Ilmur næsti gestur Heiðursmanna

Ilmur Kristjánsdóttir, nýr formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar og varaborgarfulltrúi Bjartrar framtíðar, verður gestur Heiðursmanna á næsta fundi sem verður haldinn fimmtudaginn 7. maí og hefst að venju klukkan 12.

Ilmur er varaborgarfulltrúi frá því síðasta vor en er nýlega komin til starfa eftir fæðingarorlof og er í þann veg að taka við stjórnartaumum yfir þeim umsvifamikla rekstri sem fram fer í nafni velferðarráðs borgarinnar. Hingað til hefur Ilmur verið þekkt fyrir annað en störf í stjórnmálum enda er hún ein þekktasta leikkona landsins.ilmur

Á fundum Heiðursmanna er í boði léttur hádegisverður gegn vægu gjaldi, góður félagsskapur og fræðandi umræður. Heiðursmenn SÁÁ er félagsskapur velunnara SÁÁ sem hittast reglulega og vinna að hagsmunamálum SÁÁ.

Þeir hittast annan hvern fimmtudag í Von, húsi SÁÁ, Efstaleiti 7, til að ræða landsins gagn og nauðsynjar og taka á móti gestum. Þeir sem hafa áhuga á starfi Heiðursmanna geta sent póst á netfangið heidursmenn@saa.is eða hringt í SÁÁ í síma 530 7600.