Höfuðáhersla á að spilla ekki góðum árangri

Útgangspunkturinn í væntanlegri skýrslu nefndar, sem heilbrigðisráðherra skipaði í samræmi við ályktun Alþingis á síðasta ári til þess að fjalla um endurskoðun fíkniefnastefnunnar, verður sá að spilla ekki þeim góða árangri sem náðst hefur hér á landi varðandi það að draga úr skaðlegum afleiðingum áfengis- og vímuefna.

Þetta kom fram í máli Borgars Þórs Einarssonar, héraðsdómslögmanns og formanns nefndarinnar, sem stundum hefur verið kölluð skaðaminnkunarnefndin, í pallborðsumræðum á málþingi sem FRÆ – félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu hélt um kannabis á Grand Hótel mánudaginn 1. maí. Borgar Þór greindi ennfremur frá því að nefndin stefndi að því að skila skýrslu sinni fyrir lok sumars.

„Umræðan um kannabis er fyrirferðamikil í samfélaginu og því tímabært fyrir okkur að kynnast því sem máli skiptir þegar rætt er um kannabisneyslu, afglæðavæðingu og lögleyfingu. Á málþinginu koma fram fyrirlesarar frá SÁÁ, Bráðageðdeild Landspítalans, dósent í sálfræði og prófessorar í félags- og afbrotafræði frá Háskóla Íslands auk verkefnisstjóra frá Embætti Landlæknis,“ sögðu fundarboðendur.

Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Þórarinn Tyrfingsson, forstöðulæknir SÁÁ, Halldóra Jónsdóttir, geðlæknir á bráðageðdeild 32c á Landspítala, Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent í sálfræði við Háskólann í Reykjavík, Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, Þórólfur Þórlindsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, og Sveinbjörn Kristjánsson, sálfræðingur og verkefnisstjóri hjá embætti landlæknis.

Húsfyllir var á málþinginu og voru erindin fróðleg og efnismikil enda fyrirlesarar fagfólk og sérfræðingar í fremstu röð um helstu svið sem málinu tengjast. Í erindunum var meðal annars fjallað um áhrif kannabis á mannslíkamann og geðheilsu, umfang heilbrigðisvanda vegna kannabisneyslu hér á landi og þróun kannabisfíknar, meint gildi kannabisefna til lækninga og sem lyf og ennfremur ýmis álitamál um stefnumótun varðandi lögleiðingu og afglæpavæðingu fíkniefna almennt og kannabisefna sérstaklega; ennfremur einstæðan árangur forvarnarstarfs á Íslandi og  fjölmargt annað sem snýr að áhrifum kannabisefna á mannlegt samfélag.

Ekki er líklegt að nokkur maður hafi farið af þessu málþingi eftir að hafa meðtekið boðskap fyrirlesaranna  hlynntari því en áður en hann kom að Íslendingar taki sig út úr hópi annarra þjóða og afglæpavæði kannabisefni. Hins vegar virtist einhugur um að hætta eigi að ganga harðar fram gegn kannabis- og vímuefnaneytendum en öðrum hvað varðar skráningu sekta vegna smávægilegra neysluskammta á sakaskrá. Slík skráning dregur með óréttmætum hætti úr möguleikum fólks til náms og starfa.

Að sögn Árna Einarssonar, framkvæmdastjóra FRÆ, verða erindin birt á vef á næstu dögum og munu upptökur frá ráðstefnunni birtast hér á saa.is í framhaldi.

Dagskrá málþingsins má sjá hér að neðan:

http://www.heimiliogskoli.is/wp-content/uploads/2015/05/M%C3%A1l%C3%BEing-um-kannabis-dagskr%C3%A1.pdf