Valmynd
english

Vísinda- og þekkingarviðmið í meðferð SÁÁ

Pistillinn sem hér fer á eftir er 8. kafli Ársrits meðferðarsviðs SÁÁ fyrir árin 2011-2015 sem Þórarinn Tyrfingsson tók saman:

Þegar SÁÁ, með læknana sína í fararbroddi, hóf meðferðarstarf sitt sem byggði á þeirri hugmynd að áfengissýki væri sérstakur líkamlegur sjúkdómur, höfðu flestir læknar aðra sýn á vandann. Í læknadeildinni var kennt að um heilkenni væri að ræða og ástæður óhóflegrar neyslu væru mismunandi geðsjúkdómar. Síðan þetta var hefur þekking á starfsemi heilans og eðli áfengis- og vímuefnasjúkdómsins vaxið hröðum skrefum og á síðustu áratugum hafa framfarir í taugalífeðlisfræði og aukin þekking á starfsemi heilans smám saman dregið úr ágreiningi heilbrigðisstarfsmanna um eðli áfengis- og vímuefnasjúkdómsins. Í lok síðustu aldar hillir undir að þekkingin leysi þessar deilur endanlega. Í nýlegri yfirlitsgrein sem birtist í NEJM 2015, lýsa þau Koob og Volkov, − tveir fremstu sérfræðingar í líffræðilegum breytingum á heila áfengis- og vímuefnasjúklinga − sameiginlegri sýn sinni á að sjúkdómur áfengis- og vímuefnafíknar væri heilasjúkdómur.

Í vaxandi mæli hefur heilbrigðisstarfsfólk beitt þessari nýju þekkingu um sjúkdóminn með markvissari hætti við meðferð áfengis- og vímuefnasjúkdómsins. Sérhæfingin hefur vaxið og til orðið sérfræðigrein innan læknisfræðinnar, fíknlækningar („Addiction Medicine“).  Mikið af þessari sérþekkingu hefur verið safnað saman í textabók, The ASAM Principles of Addiction Medicine, sem heilbrigðisstarfsfólk SÁÁ notar í störfum sínum.

En þekkinguna er að finna víðar og því hefur heilbrigðisfólk samtakanna sótt ráðstefnur erlendis, bæði í Evrópu og N-Ameríku og fylgst vel með nýjungum. Þannig hafa hjúkrunarfræðingar farið á ráðstefnur á hverju ári og læknar samtakanna sækja árlega a.m.k. 3-4 ráðstefnur sem fjalla um ólíkar hliðar fíkniefnaneyslu og mismunandi meðferðaraðferðir. Áfengisráðgjafar samtakanna eru í miklum erlendum tengslum og hafa sótt ráðstefnur sem þeim eru ætlaðar, bæði hér á landi og erlendis.

Af þessu má ljóst vera að heilbrigðisstarfsfólk SÁÁ notar vísindalega þekkingu (vísindaviðmið) í störfum sínum þegar því verður viðkomið. Starfsfólkið notar einnig þekkingu og reynslu í störfum sínum sem ekki er hægt að tengja beint líffræðinni eða náttúruvísindum og heyrir þá til sálfræði eða félagsvísindum (þekkingarviðmið). Slík þekking og aðferðir hafa verið lagðar í dóm vísindalegra aðferða sálarfræðinnar og félagsvísinda og hlotið viðurkenningu þar.

Heilbrigðisstarfsfólk SÁÁ notar þessi vísinda- og þekkingarviðmið í störfum sínum, kennslu ráðgjafa, allri endurmenntun og aðlögun nýrra starfsmanna. Með þessu verður til afkastamikið þekkingarsamfélag heilbrigðisstarfsfólks sem hefur áþekka sýn á áfengis- og vímuefnasjúkdóminn og vinnur markvisst að greiningu hans og meðferð.

