Valmynd
english

Örvandi efni

Örvandi vímuefnaneysla (E-pilla, kókaín og amfetamín og þar með talið rítalin) er alvarlegasta vímuefnafíknin á Íslandi. Hún herjar mest á fólk milli 20 og 30 ára. Meira en helmingur fíklanna fer að sprauta efnunum í æð með öllum þeim kvillum sem því fylgir. Þessi fíkn vex stöðugt, bæði kókaín og amfetamínfíkn. Á fyrsta kreppuári 2009 verður nokkur breyting á neyslunni því fíklarnir virðast nota kókaín og e-pillu miklu sjaldnar en fíklarnir bæta sér það upp með því að sækja með vaxandi þunga í rítalín. Þegar á heildina er litið heldur örvandi vímuefnaneysla sínum hlut þó að nýgreindum örvandi vímuefnafíklum fækki eitthvað 2009. Sprautufíklum sem sprauta sig reglulega með örvandi efnum í æð heldur enn áfram að fjölga á sjúkrahúsinu Vogi. Meira og meira af örvandi ávanalyfjum (ritalín og amfetamín ) virðist komast inn á ólöglega vímuefnamarkaðinn og gengur þar kaupum og sölum.

Nýju tilfellin af örvandi vímuefnaneyslu eru tæplega 300 á ári síðustu árin en urðu flest 320 árið 2006. Þó að fíklunum fækki ekki marktækt í heild fækkar nýjum örvandi vímuefnafíklum marktækt í fyrsta sinn í 8 ár árið 2009. Í heild voru tilfellin 701 eða 41% af sjúklingahópnum árið 2009. Þessi vandi herjar mest á þá ungu og 67,9% sjúklinga á aldrinum 20 til 29 greindust með hann, 73,0% kvenna og 66,3% karla.

Amfetamín

Á sjöunda áratugnum var notkun amfetamíns og skyldra efna sem ávísað var af læknum og misnotkun þessara sömu lyfja vel þekkt vandamál á Íslandi. Einnig var algengt að sjómenn sem sigldu á Þýskalandsmarkað kæmust yfir amfetamíntöflur og flyttu þær til landsins. Þessir misnotendur amfetamíns sprautuðu efninu aldrei í æð. Þessi amfetamínnotkun var nánast horfin í kringum 1980 og fáir sjúklinga sem í meðferð komu höfðu notað amfetamín eða skyld efni síðustu 6 mánuði.

Framhald: 1 2 3 4 5