Guðni Th. gestur Heiðursmanna á fimmtudag

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og frambjóðandi til embættis forseta Íslands verður gestur á næsta fundi Heiðursmanna sem fram fer fimmtudaginn 19. maí.

maxresdefaultEins og kunnugt er verður gengið til forsetakosninga þann 30. júní næstkomandi. Skoðanakönnunum ber saman um að Guðni Th. Jóhannesson njóti nú yfirburðastuðnings kjósenda. Því verður fróðlegt fyrir Heiðursmenn og þeirra gesti á fá að kynnast Guðna. Guðni er dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur starfað sem kennari við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og University of London. Hann hefur skrifað fjölda sagnfræðirita, meðal annars um sögu þorskastríðanna og forsetaembættið. Þá hefur Guðni skrifað fjölda bóka og fræðigreina um sögu Íslands og samtíð. Má þar nefna ævisögu Gunnars Thoroddsen og bókina Óvinir ríkisins en þær voru báðar tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þá skrifaði Guðni bókina Völundarhús valdsins um embættistíð Kristjáns Eldjárns og metsöluritið Hrunið.

Að venju hefst fundurinn klukkan 12 og stendur í um klukkustund. Á fundum Heiðursmanna er í boði léttur hádegisverður gegn vægu gjaldi, góður félagsskapur og fræðandi umræður.

Fundir Heiðursmanna eru haldnir annan hvern fimmtudag í Von, húsi SÁÁ, Efstaleiti 7. Þeir sem hafa áhuga á starfi Heiðursmanna geta sent póst á netfangið heidursmenn@saa.is eða hringt í SÁÁ í síma 530 7600.