Vegna vanþekkingar og fordóma gætir stundum misskilnings þegar fólk reynir að finna meðferðinni hjá SÁÁ stað undir einni hugmyndafræði eða meðferðaraðferð. Sumir hafa viljað kenna meðferðina við “Minnesota method” og aðrir við „tólf spora kerfi“ og enn aðrir við trúarbrögð. Hið rétta er að heilbrigðisstarfsfólk SÁÁ hefur byggt upp meðferð fyrir áfengis og vímuefnasjúklinga sem er sérstök og á fáa sína líka.  Sjúkrahúsið Vogur er móttaka fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga þar sem sjúklingar fá afeitrun en um leið mikla meðferð sem miðar að því að auka innsæi sjúklinganna í stöðu sína og þann vanda sem við er að eiga. Fyrirmyndin var upphaflega Freeport sjúkrahúsið en fyrirkomulag hefur gjörbreyst og á fáa sína líka. Um leið og sjúklingarnir fá afeitrunarmeðferð og lyfjameðferð við geðsjúkdómum og geðeinkennum ef þörf er á, fer fram mikil fræðsla og hópmeðferð sem eykur innsæi sjúklinga og áhugahvöt þeirra til breytinga. Að aflokinni Vogsdvöl er markvissri meðferð síðan haldið áfram á Staðarfelli, Vík og á göngudeildum þar sem stuðst er við vísinda- og þekkingarviðmið (sjá hér á eftir).  Meðferðaraðferðirnar sem beitt er í viðtölum, hópmeðferð og fyrirlestrum eru hugræn atferlismeðferð að hætti SÁÁ, sem kennir fólki að fást betur við streitu, kvíða, þunglyndi, reiði, biturleika, fallþróun og föll og gerir sjúklinginn hæfari í samskiptum og félagslegri virkni.

Áfengis- og vímuefnafíkn er alvarlegur heilasjúkdómur

Upp úr 1900 urðu kenningar geðlækna um áfengissýki ráðandi meðal heilbrigðisstétta. Áfengissýkin var samkvæmt þeim kenningum einkenni um undirliggjandi geðveiki eða geðveilu. Af þessari hugmynd leiðir að greina þurfi geðveiluna og meðhöndla hana með hefðbundnum aðferðum geðlæknisfræðinnar til þess að ráða bót á áfengissýkinni. Þessi sjónarmið voru allsráðandi á geðdeildum og þá í kennslu heilbrigðisstarfsmanna fram á níunda áratug síðustu aldar en víkja smátt og smátt fyrir nýrri þekkingu þótt lífseig séu.

Áfengis- og vímuefnaneysla hefur verið vaxandi þjóðfélagsvandi alla síðustu öld. Á Vesturlöndum hefur ástandið einkum versnað eftir að ólöglegur vímuefnafaraldur geisaði meðal ungs fólks á sjöunda áratugi síðustu aldar. Þrátt fyrir góðan vilja og miklar mótaðgerðir hefur ekki tekist að draga úr þessum vanda. Þegar á heildina er litið hefur áfengis- og vímuefnavandinn aukist stöðugt. Þessi vandi er ekki aðeins gríðarlegur að vöxtum heldur einnig flókinn og margbreytilegur. Hann birtist okkur í fjölmörgum myndum eins og slysum, sjúkdómum, afbrotum, fjölskylduvandamálum og persónulegri óhamingju.

Framan af síðustu öldinni hafði heilbrigðisstarfsfólk lítil afskipti af áfengis- og vímuefnafíkn. Á seinni helmingi aldarinnar og byrjun þessarar hefur áhugi þeirra vaxið töluvert og kemur þar tvennt til. Í fyrsta lagi hafa læknar þurft að sinna fylgikvillum þessa sjúkdóms í vaxandi mæli, einkum sýkingum og eitrunum. Munar hér mest um vaxandi fjölda sprautufíkla sem jafnan eru líkamlega veikari en aðrir vímuefnasjúklingar og gjarnan fórnarlömb alnæmis. Í öðru lagi hefur aukin þekking á sviði taugalífeðlisfræðinnar beint athygli lækna að þessum sjúkdómi og vakið áhuga þeirra sem fer vaxandi.

Þótt viðhorf heilbrigðisstétta og lækna til áfengis- og vímuefnasjúklinga hafa breyst mikið með vaxandi þekkingu, gengur læknum ennþá illa að greina vandann á almennum sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum. Nærri öll vinna þeirra beinist að fylgikvillum og fráhvörfum. Þeir beita ekki fyrir sig læknisfræðinni að neinu marki til að leysa þennan króníska sjúkdóm á heildstæðan hátt og taka alltof lítinn þátt í að lækna og endurhæfa sjúklinga með varanlegt bindindi að markmiði.

