Landlæknir heimsækir Vík

Í dag heimsótti Birgir Jakobsson landlæknir, ásamt þremur starfsmönnum frá Embætti landlæknis, nýja meðferðarstöð SÁÁ á Vík á Kjalarnesi. Farið var yfir húsið og aðbúnaðinn allan, sem er hinn glæsilegasti. Einnig var gamla Vík skoðuð, en um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á endurnýjun hússins sem og nýja og vandaða svefnálmu.

Nýbyggingin á Vík hefur þegar verið tekin í notkun og hýsir eftirmeðferð sem áður var á Vík, kvennameðferð og meðferð fyrir eldri menn, og eru nú 38 manns þar í meðferð. Það styttist í að gamla Vík verði einnig tilbúin og við þau tímamót verða töluverðar breytingar á starfseminni en öll inniliggjandi eftirmeðferð SÁÁ verður á þessum stað, í nýju og nýuppgerðu húsi. Á nýrri og uppgerðri Vík verður allur aðbúnaður fyrsta flokks, meðferðarrými karla og kvenna alveg aðskilin og nægt rými til útivistar. Meðferðin að Staðarfelli verður flutt í nýja húsið þegar allt er tilbúið, og þá verða gerðar hinar raunverulegu skipulagsbreytingar.

Í heimsókninni var rætt um ýmis mál varðandi meðferðina alla og eftirfylgni og drukkinn kaffisopi. Það dylst engum að hér er glæsilegur aðbúnaður sem hæfir okkar fólki í endurhæfingu og undirbúningi fyrir framtíð í bata.


Á myndinni eru Eyþór Jónsson, Kolbrún Svansdóttir, Ingunn Hansdóttir, Þóra Björnsdóttir, Valgerður Rúnarsdóttir, Ásgerður Björnsdóttir og Ásgrímur Jörundsson frá SÁÁ, ásamt Salbjörgu Bjarnadóttur, Birgi Jakobssyni, Leifi Bárðarsyni og Erlu Björgvinsdóttur frá Embætti landlæknis