Læknarnir og fordómarnir

Fyrir nokkrum misserum var málefni lifrarbólgu C smitaðs einstaklings mikið í fréttum hér á landi. Einstaklingurinn hafði smitaðst af þessari oft banvænu veirusýkingu fyrir algera óheppni og átti sjálfur enga sök í málinu, þ.e.a.s. hafði ekkert gert til að eiga þessi veikindi skilið, ef þannig má að orði komast.

Lækning með nýjum lyfjum stóð til boða nema hvað þau voru mjög dýr. Höfðað var mál á hendur ríkinu til greiðslu lyfjakostnaðarins – mál sem einstaklingurinn tapaði.

Háværar raddir í fjölmiðum töluðu einum rómi um hve ósanngjörn slík niðurstaða væri fyrir viðkomandi einstakling fyrst hann átti enga sök á smiti sínu sjálfur. Þessi afstaða um sekt eða sakleysi sjúklinga lýsir svo miklum fordómum að furðu sætir.

Lifrarbólgu C smit á Íslandi er fyrst og fremst sjúkdómur þeirra sem hafa sprautað vímuefnum í æð, einu sinni eða oftar. Veiran berst á milli fólks með samnýtingu óhreinna áhalda. Á Íslandi hafa um 900 einstaklingar smitast með þessum hætti. Sumir þeirra ungir einstaklingar sem sprautuðu sig einu sinni í samkvæmi endur fyrir löngu.

Vörn og bjargræði þessara sjúklinga í veikindum sínum og gagnvart fordómum í samfélaginu, er ævinlega læknisfræði og fagleg viðhorf sem heilbrigðisstéttir temja sér í námi og starfi. Tveir sjúklingar með sama sjúkdóm eru auðvitað jafnstæðir, burtséð frá sekt eða sakleysi vegna athafna þeirra, burtséð frá skoðunum álitsgjafa og beturvitrunga, heldur séð með augum læknisins. Sem betur fer.

Lifrarbólga C er talinn hættulegasti smitsjúkdómurinn í dag. Úti í heimi deyja fleiri úr lifrarbólgu C en deyja úr alnæmi, berklum eða malaríu. Skimun fyrir lifrabólgusýkingunni er bæði besta forvörnin og nauðsynlegur undanfari hinnar dýru lækningar. Næstum allir smitaðir sjúklingar á Íslandi í dag hafa fengið skimun hjá SÁÁ og þekkja því stöðu sína og við þekkjum þá.

SÁÁ hefur undanfarna mánuði tekið þátt í meðferðarátaki ásamt Landspítalanum og Embætti landlæknis til að meðhöndla alla sem eru með lifrarbólgu C hér á landi. Margt bendir til þess til að hægt verði að næstum því útrýma þessum skæða smitsjúkdómi á Íslandi. Engin önnur þjóð hefur þessi gæði í dag. Þrátt fyrir fordómana.

Gætum að því hvað við hugsum og segjum.