Jellinek  lýsir í bók sinni The Disease Concept of Alcoholism, því sem hann kallar „new approach“ eða nýrri sýn á áfengissýkina, nálgun sem kom fram í BNA eftir seinna stríð. Nýja nálgunin var að líta á áfengissýki sem sjúkdóm í þeirri merkingu að um væri að ræða bilun í hinni líkamlegu vél og af því leiddi meðal annars að ekki væri hægt að kenna áfengissjúklingum að drekka og bindindi væri eina lausnin á vandanum. Þessi sjúkdómssýn var alsráðandi í Minnesota fylkinu í Bandaríkjunum eftir 1950. Á geðspítala fylkisins og tveimur öðrum meðferðarstofnunum þróuðu geðlæknar áfengis- og vímuefnameðferð sem byggðist á samvinnu heilbrigðisstarfsmanna, félagsráðgjafa og AA-félaga. Heildstætt var tekið á vandamálinu og lagabreytingar gerðar í fylkinu sem leiddu til þess að auðvelt var fyrir áfengissjúklinga að fara í meðferð á kostnað tryggingarfélaga. Þetta gaf svo góða raun að algjör kúvending varð á viðhorfum manna til áfengissjúklinga og áfengismeðferðar í fylkinu og Minnesota varð öðrum fylkjum í Bandaríkjunum fyrirmynd næstu 40 árin. Pólitískur sigur hafði unnist.

Þó að Jellinek hafi fært rannsóknir og umræðuna um áfengissjúkdóminn inn í háskólasamfélagið kom það í hlut George E. Vaillant og Harvardhópsins hans, að styrkja sjúkdómssýnina í sessi meðal háskólamanna og lækna með niðurstöðum úr viðamikilli framvirkri rannsókn árið 1983. Rannsóknin svaraði mikilvægum spurningum um áfengissýkina og tók af tvímæli um að auðvelt er að greina sjúkdóminn; þeir sem fá hann geta ekki notað áfengi hóflega og orsökin er ekki bara þunglyndi, persónuröskun, áföll eða kvíði.

Í kjölfarið varð til ný og ráðandi meðferðarstefna sem nýtti sér vaxandi vísindalega þekkingu um sjúkdóminn til í Bandaríkjunum og hér á landi, „Addiction Medicine.“ Samkvæmt þessari stefnu er áfengissýki talin sérstakur heilasjúkdómur sem þarf sérhæfðrar meðferðar við. Það sem áður var talið einkenni um geðveiki eða geðveilu hjá alkóhólistum var nú oftar talið afleiðing drykkjunnar fremur en orsök.

Á árunum 1975 til 1985 urðu hugmyndir atferlissálfræðinga nokkuð áberandi og þeir gerðu harða hríð að þeirri hugmynd að áfengis- og vímuefnafíkn væri sjúkdómur. Höfnuðu varanlegu bindindi sem lausn við stjórnleysi í drykkju og vildu kenna þeim sem í áfengisvanda voru hófdrykkju. Atferlissálfræðingum tókst þó ekki að sýna fram á nógu góðan árangur af meðferð sem byggði á hugmyndum þeirra og fólst í hóflegri drykkju. Fólkið sem var í vímuefnameðferð var líka með sjúkdóminn á alvarlegu stigi og sóttist sjaldan eftir slíkri meðferð. Þessir atferlissálfræðingar höfnuðu alfarið þeirri hugmynd að líffræðilegir þættir gætu verið orsök áfengis- og vímuefnafíknar. Þessar hugmyndir eiga ekki lengur upp á pallborðið hjá sérfróðum læknum og náttúruvísindamönnum um áfengis- og vímuefnasjúkdóminn.

Meðal þess sem síðan hefur unnið sjúkdómsýninni aukið pólitískt fylgi má nefna: 1997 birti Alan I. Leshner, þáverandi yfirmaður undirstofnunar heilbrigðisráðuneytis Bandaríkjanna NIDA (National Institute of Drug Addiction), tímamótagreinina „Addiction is a brain disease and it matters“ í Science Magazine. Nýleg skilgreining ASAM (American Society of Addiction Medicine), leggur mikla áherslu á þekktar líffræðilegar breytingar fremur en hegðunareinkenni. Yfirlýsing og ábending landlæknis Bandaríkjanna um hvernig líta beri á áfengis- og vímuefnasjúkóminn og meðhöndlun hans má telja til nýrra tímamóta hvað þessa þróun varðar (Facing addiction in America: The Surgeon General’s Report on Alcohol, Drugs, and Health. 2016. Washington D.C. U.S. Department of Health & Human Services).

