Hundruð eru að selja Álfinn um allt land

Álfasala SÁÁ er í fullum gangi um land allt og „gengur alveg glimrandi vel,“ segir Þorkell Ragnarsson, sölustjóri.  Þetta er 27. skiptið sem Álfasalan fer fram og skipulagið er þrautreynt og það á líka við um margt sölufólkið sem hefur tekið þátt í þessu helsta fjáröflunarverkefni hvers árs með SÁÁ árum saman.

Fólk sem verður á ferðalagi um hvítasunnuhelgina getur keypt Álfinn á  helstu áningastöðum við þjóðveginn því sölustaðir eru vel mannaðir í Hveragerði, Selfossi, Borgarnesi og við aðra helstu þéttbýlisstaði.  Álfasala SÁÁ er eitt umfangsmesta fjáröflunarverkefni á vegum almannasamtaka hér á landi á hverju ári.  Hundruð karla og kvenna eru að selja Álfinn um land allt þessa daga og eru það einstaklingar en einnig fjölmargir hópar á vegum íþróttafélaga, skóla og ýmissa samtaka, sem nýta sölulaunin til að greiða fyrir ferðalög eða önnur verkefni á eigin vegum og í eigin heimabyggð.

Líkt og undanfarin ár er slagorð Álfasölunnar í ár: ‚‚Álfurinn fyrir unga fólkið‘‘. Þannig er undirstrikuð áhersla á meðferðarúrræði samtakanna fyrir ungt fólk og einnig fyrir börn og aðra aðstandendur þeirra sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða. Frá árinu 2000 hefur SÁÁ rekið unglingadeild á sjúkrahúsinu Vogi en frá því að sjúkrahúsið var byggt hafa yfir 8000 einstaklingar yngri en 25 ára lagst þar inn.  SÁÁ veitir einnig sálfræðiþjónustu fyrir börn alkóhólista. Um 1.100 börn hafa nýtt þá þjónustu sem er kostuð með tekjum af Álfinum og öðrum styrkjum. Það sama á við um viðtöl, ráðgjöf og námskeið sem samtökin veita öðrum aðstandendum.

Álfakóngur síðasta árs, Kristján Valsson, er að störfum við Krónuna á Granda og seldi aðeins fleiri Álfa fyrstu tvo dagana í ár heldur en í fyrra. Álfurinn í ár er pönkari með hanakamb og þess vegna fór Kristján í klippingu og lét setja í sig kamb með bleikum lit í tilefni Álfasölunnar. Myndina tók Spessi við Krónuna á Granda í dag þegar Kristján var á fullu að selja Álfinn  – fyrir unga fólkið.