir þau sem vilja hætta að reykja en hann hefur bæði skrifað bók, sem hefur gagnast mörgum við að hætta að reykja, og haldið fjölmörg námskeið um efnið frá árinu 1998.

Allir eru velkomnir á þessa dagskrárliði. Aðgangur á þá er ókeypis meðan húsrúm leyfir. Það eina sem þarf er að skrá sig til þátttöku við innganginn. Sjá nánari upplýsingar hér að neðan:

Mindfulness með Ásdísi Olsen. Opnir tímar verða í hádeginu á föstudögum frá kl. 12.10-12.50 húsi SÁÁ, Von, Efstaleiti 7. Fyrsti tíminn verður 4. September. Allir eru velkomnir hvort sem þeir hafa iðkað mindfulness eða ekki. Ásdís hélt Mindfulnessnámskeið fyrir SÁÁ síðastliðið vor og gerði mikla lukku. Við tökum nú upp þráðinn með þessum opnu tímum. Mindfulness er áhrifarík og umbreytandi iðkun fyrir þau sem vilja bera ábyrgð á líðan sinni og viðbrögðum og öðlast aukna hugarró, núvitund, sjálsstjórn, samkennd og sátt. Ásdís kennir jákvæða sálfræði og Mindfulness við Háskóla Íslands. Hún er B.Ed. og MA að mennt og sérhæfð í áhrifaríkum aðferðum til að auka hamingju, vellíðan og sátt í lífi og starfi. Athugið að tímarnir byrja klukkan 12.10 stundvíslega og fólki er ekki hleypt inn í salinn eftir að tíminn hefst. Nánar má fræðast um Ásdísi og Mindfulness á vef hennar, Hamingjuhusid.is. Sérstakur hópur er til á Facebook vegna þessara opnu tíma þar sem komið er á framfæri skilaboðum og efni til þátttakenda. Hæst er að skrá sig í hópinn hér.

Betri fjármál. Haukur Hilmarsson er vottaður ráðgjafi í fjármálahegðun og kallar sig „Einkaþjálfara í fjármálum.“ Haukur er höfundur verkefnabókarinnar Betri fjármál sem er skrifuð fyrir alla, hvort sem fólk er í alvarlegum fjárhagsvanda eða vill gera góða stöðu betri. Hann hefur notað efnið sem kennsluefni fyrir félagsráðgjafanema við Háskóla Íslands og við fjölda námskeiða hjá Vinnumálastofnun, Endurmenntun Háskóla Íslands, lélagsþjónustum sveitarfélaga og víðar. Haukur mun flytja opna fyrirlestra um hegðun og hugarfar í fjármálum. Fjallað er um hvers vegna við virðumst taka undarlegar ákvarðanir í fjármálum og látum venjur og tilfinningar frekar en skipulag stjórna daglegum útgjöldum. Haukur er með heimasíðuna Skuldlaus.is þar sem eru nánari upplýsingar um hann og hans störf. Sérstök viðburðasíða hefur verið stofnuð vegna fyrirlestra Hauks og þar er að finna nánari upplýsingar um fyrirlestrana hjá SÁÁ. Þeir verða haldnir í hádeginu á þriðjudögum. Þeir hefjast klukkan 12.05 og lýkur klukkan 12.50. Sá fyrsti verður 8. september.

Reykleysi. Valgeir Skagfjörð, leikari og markþjálfi, hefur frá 1998 haldið námskeið fyrir reykingamenn og aðra sem vilja losna úr viðjum nikótíns. Hann er höfundur bókarinnar „Fyrst ég gat hætt, getur þú það líka“ sem kom fyrst út árið 2006 og er enn fáanleg. „Með því að öðlast skilning á reykinga- og nikótíngildrunni og átta sig á blekkingum nikótínfíknarinnar verða reykingamenn hamingjusamlega lausir úr þrældómnum og upplifa nýtt frelsi sem þeir höfðu ekki getað ímyndað sér að væri hægt að öðlast,“ segir Valgeir. Hann mun halda fjóra fyrirlestra, á þriðjudögum í septembermánuði. Þeir kl. 17.15 og eru um klukkutíma langir. Sá fyrsti verður þriðjudaginn 8. september. Nánari upplýsingar um fyrirlestra Valgeirs er að finna á viðburðarsíðunni á Facebook, sem er hér.
—-
Ítarefni:
Mindfulness:
Hamingjuhúsið
Facebook-hópur

Betri fjármál:
Skuldlaus.is
Viðburður á Facebook.

Fyrst ég gat hætt getur þú það líka.
Viðburður á Facebook.