Heilasjúkdómurinn fíkn

Bjarni Sigurðsson. Höfundur er í framkvæmdastjórn SÁÁ, lyfjafræðingur og doktor í líf- og læknavísindum.

Heilinn er án efa flóknasta líffæri líkamans og hefur lengst af reynst erfitt að rannsaka starfsemi hans. Því hefur mest af okkar þekkingu á heilanum byggst hingað til á reynslu mannsins af hegðun og svo flokkun þar á og tilraunum til að breyta hegðan og líðan með ýmsum aðferðum félags- og læknavísinda. Á undarförnum árum hefur ný myndgreiningartækni sem og erfðafræði rutt sér til rúms og fært okkur sanninn um að fíkn, sem samheiti yfir lyfjafíkn, vímuefnafíkn og áfengisfíkn, er heilasjúkdómur. Hér á eftir verður gerð tilraun til að nefna nokkur atriði þessu tengt á leikmannamáli og því nokkur einföldun notuð.

Fyrst má spyrja sig að því hvað hvetur einstaklinga til að nota hugbreytandi efni. Fikt, forvitni og félagslegur þrýstingur eru sjálfsagt algengustu ástæðurnar fyrir því að einstaklingurinn prófar vímugjafa í fyrsta sinn en meginástæðum fyrir reglubundinni notkun hefur stundum verið skipt upp í tvo flokka. Jákvæð upplifun af notkuninni sem styrkir hegðunina drifin áfram af mikilli losun á dópamíni í vellíðunarstöðunum í heila. Dópamín er jú boðefni sem losnar við hegðun sem er líkleg til að styrkja afkomulíkur tegundarinnar svo sem við að borða fitu- eða sykurríkan mat og æxlun. Losun dópamíns eykur vellíðan, veitir slökun, slær á kvíða og styrkir böndin milli einstaklinga. Hinn hvatinn fyrir vímuefnaneyslu er til að losna við óæskilega líðan svo sem streitu og kvíða. Fyrir utan dópamínlosun þá dregur áfengi og önnur kvíðastillandi lyf úr losun á streituhormóninu kortisól meðan mikil og/eða langvarandi notkun eykur kortisól. Oft er talað um að dópamíndrifna vímuefnanotkunin sé algengari meðal yngri einstaklinga meðan tilhneigingin til að draga úr streitu og kvíða aukist með aldri, en allt er þetta afstætt með tilliti til magns og tímalengdar notkunar.

En hvenær er notkun hugbreytandi efna orðin ávani eða fíkn og hvað getur talist eðlileg notkun? Ein af skilgreiningunum er hversu hamlandi notkun vímuefnanna er. Er hún farin að trufla daglegt líf einstaklingsins eða jafnvel breyta forgangsröðun hans? Er hún farin að hafa áhrif á heilsu einstaklingsins? Lýðheilsustofnanir hafa gefið út áhættuviðmið fyrir áfengisnotkun, t.d. að lágmarksáhætta (minna en 2%) sé á að mynda áfengisfíkn fyrir þær konur sem neyta þriggja drykkja eða minna á einum degi og ekki meira en sjö drykkja á viku. Fyrir karla séu þetta ekki meira en 4 drykkir á einum degi og ekki meira en 14 drykkir á viku. Einn drykkur er vínglas, bjór eða einfaldur sterkur drykkur. Talið er að öll neysla áfengis sé skaðleg en sé meira neytt en 14 drykkja á viku (2 léttvínsflöskur) fyrir hvort kyn sem er aukast líkur verulega á krabbameinum (munn-, vélinda-, maga-, lifrar- og brjóstakrabba), skorpulifur, hjartasjúkdómum, þunglyndi, heilablóðfalli, brisbólgu og lifrarsjúkdómum svo fátt eitt sé talið. Til viðmiðunar þá er geta lifrarinnar til áfengisútskilnaðar u.þ.b. einn drykkur á klukkustund að jafnaði.

Smelltu á myndina til að sjá hana í fullri stærð.

