Gríðarlega mikilvæg fjáröflun fyrir SÁÁ

Þessa dagana stendur SÁÁ fyrir átaki sem gengur út á að hvetja fólk til að gerast meðlimir í SÁÁ-fjölskyldunni.  Með því getur fólk styrkt SÁÁ um ákveðna upphæð, 500, 1000 eða 1500 krónur, í hverjum mánuði, og verður þá að fullgildum félögum í SÁÁ.

Átakið er unnið í samstarfi við Miðlun hefur gengið vonum framar, að sögn Rúnars Freys Gíslasonar framkvæmdarstjóra félagaskrár SÁÁ.

„Við finnum fyrir mikilli velvild í garð samtakanna.  Þetta er gríðarlega mikilvæg fjáröflun fyrir okkur og það er frábært hve margir vilja styðja samtökin með þessum hætti“, segir Rúnar Freyr. Frá því átakið hófst í desember hafa nokkur hundruð manns bæst í hóp hinna fjölmörgu félaga í SÁÁ.

„Ég vil hvetja fólk til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og halda áfram að taka vel á móti símtölum frá fólkinu sem hringir út fyrir okkur. Mánaðarlegir styrkir félaga okkar eru, ásamt hinni árlegu álfasölu SÁÁ, okkar stærsta fjáröflunarleið,“ segir Rúnar og bætir við að samtökin þurfi svo sannarlega á hverri krónu að halda.

„Ríkisvaldið greiðir SÁÁ einungis fyrir 1530 innlagnir á Vog á hverju ári, þó þær séu auðvitað mun fleiri, eða um 2000.  Það segir sig sjálft að afganginn þarf SÁÁ að greiða með öðrum leiðum.  Eins er ýmis önnur þjónusta sem SÁÁ fjármagnar að nær öllu leyti úr eigin vasa, og ber þá helst að nefna fjölskyldudeild SÁÁ og sálfræðiþjónustu barna.  Styrktarfélagasöfnunin nú er því afar þýðingarmikil.“

Þeir sem vilja gerast félagar í SÁÁ strax geta skráð sig hér.