Hefðbundinn dagur á Vogi

Hér á eftir fer lýsing á venjulegum degi á Vogi. Athugið að ekki er um raunverulega sjúklinga að ræða heldur eru persónur tilbúningur höfundar.

Innlagnir á sjúkrahúsið Vog eru 6-7 á dag, alla daga ársins. Batinn kemur í áföngum, verkefnin eru misjöfn og hver og einn skiptir máli. 

Fyrsta innlögn dagsins er ungur maður, sendur á Vog frá LSH. Hann var þar í þriðja sinn vegna ofskömmtunar í vímuefnaneyslu, var ekki talinn í sjálfsvígshættu, en tekinn fyrr inn af biðlista í flýtiinnlögn á sjúkrahúsið Vog vegna þessarar alvarlegu stöðu. Ungi maðurinn kemur beint af spítalanum, ástand hans þolir enga bið. Það verður að reyna það sem hægt er til að stoppa hann af í neyslunni svo hann sjái leið út úr stöðu sinni og vilji aftur til síns fólks. Ungi maðurinn fer beint í rúm, afeitrun hefst, hann sofnar og reynt er að hlúa vel að honum. Hann sprautar í æð og verður því skimaður fyrir lifrarbólgu C og HIV. Um kvöldið vaknar hann órólegur, með mikla fíkn og rýkur út. Vinur kemur að sækja hann. Ungi maðurinn ætlar áfram í neyslu, hann tekur engu tali eða gylliboðum og tryllingurinn er mikill. Við vonum að hann komi fljótt aftur – að hann lifi af þessa hættuför sem hann er í.

Önnur innlögn er maður um fimmtugt, kallaður inn af biðlista eftir 100 daga bið. Hann kemur að heiman, er í dagdrykkju, var með vinnu og gat unnið lengst af en drakk á kvöldin. Maðurinn hefur ekki unnið núna í 6 vikur. Hann veit ekki hvort hann haldi vinnunni, hann hefur ekki haft kjark til að hringja í vinnuveitandann. Skömmin er mikil. Maðurinn er illa haldinn af líkamlegum fráhvörfum, þrátt fyrir að hafa fengið sér tvo bjóra um morguninn skjálfa varir og hendur og lófar eru sveittir. Maðurinn fær strax fráhvarfslyf og vítamínsprautu til að hindra frekari líkamlegan skaða sem þetta ástand veldur. Lifrin reynist bólgin vegna áfengisdrykkjunnar og matarlystin er ekki góð, líklega er hann jafnframt með magabólgur. Sonur keyrði manninn á Vog, hann vill honum vel en á erfitt með að leyna þreytu og vonbrigðum.

Þriðja innlögnin er kona í góðri stöðu með vanda af drykkju og örvandi lyfjum. Konan fékk tiltal í vinnu vegna áfengislyktar og hefur stundum vantað í vinnu og þá komið með eftirá skýringar. Grunur er um meiri vanda. Konan hefur hugsað málið vandlega og leitað sér upplýsinga. Hún hefur gert tilraunir til að drekka minna, að sleppa a.m.k. örvandi efnunum en það hefur ekki gengið nógu vel. Hún þekkir fólk í bata, er fegin tækifærinu og ætlar að nýta sér það sem hún getur í meðferð. Konan þarf ekki afeitrun, er hraust, og fer beint í dagskrá, fyrirlestra og hópmeðferð.

Fjórða innlögnin er kona, heilbrigðisstarfsmaður, sem hefur þurft mikið af lyfjum vegna vanda af kvíða, þunglyndi og verkja. Lyfin hafa þó ekki dugað til og hún er komin í vanda með þau. Þetta eru sem sagt ávanabindandi lyf sem konan hefur nú talsvert þol fyrir og á erfitt með að vera án. Hún hefur reynt að minnka lyfin en þá verður hún veik. Læknirinn segist kominn í vandræði með hana og þessa háu skammta, og féllst hún á að koma á Vog og fá aðstoð við afeitrun eða a.m.k. við að reyna að minnka lyfjaskammtinn. Konan kemur inn undir talsverðum áhrifum og er kvíðin fyrir nóttinni, að hún sofi ekki. Hún þarf langan tíma í afeitrun og sálfélagslega meðferð vegna þessa vanda. Hér verður tekið eitt skref í einu.