En öll skaðleg notkun er ekki endilega orðin fíknsjúkdómur. Sem dæmi má nefna að í evrópskri rannsókn þá gátu 20% þeirra sem töldu sig þurfa aðstoð til að draga úr drykkju náð árangri með því að fá ráðgjöf og halda bókhald yfir sína neyslu án frekari íhlutunar. Í Bretlandi telja menn að tæpar 11 milljónir noti áfengi sér til heilsuskaða og að u.þ.b. 15% (1,6 milljónir) þeirra séu háðir áfengi. Oft kemur ekki í ljós hvort um ávana eða fíkn er að ræða fyrr en einstaklingurinn reynir að draga úr neyslunni eða hætta alveg. Áhættuþættir fyrir fíkn er meðal annars ungur aldur, erfðir, magn og fjöldi skipta sem neytt er. Þegar um fíknsjúkdóm er að ræða þá hafa orðið breytingar á heilastarfsemi sem gera einstaklingnum illmögulegt eða ómögulegt að taka upplýsta ákvörðun og er hann þá í raun orðinn fangi í eigin heila og líkama. Sýnt hefur verið fram á að í heila með fíkn þá hefur dópamínviðtökum fækkað og þar af leiðandi er minni dópamínstarfsemi, sem getur meðal annars leitt til lækkaðs geðslags. Einnig hafa myndgreiningarniðstöður sýnt fram á skerta starfsemi í framheila þar sem úrvinnsla upplýsinga og ákvarðanataka fer fram. Jafnframt stækkar möndlukjarninn sem miðlar umhverfisskynjun (hætta, svipbrigði, lykt, hljóð) og verður í raun ofvirkur ásamt því sem truflun verður á starfsemi drekasvæðisins sem sér um minnistengingarnar. Einstaklingurinn er því í raun orðinn fangi hvatakerfisins og þar með búinn að missa stjórn. Einkenni eins og lækkað geðslag, önuglyndi, hvatvísi, minnistruflanir, streita og kvíði eru orðin ríkjandi á fyrri stigum sjúkdómsins og mikil þráhyggja á seinni stigum. Á sama tíma hefur neyslan breyst frá því að vera jákvæð upplifun í það að vera nauðsynleg til að losna við neikvæðar tilfinningar. Þennan vítahring getur reynst erfitt að rjúfa og undir hælinn lagt að einstaklingurinn taki það upp hjá sjálfum sér enda heili hans ófær um að meta aðstæður og innsæi mjög skert. Yfirleitt bregst einstaklingurinn ekki við ástandinu nema verulegar breytingar verði á lífi hans eða ótti við fyrirsjáanlegar breytingar.

Takist einstaklingi hins vegar að komast í meðferð eða að hætta neyslu er mikil hætta á bakslagi fyrst á eftir. Vísbendingar í rannsóknum benda til að verðlaunakjarnarnir í heilanum fari á fullt í allt að þrjár vikur við sjónrænt áreiti sem er áfengistengt og komi þar með fíkn af stað. Streita virðist jafnframt auka líkurnar á fíkn og bakslagi. Þetta getur skýrt af hverju inniliggjandi meðferð og eftirmeðferð (5-6 vikur) eykur batalíkur verulega og hvers vegna dagdeildarmeðferð er tvíbent og oft gagnslaus í afeitrun. Með inniliggjandi meðferð er hægt að draga verulega úr streitu og áreiti samhliða því sem hægt er að beita atferlismótandi meðferð til að ná stjórn á streituvaldandi hegðun og auka vellíðan einstaklingsins. Það er athyglisvert að sambærilegar rannsóknir á heilabreytingum í þunglyndi og kvíða benda til breytinga á mörgum af sömu heilastöðvum, sérstaklega ef ástandið hefur varað tvö ár eða lengur. Rannsóknir benda jafnframt til að slíkar breytingar taki mánuði eða ár að ganga til baka en þá verður líka að ná stjórn á streitunni. Að framansögðu má því ljóst vera að einstaklingur sem þjáist af fíkn og/eða kvíða og þunglyndi upplifir uppákomur tilverunnar og áföll með töluvert sterkari hætti en aðrir og á jafnframt erfitt með að vinna úr slíku vegna breyttrar heilastarfsemi. Það er líka ljóst að meðan fíknivandi er til staðar verður ekki unnið úr áföllum tilverunnar. Jafnvel þó einstaklingur sé kominn í bata geta liðið margir mánuðir áður en framheilastarfsemi er næg til að leyfa úrvinnslu slíks vanda.

Bjarni Sigurðsson
Höfundur er í framkvæmdastjórn SÁÁ, lyfjafræðingur og doktor í líf- og læknavísindum

Doktorsritgerð Bjarna Sigurðssonar

Höfundur greinar