Hvað er spilafíkn?

Falin fíkn

Margir Íslendingar spila fjárhættuspil og hafa af því gaman án þess að bera af því skaða. Aðrir eru þannig gerðir að þeir hafa ekki stjórn á spilamennsku sinni, og eru kallaðir spilafíklar. Spilafíkn er ekki einungis, „slæmur ávani“ heldur sérstakur sjúkdómur samkvæmt skilgreiningu Bandarísku geðlæknasamtakanna.

Á svipaðan hátt og fólk verður háð áfengi eða fíkniefnum verða spilafíklar haldnir óstjórnlegri löngun til að leggja undir fé í ýmis konar fjárhættuspilum.

Fjárhættuspil snúast um spennuna og hasarinn sem fylgir fjárhættuspilum er eins og að taka róandi lyf eða örvandi til að koma spilaranum í rétta stuðið og líðanina. Þessi áhrif hverfa svo aftur þegar fjárhættuspilarinn þarf að horfast í augu við raunveruleikann, tapaða peninga og tíma.

Eftir því sem stressið og álagið eykst finnst fjárhættuspilaranum að hann verði að leita sér fróunar í enn meiri spilamennsku. Afleiðingin verður stigversnandi tilfinningalegt og fjárhagslegt öngþveiti sem getur leitt til hruns bæði fjárhættuspilarans og fjölskyldu hans.

Talið er að um það bil 2 – 5 % af þeim sem leggja undir í fjárhættuspilum séu haldnir sjúklegri spilafíkn. Spilafíkn getur þjakað fólk af báðum kynjum, á öllum aldri og sama hver staða þeirra er eða fjárhagsgeta.

Spilafíkn er sjúkdómur

Bandaríska geðlæknafélagið skilgreinir spilafíkn sem áráttusjúkdóm sem getur haft svipaðar neikvæðar afleiðingar og áfengis- og vímuefnafíkn.

Spilafíkn fer ekki í manngreinarálit

Spilafíklar geta fundist alls staðar í þjóðfélaginu og skera sig ekki úr fjöldanum. Það skiptir ekki máli hve greindur þú ert, á hvaða aldri þú ert, hversu vel þér gengur í lífinu, það er sama hver þú ert, þú getur orðið sjúkur spilafíkill. Það er ekki hægt að segja fyrir um með neinni vissu hver getur orðið sjúkur og hver ekki.

Það er auðvelt að afneita spilafíkn

Spilafíkn er ólík áfengis- eða vímuefnafíkn að því leyti að einkennin bera menn síður utan á sér. Það eru heldur ekki til nein blóðpróf til að ákvarða á hvaða stigi spilafíknin er. Spilafíklar líta yfirleitt eðlilega út allt þar til seinni stigum sjúkdómsins er náð. Spilafíkillinn er ekki loðmæltur eða reikull í spori. Hann getur sannfært sjálfan sig og aðra um að hann sé aðeins í tímabundnum peningavanda sem brátt muni lagast.

Hægt er að meðhöndla spilafíkn

Á Íslandi er hægt að meðhöndla spilafíkn og veita einstaklingum og fjölskyldum þeirra stuðning. GA, (Gamblers Anonymous) Sjálfshjálparhópar spilafíkla, sem starfa skv. 12 – spora kerfinu. Margir hafa náð bata og fengið þann stuðning í GA sem þeir þurfa til að hætta spilamennsku og til að lifa eðlilegu og heilbrigði lífi aftur.

Gam – Anon

Stuðningshópar skv. 12 – spora kerfinu fyrir maka, fjölskyldu og vini spilafíkilsins. Oft þurfa þessir aðilar hjálp til að ráða við það tilfinningalega álag og fjárhagsvanda sem fylgir þessum sjúkdómi.

Fagleg ráðgjöf

Þjálfaðir meðferðaraðilar og fíkniefnaráðgjafar geta hjálpað spilafíklum að skilja spilafíknina og hjálpað þeim að breyta lífsstíl. Þeim er meðal annars kennt að ráða við fíkn og streitu. SÁÁ veitir göngudeildarþjónustu fyrir spilafíkla bæði í Reykjavík og á Akureyri og alvarlegustu tilfellin er hægt að leggja inn á sjúkrastofnun.

Aðvörunarmerki spilafíknar
· misst úr skóla eða vinnu vegna fjárhættuspila?
· spilað lengur en þú ætlaðir þér?
· spilað til að gleyma þér og forðast áhyggjur og vanda?
· fengið löngun til að halda upp á atburði með því að spila smátíma?
· fengið peninga að láni til að spila eða að borga spilaskuldir?
· vanrækt sjálfan þig eða fjölskyldu þína vegna spilamennsku?
· spilað,lagt undir til að bjarga fjárhagnum?
· lofað sjálfum þér eða öðrum að hætta spilamennsku en ekki staðið við það?