Ísland leiðandi í baráttunni við lifrarbólgu C

Á alþjóðlegu lifrarþingi í París hinn 13. apríl 2018 kynnti Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, annars vegar niðurstöður úr fyrstu 15 mánuðum meðferðarátaks gegn lifrarbólgu C, sem er samstarfsverkefni Landspítala og SÁÁ, og hins vegar árangur sem má sjá meðal sjúklinga sem hafa sprautað vímuefnum í æð og leggjast inn á Vog. Á fyrstu 15 mánuðum meðferðarátaksins höfðu 518 sjúklingar hafið lyfjameðferð á Landspítala, Vogi og í fangelsi og 473 lokið henni. Af þeim sem luku meðferðinni hlutu 94% lækningu en að öllum meðtöldum, einnig þeim sem ekki luku, læknuðust 90%. Eftir 2 ár í átakinu hafa nú 652 einstaklingar hafið meðferð við lifrarbólgu C sem er ennþá í fullum gangi.

Ráðstefnan í París stóð yfir í fimm daga og var afar fjölsótt, með um tíu þúsund þátttakendur hvaðanæva úr heiminum. Í fréttatilkynningu frá ráðstefnunni var fjallað sérstaklega um íslenska verkefnið og einnig var farið yfir það í lokaatriði þar sem aðalniðurstöður ráðstefnunnar voru kynntar. Þá birtust fjölmörg tvít frá ráðstefnugestum á Twitter. Á myndinni sést Valgerður kynna íslenska verkefnið.

Algengi lifrarbólgu lækkað um 72%
Athygli hafa vakið tölur um algengi lifrarbólgu C meðal einstaklinga sem leggjast inn til vímuefnameðferðar á sjúkrahúsið Vog og hafa sögu um neyslu vímuefna um æð. Þar kemur fram að algengi lifrarbólgu C hefur lækkað um 72% síðan átakið hófst eða úr 43% algengi árið 2015 í 12% algengi árið 2017. Einnig má sjá verulega fækkun á nýju smiti, eða nýgengi, meðal einstaklinga á Vogi eða 53% frá 2015 til 2017, þrátt fyrir að fjöldi nýrra einstaklinga í hópi þeirra sem sprauta sig sé meiri. Þetta er vísbending um góðan árangur eftir aðeins 2 ár í meðferðarátakinu gegn lifrarbólgu C á Íslandi þar sem fer saman gott aðgengi að skimun, greiningu og meðferð. Árangurinn þykir sérstaklega markverður vegna markmiða WHO um stöðu lifrarbólgu C í heiminum 2030. (Hepatitis C elimination WHO).

Ísland gæti náð markmiðum 10 árum fyrr
Vísindateymi meðferðarátaks gegn lifrarbólgu C hefur nýverið birt tvær greinar í virtum vísindatímaritum þar sem fram kemur að Ísland hefur góða möguleika til að verða fyrst til að ná markmiðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um útrýmingu lifrarbólgu C sem meiri háttar heilbrigðisvár.

Í fyrri greininni sem birtist í Journal of Internal Medicine hinn 7. mars síðastliðinn er bakgrunni og skipulagi meðferðarátaksins lýst og því hvernig Ísland gæti orðið fyrst þjóða til ná markmiði WHO um 80% lækkun nýgengis lifrarbólgu C fyrir 2030. Í greininni kemur fram að gangi átakið áfram að óskum gæti Ísland náð að útrýma lifrarbólgu C sem meiriháttar heilbrigðisvá allt að 10 árum fyrr en áætlað var.

Áframhaldandi skimun mikilvægur þáttur
Þessi áætlun er studd með stærðfræðilíkani sem lýst er í annarri grein teymisins sem unnin var í samvinnu við Nick Scott og Margaret Hellard frá Burnet Institute í Ástralíu og birtist í Journal of Hepatology á þessu ári Í greininni kemur fram að stærðfræðilíkan var notað til að meta til hvaða aðgerða þurfi að grípa innan heilbrigðiskerfisins til að ná markmiðum WHO og á hvaða ári þeim yrði náð. Með áframhaldandi skimun fyrir lifrarbólgu C í áhættuhópum, aðgengi að lyfjameðferð og aukinni áherslu á skaðaminnkandi aðgerðir, svo sem aukið aðgengi að hreinum áhöldum til neyslu vímuefna í æð, muni Ísland ekki aðeins hafa möguleika á að verða fyrst þjóða til að ná markmiðum WHO, heldur geta viðhaldið þeim árangri og komið í veg fyrir að nýr faraldur brjótist út.

Um meðferðarátak gegn lifrarbólgu C
Í ársbyrjun 2016 hófst opinbert átak á Íslandi gegn lifrabólgu C sem stendur í þrjú ár. Landspítali er ábyrgur fyrir framkvæmd verkefnisins en aðalsamstarfsaðili er sjúkrahúsið Vogur. Yfirumsjón með verkefninu hefur sóttvarnarlæknir í umboði heilbrigðisráðherra. Unnt er að lækna lifrarbólgu C hjá flestum sjúklingum með viðeigandi lyfjagjöf og einstaklingum sem eru smitaðir af lifrarbólgu C og njóta sjúkratrygginga á Íslandi býðst nú meðferð með nýjum og öflugum lyfjum. Öllum þeim sem greinst hafa með veiruna verður boðin fræðsla, meðferð og eftirfylgni sem hluta af meiri háttar forvarnar- og lýðheilsuverkefni sem miðar að því að hefta útbreiðslu og útrýma sjúkdómnum hér á landi. Fyrirhugað er að meðferðarátakið standi í 2-3 ár.