Hrædd við okkar innsta eðli

„Fíknisjúkdómar er mjög alvarlegt vandamál í okkar samfélagi sem við höfum vanmetið. Þeir eru mjög arfgengir og ganga mann fram af manni í sumum fjölskyldum,“ segir Kári Stefánsson læknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Á mánudaginn, hinn 9. mars, stendur Íslensk erfðagreining í samstarfi við SÁÁ fyrir opnum fræðslufundi um fíkn og erfðir fíknar. Þar mun Kári fjalla um rannsóknir á erfðum fíknar sem Íslensk erfðagreining hefur stundað síðastliðin 15 ár ásamt SÁÁ, Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann.

Árið 2005 hlaut rannsóknin styrk frá Evrópusambandinu upp á 330 milljónir króna til rannsókna á erfðafræði áfengissýki og fíknar.

Rannsóknirnar hafa gengið vel og hafa niðurstöður birst í fjölda vísindatímarita. Í rannsókninni hefur erfðafræðin verið notuð til að finna út hvernig heilinn virkar og hvernig hann tengist fíkninni. Fundist hafa stökkbreytingar í erfðamengi mannsins sem hafa t.d. áhrif á tóbaksfíkn og alkóhólisma. Þessi breytileiki hefur áhrif á þá sjúkdóma sem tengjast fíkninni t.d. krabbamein í lifur og brisi og fleiri.

„Lengi framan af litu menn á þetta fíknivandamál sem ljóð á ráði fólks frekar en sjúkdóm. Nú vitum við að fíknisjúkdómar eru sjúkdómar í heila sem við ráðum ekki við, ekki frekar en aðra sjúkdóma í öðrum líffærum,“ segir Kári.

Fíknin flókið fyrirbæri

Í stuttu máli má segja að fíknin sé flókin. Hún er flókin því hún á rætur sínar í grundvallarstarfsemi heilans sem er manninum nauðsynleg.

„Það er full ástæða til að ætla að öll fíkn sé af sama toga. Hún á rætur sínar í því að þegar þú ánetjast einhverju, hvort sem það er alkóhól, nikótín eða amfetamín, þá truflar það ákveðið boðferli í heila. Grundvallarstilling í heilanum breytist og til þess að vera eðlilegur þá þarftu að neyta þess sem þú ert háður. Í upphafi neytir þú þess vegna þess að það býr til ánægju en mjög fljótlega býr það ekki lengur til ánægju heldur finnst þér þú ekki vera venjuleg manneskja nema þú neytir þess.“

Hvert er samspil erfða og umhverfis?

„Allt í okkar lífi er samspil erfða og umhverfis. Hvernig umhverfið hefur áhrif á okkur erfist. Það eru engin hrein umhverfisáhrif og það er mjög lítið um hrein erfðaáhrif,“ segir Kári og tekur dæmi um einstakling sem reykir. Sá sem elst upp við foreldri sem reykir erfir tilhneigingu til að leita í slíkt umhverfi. Umhverfisáhrifin eru því ekki óháð erfðunum.

Hver eru tengsl fíknar við kvíða og þunglyndi?

„Það er ekki nema von þú spyrjir. Hversu oft eru menn að meðhöndla kvíðann og þunglyndið með fíkninni? Ég er ekki í nokkrum vafa um að einhver hluti þeirra endar með fíknisjúkdóm sem byrjar af því að þeir meðhöndla eitthvað annað.“

„Stóra vandamálið er að við skiljum heilann svo illa og fíknin er heilasjúkdómur. Það má leiða að því rök að við séum ekkert annað en heilinn okkar. Við sem dýrategund skilgreinumst af hugsunum og tilfinningum. Samt höfum við ekki hugmynd um hvernig heilinn býr til hugsun og tilfinningar,“ segir Kári.

Heilinn er það líffæri sem stjórnar hegðun okkar. Þegar honum gengur illa að stjórna hegðun og einstaklingurinn heldur áfram að neyta lyfja sem vega að heilsunni þá fúngerar heilinn ekki vel.

Kári segir að til þess að komast lengra í rannsóknum þurfi að rannsaka heilann betur. Hann segir erfitt að setja saman skynsamlega tilraun til að rannsaka óeðlilega fúnksjón líffæris þegar við skiljum ekki normal fúnksjón nema að mjög takmörkuðu leyti.

Áfengisfrumvarpið er miskunnarlaust

Það kemur ekki á óvart að eftir spjall um fíkn og erfðir fíknar beinir Kári talinu að áfengisfrumvarpinu sem bíður nú annarrar umræðu á Alþingi. Það kemur líklega ekki á óvart að hann er alfarið á móti því.

„Í frumvarpinu reyna alþingismenn að halda því fram að alkóhól sé ekki hættulegt, ekki miðað við skotvopn, eiturefni og tóbak. 12,5% þjóðarinnar býr við verri hag en ella vegna alkóhóls, eru alkóhólistar eða skyldmenni þeirra. Þá á sama tíma og öllum er þetta ljóst þá leggur hópur þingmanna til að við seljum alkóhól í matvörubúð, vitandi það að löngunin í alkóhól tengist oft lönguninni í mat. Alkóhólistinn sem hefur tilhneigingu til að falla þarf ekki annað en að rétta út höndina til að ná í brennivín þegar hann verslar í matinn. Þetta er allt gert til að auðvelda þeim sem vilja drekka vín með mat á kostnað angistar þeirra sem eiga erfitt með að halda sig frá því. Mér finnst þetta miskunnarlaust og mjög ljótt. Hafa þessir menn ekkert betra við sinn tíma að gera?“ spyr Kári.

Hann bendir á að það sé í raun öfugsnúið að ríkið skuli selja fólki vökva sem hefur það að markmiði að trufla starfsemi heilans en áréttar þó að það hafi ekki gefist sérstaklega vel að banna slíkt hingað til.

Hænuskref vísindanna

Kári segir vísindin hreyfast áfram hænuskref í senn. Hann er ánægður með að náðst hefur töluverður árangur í rannsóknum á erfðum fíknisjúkdóma.

„Stóra skrefið verður tekið þegar við verðum búin að kortleggja betur hvernig heilinn virkar en við erum aðeins farin að kroppa pínulítið í það með notkun á erfðafræði.“

Rannsóknarverkefnin sem unnið er nú að eru langtíma afleiðingar af fíknisjúkdómum. Skoðuð eru líffæri sem verða illa úti vegna fíknar, t.d. lifur og bris. Rakin er saga þeirra til baka og fundinn er út breytanleiki á erfðamengi mannsins. Það beinir rannsakendum í þá átt sem sýnir hvar þessi röskun hefur átt sér stað sem leiðir til aukinnar áhættu á sjúkdómnum. Bundnar eru vonir við að þekkinguna megi nýta til að setja saman nýjar aðferðir til að lækna og fyrirbyggja.

Ofangreint viðtal Þórunnar Kristjánsdóttur, blaðamanns, við Kára Stefánsson birtist í Morgunblaðinu í dag, 5. mars, 2015 í tilefni af fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar og SÁÁ um fíkn og efðir fíknar sem haldinn verður í fyrirlestrarsal Íslenskrar erfðagreiningar næstkomandi mánudag, 9. mars, klukkan 17. Húsið opnar klukkan 16.30. Auk Kára flytja þar erindi Þórarinn Tyrfingsson, forstjóri á Vogi, og Þorgeir Þorgeirsson, erfðafræðingur. Aðgangur er ókeypis og öllum heimilll meðan húsrúm leyfir.