Sameiginleg sýn heilbrigðisstarfsfólks  SÁÁ á áfengis- og vímuefnasjúkdóminn

Allir áfengis- og vímuefnasjúklingar, hvaða vímuefni sem þeir nota, eiga í grundvallaratriðum við sama líkamlega sjúkdóm að stríða ef þeir uppfylla nægilega mörg skilyrði DSM V (sex eða fleiri). Til er sérstök meðferð við sjúkdómnum sem beinist að því að stöðva sjúkdómsþróunina með bindindi og beita í kjölfarið markvissri meðferð sem miðar að því að lagfæra starfrænar truflanir í heila og óæskileg einkenni sem eru sameiginleg sjúklingunum.

 • Sjúkdómurinn er heilasjúkdómur sem einkennist fyrst og fremst af því að dómgreind og rökhugsun hverfur sjúklingum þegar vímuefni eru annars vegar og þeir missa þess vegna stjórn á neyslunni og geta byrjað neyslu að nýju þótt það sé þeim mjög hættulegt.
 • Ef stjórnkerfi heilans bila með þessum hætti vegna sjúkdómsþróunarinnar hafa önnur svæði heilans einnig tekið breytingum, bæði hvað útlit og starfsemi snertir og sjúklingar fá í kjölfarið óhjákvæmilega einkenni um aukinn kvíða, þunglyndi, svefntruflanir, tilfinningalegt stjórnleysi, minna streituþol og versnandi úrlausnargetu. Öll þessi einkenni spilla lífsgæðum sjúklings, halda honum í vítahring neyslunnar og verða oft hluti af fallþróun.
 • Sjúkdómurinn er langvinnur, einkennist af bakslögum og hefur tilhneigingu til að versna.
 • Bindindi er grundvöllur fyrir bata (bindindi á öll vímuefni og stopp á öfgahegðun eða fíknihegðun).
 • Eins og aðrir heilasjúkdómar er áfengis- og vímuefnasjúkdómurinn fjölþættur og taka verður á honum heildstætt og alhliða ef góður bati á að nást:
 • Líkamlegur
 • Sálfræðilegur
 • Félagslegur
 • Andlegur og menningarlegur

Lækningin er því fólgin í að stöðva neyslu allra vímuefna og hjálpa sjúklingnum að komast yfir eða lifa með því líffræðilega ójafnvægi sem skapast hefur í heilanum. Með vaxandi þekkingu má búast við að lyfjameðferð geti komið að haldi eftir að fráhvörfum lýkur. Enn er þó meðferðin aðallega byggð á að kenna sjúklingnum að lifa við líffræðilegt ójafnvægi meðan tíminn og breytt viðhorf, hugsunarháttur og hegðun eru látin um lækninguna. Ævarandi bindindi er síðan eina tryggingin fyrir varanlegri lækningu.

Innsæisskortur eða afneitun

Hluti af sjúkdómsmyndinni er hversu áfengis- og vímuefnasjúklingar eiga oft erfitt með sjá hve alvarlegur sjúkdómur þeirra er og meta raunhæft stöðu sína og getu. Þeir eiga oft erfitt með að setja sig í spor annarra og gera sér grein fyrir streitutilfinningum og falleinkennum í fari sínu. Þetta ástand stafar oft af líffræðilegum breytingum í heila sem verða vegna neyslunnar. Þessar breytingar ganga mishratt til baka með tímanum og bindindi og eykst þá geta sjúklings til innsæis. Góð hópmeðferð eykur mjög innsæi sjúklinga og er aðalmeðferðarúrræðið til að auka getu sjúklinga hvað þetta varðar. Með hópmeðferðinni verður að fara fram viðeigandi fræðsla.

