Kvennameðferð SÁÁ frá 1995

Merkur áfangi náðst í áfengismeðferð hér á landi þegar byrjað var að bjóða konum sérstaka kvennameðferð hjá SÁÁ í janúar 1995. Þótt meðferð SÁÁ hafi komið verulega til móts við þarfir kvenna og það í vaxandi mæli með árunum, var þetta þörf og eðlileg endurbót á meðferðinni.

Þær framfarir í áfengismeðferð sem komið hafa konum til góða hafa komið í þremur megin áföngum. Fyrsta áfanganum var náð með Freeportferðunum, stofnun SÁÁ og endurskipulagningu á áfengismeðferð Ríkisspítalana á árunum 1977 til 1980. Eftir þessar breytingar á áfengismeðferðinni áttu konur miklu auðveldara með að fara í meðferð og hlutfall þeirra í sjúklingahópnum jókst úr rúmum 10% og var strax rúmlega 20% á fyrstu árum SÁÁ.

Annað framfaraskeið í áfengismeðferð fyrir konur var á árunum 1986 til 1988. Þá var mikil umræða meðal þeirra sem stóðu að áfengismeðferð um sérstöðu kvenna. Í kjölfarið var meira komið til móts við konurnar hjá SÁÁ. Fyrirlestrarnir voru í auknum mæli sniðnir að þörfum kvenna og í kvennahópum á Sogni og Staðarfelli var fengist við viðkvæm vandamál sem heyrðu konum til.

Þá var einnig komið af stað sérstökum stuðningshópum fyrir endurkomukonur í göngudeild SÁÁ og áttu konurnar kost á að njóta þessa stuðnings í heilt ár. Við þessar breytingar jókst þekking og reynsla starfsfólks SÁÁ á vanda vímuefnasjúkra kvenna mjög mikið. Þessi reynsla varð grundvöllur nýju kvennameðferðarinnar.

Í ársbyrjun 1995 hófst síðan sérstök meðferð fyrir konur eftir mikla undirbúningsvinnu á árinu 1994. Þessi meðferð var sérstaklega búin til og skipulögð frá upphafi til enda með þarfir vímuefnasjúkra kvenna í huga. Meðferðin byrjar strax á Vogi og þar eru konurnar saman í hópi og fá sérstaka fræðslu. Í kvennahópnum er reynt að skapa vinsamlegt umhverfi og aðstæður sem auðvelda konunum að taka sín fyrstu skref í meðferðinni. Ekki er vanþörf á þessu því að konur í áfengismeðferð sæta miklum fordómum og fá að jafnaði mun minni stuðning að heiman en karlarnir.

Frá upphafi er reynt að efla samstöðu kvennanna og búa til samhentan hóp sem þjappar sér saman í meðferðinni og eftir hana. Þetta er mjög nauðsynlegt því flestar vímuefnasjúkar konur er orðnar mjög félagslega einangraðar og eru í milli hættu á að einangrast jafnvel enn meira eftir meðferðina.

Á Vogi dveljast konurnar í 10 til 15 daga, en halda síðan meðferðinni áfram í fjórar vikur á Vík á Kjalarnesi. Megináherslan þar er lögð á að kenna konum að fást við löngun í vímuefni eða fíkn. Þeim er kennt að finna út við hvaða aðstæður þeim er hættast að fá löngun í vímuefni og hvernig þær eiga að bregðast við. Um leið er lögð áhersla á fjölskyldumálin og reynt að auka þátttöku fjölskyldunnar, einkum eiginmanna og kærasta, í þeim breytingum sem í vændum eru. Þarna eru konunum skapaðar aðstæður til að byrja að vinna úr ýmsum alvarlegum áföllum sem flestar þeirra hafa orðið fyrir. Sérstök áhersla er lögð á að byggja upp sjálfstraust þeirra og gerðar áætlanir til að rjúfa félagslega einangrun þeirra að meðferð lokinni.

Eftir meðferðina á Vík tekur við hópmeðferð í göngudeildinni í Reykjavík og á Akureyri sem stendur í eitt ár. Þar er haldið áfarm að vinna að þeim markmiðum sem þegar hafa verið nefnd en vaxandi áhersla er lögð á að konurnar verði virkar félagslega og að hópstarfið sé skemmtilegt og upplífgandi.

Kvennameðferðin þótti gefa það góða raun að árið 2003 var ákveðið að allar konur sem fara í endurhæfingu á Vík fara í slíka meðferð. Í ljós hefur komið að þessi meðferð hentar yngstu stúlkunum mjög vel.

Fyrst birt á saa.is 11. nóvember 2014