Valmynd
english

Sagðirðu álf?

Nú er að hefjast álfasala SÁÁ. Þetta er stærsta fjáröflun samtakanna og skiptir meginmáli til að þeim sé unnt að reka starfsemi sína á Vogi.

Það var fyrir um 36 árum að ég leitaði eftir hjálp vegna áfengisneyslu sem ég hafði ekki stjórn á. Hjálpina fékk ég hjá sjúkrastofnun SÁÁ, sem nú er rekin á sjúkrahúsinu Vogi, en var þá rekin við frekar frumstæð skilyrði á Silungapolli hér fyrir ofan Reykjavík. Líftími Vogs er nú kominn á fjórða áratuginn. Starfsemin sem þar hefur verið rekin er sannkölluð mannræktarstarfsemi. Þar er sjúklingunum kennt að hjálpa sér sjálfir með því að taka ábyrgð á eigin lífi. Ófáir Íslendingar geta þakkað SÁÁ fyrir að hafa náð aftur stjórn á lífi sínu sem þeir höfðu misst. Til þess að geta rekið þessa starfsemi áfram þarf SÁÁ á frjálsum fjárframlögum að halda. Í því skyni eru álfar nú seldir.

Hjálpin sem ég þáði á sínum tíma hefur enst mér allt fram á þennan dag. Ég hef ekki bragðað áfengi þennan tíma en það sem meira er þá held ég að mér hafi tekist í auknum mæli að tileinka mér þá afstöðu til lífsins sem hjálpin byggðist á, að taka sjálfur ábyrgð á eigin lífi. Fjölmargir aðrir hafa sömu sögu að segja.
Það er því óhætt að hvetja fyrirtæki og einstaklinga til að kaupa álfa og styðja með þeim hætti við göfuga og gefandi starfsemi sem unnt hefur verið að halda úti gegnum árin án þess að þurfa eingöngu að treysta á framlög frá hinu opinbera eins og heilbrigðisstarfsemi að jafnaði gerir. Það er miklu betra að kaupa sér álf heldur en að vera rukkaður um samsvarandi skattgreiðslu í ríkissjóð.

Eða eins og gamli bóndinn svaraði prestinum: „Sagðirðu álf? Mér heyrðist þú segja kálf!“

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögfræðingur

Greinin að ofan birtist í Morgunblaðinu í dag.