Bataþróun

Líkan SÁÁ um bataþróun er í eðli sínu mikilvægasta þekkingarviðmið sem heilbrigðisstarfsfólkið notar. Þekkingunni og reynslunni um þróun batans er komið í líkan sem við köllum bataþróun. Þetta líkan um bataþróunina hefur tekið breytingum með vaxandi þekkingu og reynslu og er í stöðugri þróun. Líkanið er í raun samkomulag um það hvernig heilbrigðisstarfsfólk SÁÁ, telur að batinn eigi sér stað hjá sjúklingunum og er því grundvöllur að meðferðaruppbyggingunni. Bataþróun er ekki vísindaleg tilgáta sem hægt er að afsanna heldur líkan eða módel sem hægt er að aðlaga nýrri vísindalegri þekkingu og reynslu eftir þörfum. Batalíkur og hugmyndir um fallþróun skapa grundvöll til að gera nákvæma greiningu á stöðu sjúklingsins og  gera meðferðarinngrip eða meðferð markvissari. Í framhaldi af því er hægt að færa sjúklingi í hendurnar verkefni við hæfi og hvetja hann til að æfa sig. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar og annað heilbrigðisstarfsfólk verða að gera sér grein fyrir eðli bataþróunar, vita hvað drífur batann áfram og hvert sé eðli breytinganna sem verður á sjúklingnum þegar hann gengur í gegnum þessa þróun. Hvernig ásetningur hans og geta til að breyta hegðun, viðhorfum og hugsunarhætti verður til og næst fram.

Í áfengis- og vímuefnameðferðinni vill heilbrigðisstarfsfólk SÁÁ sjá virkan áfengis- og vímuefnasjúkling breytast í eðlilega og fullvirka manneskju.

 • Bataþróun er þróunarferill sem tekur nokkuð langan tíma (2-5 ár) og fyrir sjúklinginn er hann ekki auðrataður og kostar hann erfiði og vinnu.
 • Til að ná bata er algjört bindindi frá öllum vímuefnum og lyfjum nauðsynlegt og sjúklingurinn verður að leggja af ábyrgðarlaust eða óheiðarlegt líferni.
 • Bataþróunin lýtur þekktum lögmálum og batastigin verða að koma í réttri röð. Á hverju batastigi fyrir sig þarf sjúklingurinn að ljúka ákveðnum verkefnum áður en hann kemst á næsta batastig.
 • Því betur sem sjúklingarnir þekkja og skilja þessi lögmál því auðveldara eiga þeir með að ná bata.
 • Skilningur er ekki nógur til að ná bata, honum verður að fylgja framkvæmd.
 • Hægt er að lýsa því vel hvað gera þarf til að ná bata og brjóta niður í undirmarkmið.
 • Það er eðlilegt að á bataleiðinni verði á vegi sjúklingsins hindranir sem sjúklingar staldra við. Það er ekki hvort slíkar hindranir stöðvi batann sem ræður því hvort bati næst eða ekki, heldur hvernig sjúklingur bregst við og vinnur sig í gegnum slíkar hindranir sem ræður úrslitum.

Talað er um sjö þróunarstig batans:

 1. Áhyggjulaust neysluskeið.
 2. Neysluskeið umhugsunar og vaxandi vandamála.
 3. Neysluskeið með leit að aðstoð.
 4. Bindindi með lágmarks jafnvægi.
 5. Fyrsta batastig.
 6. Annað batastig.
 7. Þriðja batastig.
 8. Varanlegur bati.

Sjúklingarnir sem koma á Vík, Staðarfell eða göngudeild eru á þriðja þróunarstigi og þar er unnið með þróunarstig 3-5. Meðferðinni líkur með útskriftaráætlun þar sem brýnt er fyrir sjúklingi að halda batanum við með þátttöku í félagsskap AA-fólks eða annars bindindisfólks sem vinnur að því að efla og viðhalda langtímabata.

Föll og fallvörn

Þrennt getur valdið því að sjúklingur sem er að koma úr meðferð fái bakslag og byrji aftur að nota vímuefni stjórnlaust:

 • Inntaka vímuefna eða lyfja sem jafnframt eru vímuefni.
 • Fíknivakar.
 • Streita og neikvæðar tilfinningar.
 • Tveir fyrri fallferlarnir geta verið mjög stuttir hjá þeim sem eru á fyrstu batastigum en streita og neikvæðar tilfinningar geta valdið langri fallþróun. Í lok slíkrar fallþróunar geta fíknivakar orðið virkir að nýju.

Í fallvörninni er sjúklingum kennt að fást við fíkn, fíknivaka og forðast hættulegar aðstæður. Þeim er einnig kennt að ráða við streitu og neikvæðar tilfinningar.

