Valmynd
english

Unnið að ráðningu fleiri sálfræðinga

Unnið er að því að fjölga sálfræðingum sem sinna Sálfræðiþjónustu barna hjá SÁÁ. Væntanlega mun því biðlistinn eftir þjónustunni styttast en hann er nú allt að því átta mánuðir.

Tíðinda af þessu er að vænta strax í upphafi nýs árs, að sögn Ásu Margrétar Sigurjónsdóttur, sálfræðings hjá SÁÁ, sem hefur yfirumsjón með þjónustunni.

Fleiri en 800 börn hafa nýtt sér sálfræðiþjónustuna sem SÁÁ hefur boðið börnum alkóhólista á aldrinum 8-18 ára frá árinu 2008. Markmiðið er að veita börnum opnun og viðurkenningu á stöðu sinni og aðstæðum í fjölskyldu þar sem áfengis- eða vímuefnavandi er til staðar og hjálpa þeim að skilja betur aðstæður og aðstoða þau við að greina á milli sjúkdómsins alkóhólisma og manneskjunnar sem þjáist af honum.

Meðferðin sem hvert barn fær felst í átta viðtölum. Yfirleitt innrita foreldrar börnin en nokkuð er um að frumkvæði komi frá öðrum aðstandendum eða fagfólki þegar um er að ræða börn sem eiga foreldra í neyslu.
Sálfræðiþjónustan er að miklu leyti fjármögnuð með tekjum SÁÁ af álfasölunni og annarri fjáröflun. Reykjavíkurborg hefur einnig veitt styrk til verkefnisins. Kostnaður við hvert viðtal er 3.000 krónur en aðeins er greitt eitt gjald fyrir systkini.

Sérfræðihópur umboðsmanns barna

Umboðsmaður barna gekkst fyrir ákveðnu mati á þessari þjónustu þegar embættið lét vinna og kynna skýrslu, sem unnin var af „sérfræðihóp” fimm barna. Öll höfðu þau nýtt sálfræðiþjónustuna. Umboðsmaður barna gekkst fyrir þessu tilraunaverkefni til að leita eftir sjónarmiðum barnanna sjálfra til þess hvernig það er að eiga foreldri sem á við áfengis- og vímuefnavandamál að stríða, hvers konar aðstoð hefur reynst vel og hvaða þjónustu börnin þurfi helst á að halda.
Í skýrslu hópsins kom fram að öll börnin voru sammála um að sú sálfræðiaðstoð og ráðgjöf sem þau fengu frá SÁÁ hafi hjálpað þeim og breytt miklu fyrir þau og veitt þeim styrk. “Fræðslan skipti þar miklu máli og fannst þeim erfitt að hugsa til þess hvernig það hefði verið ef hún hefði ekki komið til,” segir í skýrslu hópsins. “Alkóhólismi er ekki eitthvað til að skammast sín fyrir. Þessi aðstoð reyndist þeim mikill styrkur.”

Fréttin birtist fyrst í SÁÁ blaðinu, sem er borið út í hús á höfuðborgarsvæðinu í dag. Hægt er að lesa blaðið á netinu með því að smella hér.