Karlameðferð

Karlameðferð

Meðferð fyrir karla hefst á sjúkrahúsinu Vogi
karlamedferd

Allir karlar fara í

0
fyrirlestra
0
hópmeðferðir
0
verkefnatíma
0
ráðgjafaviðtöl

Meðferðin hefst á Vogi

Á sjúkrahúsinu Vogi fá sjúklingar afeitrun og greiningu. Fráhvarfsmeðferð er veitt af læknum og hjúkrunarfræðingum. Sálfélagsleg meðferð hefst samhliða fráhvarfsmeðferð og miðar að bata án vímuefna. Sálfélagslega meðferðin er fólgin í fræðslu um fíknsjúkdóminn, hópmeðferð til að styðja við innsæi, og sérsniðnum verkefnum sem treysta grunninn að breyttum lífsstíl. Meðaldvöl á Vogi er 10 dagar. Á þeim tíma er sjúklingur undirbúinn fyrir næstu skref í endurhæfingu og virkni í lífi og starfi.

Eftirmeðferð á Vík

Meðferð á Vík tekur við eftir að afeitrun á Vogi er lokið og lágmarksjafnvægi er náð. Þar er boðið upp á sérhæfð meðferðarúrræði, hvert þeirra er í 28 daga og felur í sér fyrirlestra, hópmeðferðir, verkefnatíma og einstaklingsviðtöl. Meðferðarúrræðin fara fram í tveimur aðskildum byggingum, allir eru í einstaklingsherbergi og meðferðin er algjörlega kynjaskipt. Í öllum úrræðum er áhersla lögð á dagskipulag með hreyfingu, reglu í matmálstímum og svefni, samveru og stuðningi. Þar er unnið eftir áfallamiðaðri nálgun og stuðst við verkefnabækur. Á Vík gefst tími og næði til að kenna leiðir til að fást við fíkn, bæta úrlausnargetu, og stuðla að betri félagslegum samskiptum. Fræðsla (psychosocial education), hópmeðferð, og jafningja-verkefnavinna eru gagnreyndar leiðir til að stuðla að breytingum. Þar er sólarhringsvakt og kemur heilbrigðisstarfsfólk SÁÁ að meðferðinni í þverfaglegu teymi; læknar, sálfræðingar og áfengis- og vímuefnaráðgjafar, sem bera uppi meðferðina frá degi til dags.

Fyrir menn yngri en 55 ára

Karlameðferð er fyrir menn yngri en 55 ára sem ekki hafa farið áður í meðferð. Endurhæfingin miðar að því að þjálfa færni til að tileinka sér edrú líf, og er í fyrstu lögð áhersla á að styðja við grunnþarfir hvers og eins og byggja upp færni til að fast við fíkn (fíknispjörun). Þegar lengra er náð er áhersla lögð á að skoða einstaklingshæfðar bakslagsvarnir (relapse prevention).

Meðferð fyrir endurkomumenn

Meðferðin (Víkingameðferð) er fyrir þá menn sem eiga meðferðir að baki og þekkja jafnvel bata og aðdraganda bakslags í neyslu. Meðferðinni er m.a. beint að bakslagsvörnum, fíknispjörun og einstaklingshæfðri áætlun fyrir lengri bata.

Meðferð fyrir eldri karla

Meðferð fyrir eldri karla er fyrir menn 55 ára og eldri. Þeir eiga margt sameiginlegt og áhersla er m.a. á að vinna gegn einangrun, taka á ýmsum undirliggjandi heilsufarsvanda og huga að félagslegum tengslum.

Göngudeildarmeðferð

Þeir sem búsettir eru á Reykjavíkursvæðinu, eru eldri en 25 ára og búa við nógu góðar félagslegar aðstæður og líkamlega heilsu eiga kost á göngudeildarmeðferð í Reykjavík fjóra daga vikunnar fyrstu fjórar vikurnar en síðan einu sinni í viku næstu þrjá mánuðina.

Eftirfylgni og stuðningur

Að lokinni meðferð á sjúkrahúsinu Vogi og/eða inniliggjandi eftirmeðferð á Vík er boðið upp á áframhaldandi meðferð á göngudeildum SÁÁ í 12 mánuði. Mismunandi hópar fá mismunandi úrræði.

ERTU TILBÚIN(N)

að leita þér aðstoðar?