Heilbrigðisráðherra Grænlands heimsækir SÁÁ

Heilbrigðisráðherra Grænlands, Agathe Fontain, heimsótti SÁÁ í dag ásamt aðstoðarmanni sínum, ráðuneytisstjóra og framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins. Ráðherrann er hér á landi til að kynna sér forvarnir og óskaði sérstaklega eftir að fá kynningu á starfsemi SÁÁ.

Í heimsókninni var rætt um margar hliðar áfengis- og vímuefnavandans, svo sem samfélagslega sýn, meðferð við fíknsjúkdómi og þróun meðferðar hjá SÁÁ með mismunandi úrræðum og væntingum. Talsvert var rætt um  fíkn sem heilbrigðisvanda, sem þarf nálgun eins og aðrir langvinnir sjúkdómar, með forvörnum, meðferðum og líkn/skaðaminnkun. Einnig var rætt um aðra samhliða sjúkdóma sem og þann félagslega vanda sem jafnan fylgir fíknsjúkdóminum og afar mikilvægt er að sinna. Augljóst var að gestirnir höfðu áhuga á frekara samtali sem bíður betri tíma, enda nýfarnir af stað með meðferð í sínu landi.

Á myndinni eru: Inga Dora Markussen, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, Tine Pars, ráðuneytisstjóri, Ásgerður Björnsdóttir, framkvæmdastjóri SÁÁ, Agathe Fontain, heilbrigðisráðherra Grænlands, Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins Vogs og Þóra Björnsdóttir hjúkrunarforstjóri.