Fimmta innlögn er 19 ára drengur í kannabisneyslu sem býr í foreldrahúsum og er ekki mjög félagslyndur. Hann hefur einangrað sig undanfarið ár, er hættur í skólanum og hefur ekki haldið vinnu. Drengurinn vill lítið sinna áhyggjum foreldra sinna og fara til læknis, en hafði farið í tíma hjá sálfræðingi vegna þunglyndis. Sálfræðingurinn talaði um kannabisreykingarnar og taldi það góða byrjun að hætta þeim svo þeir gætu unnið saman. Drengurinn átti erfitt með að halda sig frá reykingunum og samþykkti að koma á Vog. Hann kýs að fara á ungmennadeild sem er minni og færra fólk, hann þarf líklega lyf vegna fráhvarfa þegar líður á daginn, s.s. svefntruflana, kvíða eða óróleika.

Sjötta innlögn er kona um sjötugt, sem maki hefur hugsað um, hún er farin að tapa minni, á sögu um endurtekin föll og nýlegt úlnliðsbrot. Konan kennir klaufaskap um og vill sem minnst tala um áfengisdrykkjuna sem þó eru helstu áhyggjur fjölskyldunnar og læknis hennar. Hún þarf gát og meta þarf fráhvörf og líkamlega heilsu næstu daga. Tími frá áfengi leiðir í ljós hvort undirliggjandi vitræn skerðing er til staðar.

Sjöunda innlögnin er maður í mikilli vinnu sem hefur keyrt sig áfram á örvandi vímuefnum undanfarna mánuði, hann hefur lengi vitað af vanda með áfengi og oft tekið túra. Í neyslu leggur hann stundum undir fjárhættuspil á netinu. Nú hefur hann gengið fram af sér og sínum, óvíst er með stöðu hans heima og hann kominn í nokkra skuld. Maðurinn villl gera allt sem hægt er til að hætta. Hann kemur ódrukkinn inn, kvíðinn en ákveðinn í að taka málið að sér.

Næsta dag koma aðrir sjö á sjúkrahúsið Vog. Þeir eru með annan vanda og aðra viðkynningu, kvíðnir, áræðnir, tilbúnir, ósáttir. Daginn þar á eftir koma síðan næstu sjö, og svo framvegis, og svo framvegis. Allir þurfa að taka ábyrgð á sínum sjúkdómi – og láta hinum eftir sína ábyrgð. Verkefnið er ærið.

Meðaldvöl á Vogi er 10 dagar. Fylgst er náið með framförum hvers og eins, hjúkrun er mikil í upphafi til að greina og meta fráhvarfsmeðferð og heilsu, læknar tala við sjúklinga daglega, og um leið og einstaklingur hefur getu til tekur hann þátt í sálfélagslegu meðferðinni. Það þarf næði og umhverfi til að geta tekið ákvörðun fyrir sig, læra um fíknsjúkdóminn, hvernig hann þróast og kemur fram. Hver og einn sækir um 29 fræðsluerindi, stundar 8 hópmeðferðir, vinnur sérverkefni, og fær a.m.k. 8 einstaklingsviðtöl til undirbúnings fyrir endurhæfingu og virkni í lífi og starfi. Samtal og samvinna er um næsta skref og þá er mikilvægt að hafa val. Allt kapp er lagt á að fólki líði vel meðan hugað er að heilsu þess og framtíð.

Ef þú eða einhver sem þér þykir vænt um þarf aðstoð vegna áfengis- eða vímuefnavanda hafðu þá samband. Það eru allir velkomnir til SÁÁ.

Valgerður Rúnarsdóttir,
framkvæmdastjóri lækninga SÁÁ