Lengi býr að fyrstu gerð

shutterstock_250958242-minni

Rannsóknir í dag sýna okkur að atlæti fyrstu æviárin skipta sköpum fyrir heilsu síðar á ævinni.

Ef við hugsum til framtíðar, þá hugsum við um aðstæður og umhverfi barna í okkar samfélagi. Hvernig getum við aukið líkur á að börn á Íslandi búi við gott atlæti?

Það er í mörg horn að líta, eitt af þeim hornum er sá algengi vandi sem við sinnum hjá SÁÁ, áfengis- og vímuefnafíkn.

Til SÁÁ leitar ungt fólk, sem flest vill hætta neyslu áfengis og annarra vímuefna, þar sem neyslan hefur breytt aðstæðum þeirra og möguleikum. Helmingur þeirra á börn. Oftar en ekki er þetta unga fólk óánægt með framlag sitt í uppeldinu, finnst neyslan hafa haft áhrif á getu þeirra til að vera þeir uppalendur sem þeir vildu og gætu verið.

Hvað er mikilvægara en að veita þessum einstaklingum tækifæri? Tækifæri til inngrips til að hætta neyslu, sem þau hafa öll reynt endurtekið áður en til þess kemur að leita aðstoðar. Það er það sem þau biðja um þegar þau banka uppá hjá SÁÁ. Þarna vildum við geta lokið upp dyrum, alltaf, fljótt og örugglega, opna möguleikann til breytinga.

Það er augljóst hverjir gætu fengið mestan ágóða af þeim breytingum sem geta orðið, þegar einstaklingar með fíknsjúkdóm hættir neyslu áfengis og annarra vímuefna. Það eru jú börn þeirra.

„Það er augljóst hverjir gætu fengið mestan ágóða af þeim breytingum sem geta orðið, þegar einstaklingar með fíknsjúkdóm hættir neyslu áfengis og annarra vímuefna. Það eru jú börn þeirra.“

Það er algjörlega ótækt að hafa ekki tækifæri til að svara öllum þeim köllum og beiðnum sem að berast.

Auk þess eru börn foreldra með fíknsjúkdóm sjálf í aukinni áhættu að fá fíknsjúkóm síðar á ævinni vegna líffræðilegra þátta. Að eiga foreldra í bata frá fíkn er mikilvægt varðandi snemminngrip og íhlutun í vanda þessara barna síðar meir, ef til þess kemur.

Börn fólks með fíknsjúkdóm hafa fengið sálfræðiþjónustu á göngudeild SÁÁ í meira en áratug. Sú þjónusta hefur aldrei verið fjármögnuð af ríkinu og því borin uppi af söfnunarfé frá almenningi. Þessi mikli áhættuhópur ætti að vera í miðpunkti varðandi sértækar forvarnir. SÁÁ hefur ekki hætt þessari þjónustu og vonast eftir skilningi yfirvalda á henni og helst tækifæri til að efla hana til muna.

Framlag almennings með styrkjum, álfakaupum og velvild eru það sem gerir SÁÁ kleift að veita 30% meiri þjónustu en ríkið er tilbúið að borga fyrir. Þjónustan er ódýr, hún er vel virk og gengur alla daga. Hún er veitt af heilbrigðisstarfsmönnum á mörgum starfsstöðum og með mismunandi inngripi.

Við getum meira, ef við fáum til þess tækifæri. Næg eru verkefnin, ekki hvað síst meðal foreldra og barna þeirra.

Höfundur greinar