Skilyrðing veldur fíkn sem sjúklingar eiga erfitt með að ráða við vegna líffræðilegra breytinga sem orðið hafa á heilanum. Með tímanum og með því að útsetja sig fyrir fíknivaka geta sjúklingarnir hætt að finna til fíknar og lært ný viðbrögð við fíknivökum (afskilyrðing).

Sjálfsvirðing

Sjálfsvirðingarhugtakið sem notað er í meðferðinni hjá SÁÁ, kemur upphaflega úr bók William Glassers, Reality Therapy og kom til SÁÁ frá Freeport sjúkrahúsinu og Joseph Pirro. Sjúklingur getur haft mikil áhrif á matið á sjálfum sér með því að breyta hegðun sinni og hafa hana í samræmi við sitt siðferðismat, „vera ábyrgur“. Áhrifaríkast er að vera nærgætinn og góður við ástvini sína og samferðarmenn.  Sjálfsvirðingin er síbreytileg og hægt er að bæta hana á skömmum tíma.

Meðferðarsamband

Í meðferðarsambandinu kemur áfengis- og vímuefnaráðgjafinn fram sem þroskaður og heill einstaklingur og reynir ekki að dylja persónueinkenni sín. Grundvöllur sambandsins er traust sem ráðgjafinn vinnur sér hjá sjúklingnum án þess að nota til þess vald eða stöðu. Í þessu sambandi sem einkennist af vinsemd, lærir sjúklingurinn nýjan hugsunarhátt, framkomu og viðhorf.

Dagsáætlun

Dagsáætlun er alhliða daglegt skipulag sem sjúklingur fer eftir til að ná andlegu og líkamlegu jafnvægi og forðast föll. Áætlunin tekur til margra þátta eins og svefns, hreinlætis, streitulosunar, hreyfingar, mataræðis og geðræktar.

Hugræn atferlismeðferð

Hugræn atferlismeðferð SÁÁ er fólgin í að kenna sjúklingum markvisst og á skipulagðan hátt að breyta viðhorfum sínum, hugsunarhætti og hegðun og hafa með því góð áhrif á líðan sína. Slík meðferð eflir innsýn sjúklinga í sjálfan sig og getu sína.

 • Með því að breyta hegðun fæst betri líðan og sjálfsvirðing (Glasser).
 • Með því að breyta viðhorfum t.d. til sjálfs sín og sjúkdómsins og vinna á óraunhæfum viðhorfum (Ellis) fæst betri líðan.
 • Með því að hafa áhrif á hugsunarhátt eða hugsunarvenjur fæst betri líðan.
 • Með hugrænni atferlismeðferð er sjúklingum kennt að fást við neikvæðar tilfinningar.

Lyfjameðferð við áfengis- og vímuefnasjúkdómnum

Áfengis- og vímuefnameðferð SÁÁ miðar að því að sjúklingar noti ekki lyf sem jafnframt eru vímuefni að meðferð lokinni, sé hægt að koma því við („lyfjalaus bati“).

SÁÁ telur nauðsynlegt að veita sjúklingum sem hafa greinda geðsjúkdóma geðlyfjameðferð og sjá læknar samtakanna til þess.

SÁÁ telur lífsnauðsynlegt að veita greindum ópíóíðasjúklingum sem nota vímuefni í æð, viðhaldsmeðferð með buprenorphine eða methadone að meðferð lokinni, sé hægt að koma því við.

Áfengis- og vímuefnameðferð SÁÁ styður sjúklinga í að hætta að nota tóbak meðan á meðferðinni stendur og mælir eindregið með lyfjameðferð sem læknar samtakanna sjá um.

Fjölskyldusjúkdómur áfengis- og vímuefnafíknar

Það reynir mikið á alla sem búa náið með áfengis- og vímuefnasjúklingi og samskiptin í fjölskyldunni verða óeðlileg. Fjölskyldan í heild tekur breytingum smám saman og óeðlilegar samskiptavenjur koma í veg fyrir eðlileg samskipti. Einstaklingarnir í fjölskyldunni lifa í mikilli streitu sem getur með tímanum myndað sjúklega fastmótaðan hugsunarhátt, viðhorf og hegðun og gert suma einstaklinga fjölskyldunnar beinlínis veika. Allir í fjölskyldunni þurfa því fræðslu um þetta og sjúkdóm áfengis- og vímuefnafíknar og sumir þurfa virka meðferð við meðvirkni.

Sjá Ársritið í heild: 1. hefti hér. 2. hefti, talnaefni hér.