Valmynd
english

Sjúkdómarinn kvikmyndaður í Von

Grétar Maggi Grétarsson og samstarfsmenn hans heimsóttu Von, hús SÁÁ í Efstaleiti, á dögunum og unnu þar til tökur á atriðum fyrir stuttmyndina Sjúkdómarinn.

Grétar Maggi skrifaði handrit, leikstýrir og framleiðir en Halldór Gylfason leikur aðalhlutverkið.

„Þetta er grínmynd með góðum boðskap, um hvað áfengi gerir fólki sem hefur enga stjórn,“ segir Grétar Maggi. Aðalsöguhetjan er í hálaunaðri vinnu sem hann missir vegna drykkjuskapar en tekur sig á og fer að vinna sem öryggisvörður en gengur erfiðlega að átta sig á lífinu og nýjum aðstæðum.

„Hugsunin varðandi nafnið á myndinni er að fólk er enn að pæla í því hvort alkóhólismi sé sjúkdómur eða ekki. Hver dæmir svoleiðis, hver ákveður hvað er sjúkdómur og hvað ekki? Persónulega held eða veit ég að þetta er sjúkdómur,“ segir Grétar Maggi.

Myndin verður frumsýnd í Bíó Paradís 9. desember kl 20 ásamt sex öðrum stuttmyndum.