Ísland í forystu í baráttunni við lifrarbólgu C – mikilvægt hagsmunamál að bættri heilsu skjólstæðinga SÁÁ

Vísindatímaritið The Lancet Gastroenterology & Hepatology birti í gær, 22. Júní 2021, grein eftir hóp vísindamanna á Landspítala, Sjúkrahúsinu Vogi og Embætti landlæknis um árangur Meðferðarátaks gegn lifrarbólgu C  sem staðið hefur síðan í ársbyrjun 2016.  Í greininni og í sérstakri umsögn um hana í tímaritinu  kemur fram að markmiðum um þjónustuþekjun[1] í átt að útrýmingu lifrarbólgu C sem meiri háttar lýðheilsuvandamáls hafi verið náð á Íslandi á fyrstu þremur starfsárum átaksins.  Af 865 greindum tilfellum lifrarbólgu C á Íslandi hafi 824 (95.3%) fengið þjónustu í átakinu og 717 (90.2%) hlotið lækningu á þeim tíma.   Er talað um þennan árangur sem mikilvægan áfanga í átt að útrýmingu lifrarbólgu C á heimsvísu.

Í greininni er því lýst hvernig átakið var skipulagt og þróað með þverfaglegu samstarfi þriggja sérgreina (lifrarlækningar, smitsjúkdómalækningar og fíknlækningar).  Meginsmitleið lifrarbólgu C á Íslandi er samnýting áhalda hjá þeim sem neyta fíkniefna í æð og rekja má meirihluta smita (nýrra og eldri smita) til slíkrar notkunar.

Hin þverfaglega, skaðaminnkandi nálgun sem beitt var með nánu samstarfi Landspítala og SÁÁ gerði kleift að ná til sjúklinga með alvarlegan fíknsjúkdóm sem reynsla flestra landa sýnir að erfitt er að ná til. Þetta er talið lykillinn að þeim mikla árangri í meðferð sjúklinga með lifrarbólgu C sem lýst er í greininni. Þessi nálgun varð einnig til þess að samstarf um skimun og meðferð var komið á í fangelsum, félagslegum úrræðum og skaðaminnkandi úrræðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka sem hafa snertiflöt við einstaklinga sem nota vímuefni í æð.

Þrátt fyrir þennan árangur greinast enn einstaklingar með ný smit og  þeir sem læknast geta smitast á nýjan leik. Þetta tengist m.a. vaxandi vímuefnaneyslu í landinu og samnýtingu á sprautum og öðrum búnaði. Mikilvægt er að takast á við þessar áskoranir með forvörnum, öflugri meðferð fíknsjúkdóma, skaðaminnkun og lyfjameðferð þeirra sem greinast.  Þar mun SÁÁ áfram leika lykilhlutverk með þjónustu sinni við fólk með fíknsjúkdóm

[1] Markmið um þjónustuþekjun (e. Service coverage targets)  a. greining 90% tilfella b. 80% tilfella meðhöndluð